„Það eru nokkrir búnir að hringja í mig. Ég veit ekki hvernig þetta fór á kreik,“ segir Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra og hlær þegar DV nær af honum tali. Á kaffistofum hefur verið pískrað um að Ásmundur hafi verið rjúpnaskyttan sem var bjargað um síðustu helgi í Dalasýslu.
Skyttan var einungis týnd í um klukkutíma í Laxárdal en björgunarsveitir voru kallaðar út og fundu hana.
„Ég hef ekki farið í rjúpu síðan ég var unglingur,“ segir Ásmundur forviða. „Ég var á körfuboltamóti með dætrum mínum um helgina. En gjarnan myndi ég vilja að einhver myndi færa mér rjúpur, því mér finnst þær góðar á bragðið. Ég hef ekki tímann til að ganga á fjöll og veiða rjúpur.“