Heiðveig er Vestfirðingur að uppruna og fædd inn í mikla sjómannaætt árið 1979. Fyrstu árin ólst hún upp á Tálknafirði og í Reykjavík, elst fjögurra systkina. Faðir hennar, Einar Jóhannsson, var sjómaður og síðar stýrimaður og skipstjóri og móðir hennar, Þórdís Ólafsdóttir, því mikið ein með börnin.
„Þegar ég var þrettán ára vorum við fjölskyldan rifin upp og gert að flytja til Siglufjarðar. Pabbi var ráðin þangað sem afleysingaskipstjóri og stýrimaður á togara og bæjarfélagið vildi útsvarið. Sem unglingi fannst mér ekki spennandi að flytja þangað úr Breiðholtinu, þar sem ég var á fullu í íþróttum og félagslífi. Ég ætlaði nú ekki að flytja með og pakkaði ekki saman í herberginu fyrr en rétt áður en gámurinn kom til að sækja búslóðina,“ segir Heiðveig og hlær.
Af hverju fórst þú á sjóinn?
„Ég skildi ekki af hverju pabbi var alltaf svona lengi í burtu og af hverju við fengum sjaldnast að vita neitt um hvenær hann kæmi eða færi, ekki einu sinni hvort planið væri að vera á Íslandsmiðum eða ekki. Á þessum tíma var sennilega minna skipulag á hlutunum og útgerðunum hefur ekki þótt ástæða til að upplýsa fjölskyldur sjómanna um þessa hluti. En ég hef þá tilfinningu að það sé breytt í dag og til mikilla bóta.
Í eitt skiptið, þegar ég var fjórtán eða fimmtán ára, var hann búinn að vera meira en níutíu daga í burtu í einu. Veiðiferðirnar voru alltaf framlengdar og hann þurfti að taka aukatúra, þá var skipið gert út frá Flæmska hattinum. Þá ákvað ég að ég yrði að prófa að fara á sjó. Ég vissi að pabba þætti vænt um okkur og það hlaut að vera eitthvað meira í þessu en aðeins vinnan, fyrst hann gat verið svona lengi frá okkur.“
Á Siglufirði snerist lífið um sjávarútveg og Heiðveig kynntist snemma öllum hliðum fiskvinnslu, rækjuvinnslu, saltfiski og fleiru. Þegar aflinn var mikill var hringt úr frystihúsinu í skólann til að Heiðveig og skólasystur hennar gætu fengið að fara fyrr til að vinna. Atvinnulífið hafði forgang. Í kringum tvítugt ákvað hún að reyna fyrir sér sem háseti og faðir hennar hvatti hana til að sækja um á skipum rétt eins og aðrir myndu gera.
„Ég sótti um allt frá smábátum upp í togara. Flestir sögðu nei og sumir hlógu. Aðrir sögðu mér að hringja aftur eftir viku og því hélt ég utan um símtölin í stílabók.“
Fannst þeim skrýtið að stúlka væri að sækja um?
„Margir sögðust ekki ráða konur, punktur,“ segir Heiðveig með áherslu. „Aðrir reyndu að tala um fyrir mér og sögðu að ég hefði ekkert að gera í þetta. Ég komst loksins á togara frá Hafnarfirði sem heitir Ýmir, því það vantaði mann. En ég þurfti að þræta við skipstjórann og sannfæra hann að þetta væri sama vinna og í frystihúsinu. Hann þurfti að fá leyfi frá eigandanum, Guðrúnu í Stálskipum, sem var nú oft talin harðstjóri. Loks fékk ég að fara ef ég borgaði slysavarnaskólann sjálf. Ég hafði hálftíma til að drífa mig út í Fjarðarkaup til að kaupa nærbuxur og sokka og síðan fórum við á fínan þrjátíu daga úthafskarfatúr.“
Heiðveig segir að í upphafi hafi hún ekki séð sjómennskuna fyrir sér sem framtíðarstarf heldur hafi hún aðeins verið að athuga hvort þetta væri virkilega eitthvað sem varið væri í.
„Mér fannst þetta æði. Á þessum tíma var ekkert internet, ég var vakinn og búið að elda fyrir mig í hvert skipti sem ég fór á fætur og í lok vaktar. Síðan vann ég eftir klukkunni og fór að sofa eftir vakt. Þessi rammi og þetta næði var einstaklega heillandi og hentaði mér.“
Heiðveig starfaði næstu árin sem sjómaður, til skiptis sem háseti og kokkur á frystitogara. Um miðjan þrítugsaldurinn varð hún ólétt af elstu dóttur sinni og neyddist hún þá til þess að hætta um tíma. Heiðveigu fannst það fúlt því hún var fullfrísk en þessar reglur voru gerðar vegna fjarlægðarinnar frá næsta sjúkrahúsi. Hún glímdi þá við smávægiskvilla á meðgöngunni. Til að hafa eitthvað fyrir stafni fór hún því í viðskiptalögfræðinám í Háskólanum á Bifröst.
Þegar tvö börn bættust við fór Heiðveig í framhaldsnám í verkefnastjórnun og sjálfbærum orkuvísindum í Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands. Eftir það vann hún ýmis störf, til dæmis við stefnumótun og verkefnastjórnun hjá Veðurstofunni í tengslum við eldfjallafræði. Einnig sjálfstætt starfandi sem rekstrarráðgjafi og viðskiptalögfræðingur fyrir fyrirtæki. En hafið togaði alltaf.
„Þegar verkfallið skall á í fyrra fór ég að skoða kjaramálin því að líf mitt hefur alla tíð mótast af kjörum og aðbúnaði sjómanna. Ég sá að þarna var margt að og óunnið verk fyrir höndum. Það hefur alltaf verið sami ómur í þessum málum, alltaf verið að tala um verð og alltaf þessi ótti við atvinnurekandann og óttinn við að hafa skoðanir. Sjálf hafði ég upplifað þetta þegar við sex manna fjölskyldan neyddumst til að flytja til Siglufjarðar þar sem það þótti eðlilegt að sveitarfélagið gerði þá kröfu til útgerðanna að þeir menn sem störfuðu á skipunum þeirra hefðu þar lögheimili. Kerfið býður upp á þessa pressu frá sveitarfélögunum og útgerðarfélögunum. Með reynslu og þroska fór ég að hugsa hlutina upp á nýtt og fannst ég þurfa að koma því til skila.“
Heiðveig fór um þetta leyti aftur á sjóinn og hefur starfað síðan þá sem háseti og kokkur til skiptis. Þá vinnur hún enn við ráðgjöf og viðskiptalögfræði.
Hvað er það besta við að vera á sjó?
„Friðurinn,“ segir Heiðveig og brosir. „Aftengingin við allt áreiti. Ég hefði líklega einhvern tímann verið greind ofvirk, og ég er alveg pottþétt með athyglisbrest. Fyrir manneskju sem vinnur svona mikið með hausnum og fær endalaust af hugmyndum til að hugsa um, þá er þetta algjör lúxus. Sérstaklega að elda þar sem matargerð er sérlegt áhugamál mitt.“
En það versta?
„Fjarlægðin frá börnunum. Ég finn oft fyrir óbilandi söknuði, sérstaklega þegar ég heyri í þeim og þau eru lítil í sér. Ég venst því aldrei. En þau eru fljót að finna sér leiðir. Dóttir mín sagði til dæmis að hún væri leið þegar bæði ég og pabbi þeirra erum á leið út á sjó, sem stundum skarast, en það sé samt allt í lagi af því að það er svo gaman þegar við komum til baka. Það er dásamleg stund þegar börnin geta tekið á móti manni á bryggjunni.“
Heldur þú að það sé erfiðara fyrir konur en karla?
„Kannski að vinna líkamlega en við kynin erum misjafnlega byggð. Hvað varðar fjarveruna þá er það ekki svo. En það er snúið að vera sjómannskona því að þú verður að sætta þig við að makinn fari í burtu kannski allt upp í mánuð í senn. Maður áfellist alltaf þann sem er að fara, það er eðlileg tilfinning og ég upplifði það fyrst. Eins og þetta væri hans val. En ég hef séð þetta frá báðum hliðum og það er alveg jafn vont, eða jafnvel verra, að fara sjálfur. Aðeins ef maður er sáttur getur þetta gengið upp. En þetta er erfið staða því að maður er eins og einstætt foreldri án þess að vera það beinlínis.“
Fær maður samviskubit yfir því að fara á sjóinn frá fjölskyldunni?
„Já, vott af samviskubiti og söknuði. Sérstaklega ef makinn heima kennir þér um að vera skilinn eftir. Ég hef ekki upplifað það nema rétt í byrjun en bæði verið með mönnum á sjó sem hafa upplifað það og svo átt samtöl við aðrar sjómannskonur sem ómeðvitað bera þessar tilfinningar. Ofan á þetta missir maður af mörgum viðburðum og tímamótum í lífi barnanna, fjölskyldu og vina.“
Í kringum verkfallið fór Heiðveig að skrifa pistla um kjaramál sjómanna sem vöktu mikla eftirtekt og var hún hvött til að láta til sín taka á þeim vettvangi.
Það sem hún hefur einna helst gagnrýnt varðandi stéttarfélög sjómanna er hversu illa undirbúnir forsvarsmenn félaganna eru þegar þeir ganga að samningaborðinu.
„Sjómenn eru eftir á hvað varðar mörg réttindi sem landverkafólki þykja sjálfsögð. Til dæmis varðandi veikindarétt, veikindarétt barna, slysarétt, lífeyrissjóðsréttindi, orlofsréttindi og fleira. Við störfum jú eftir hlutaskiptakerfi en það breytir því ekki að við erum í launþegasambandi við atvinnurekendur okkar.“
Annað sem Heiðveig nefnir er hvernig Sjómannafélagið sjálft starfar á ógegnsæjan og ólýðræðislegan hátt.
„Mér fannst algjörlega galið að eftir svona langt verkfall þá höfðu þeir 40 tíma til að meta þessa samninga og kjósa um þá. Kosningin var ekki einu sinni rafræn heldur þurfti að mæta á skrifstofuna. Þá var leitað til mín um möguleika á að kæra atkvæðagreiðsluna sem ég leiðbeindi mönnum með, en það var ekkert úrskurðarvald heldur urðu þeir að kæra félagið til þess sjálfs.“
Af hverju viltu verða formaður Sjómannafélagsins?
„Af því að ég tel að það þurfti nýtt blóð þarna inn, nýjar áherslur, faglegri nálgun og breytt vinnubrögð. Ég tel mig fullkomlega geta klárað það. Ég hef óbilandi áhuga á málefnum sjómanna sem og óbilandi þörf til að leiða mál til lykta. Að kafa djúpt í mál eins og lög, lögskýringargögn og söguna á bak við lagasetningar er eitt af mínu uppáhalds,“ segir Heiðveig.
„Eitt það helsta sem skortir á er að miðla upplýsingum um félagið til félagsmanna. Þar er mjög torvelt að fá þær, hvort sem er á heimasíðunni eða með öðrum leiðum. Þeir sem stjórna þarna fara með félagið eins og það sé þeirra eigið, enda búnir að gera það í langan tíma. Kjarabarátta snýst ekki um það að berja í borðið heldur að vera undirbúinn og skipulagður þegar maður leggur fram sínar kröfur. Viðsemjendur okkar, SFS, koma alltaf vel undirbúin á fundi og eru komin fram úr okkur. Þeir eru líka sameinaðir á meðan við erum sundruð í um tuttugu félög. Ég myndi vilja sameina alla sjómenn í eitt félag og taka þá mjög opnar og góðar umræður um það með hvaða hætti sé best að gera það, þá með aðkomu þeirra sem eiga félögin, félagsmannanna sjálfra.“
Eftir að Heiðveig kynnti framboð sitt og síns lista nýverið, var reglum félagsins um kjörgengi skyndilega breytt á heimasíðunni. Mest íþyngjandi ákvæðið var að þriggja ára vera í félaginu var gerð að skilyrði fyrir kjörgengi til formanns, og var Heiðveig ásamt mörgum öðrum þar með útilokuð.
„Margir hverjir töldu að þeir væru að fara inn í félagið á fullum réttindum rétt eins og tekið er fram á heimasíðu og í samtölum við starfsmenn skrifstofu,“ segir hún.
Þegar Heiðveig spurðist fyrir um þetta var henni tjáð að reglunum hefði verið breytt á síðasta aðalfundi, fyrir nærri ári síðan, en ekki var hægt að veita aðgang að fundargerð heldur einungis senda ljósmyndir af stílabók með áprentuðum skjölum.
„Þetta eru algjörlega óboðleg og ólögleg vinnubrögð og það þarf að taka efnislega umræðu um þetta. Að breyta lögum stéttarfélags á heimasíðu og án heimildar aðalfundar. Á þessum ljósmyndum er aðeins að finna eina breytingu af átta sem voru gerðar á heimasíðunni. Ég set einnig stórt spurningarmerki við þessa fundargerð í ljósi þess hversu erfitt var að fá hana og að lagabreytinga er ekki getið í fundarboði eins og lögin kveða á um. Auk þess skrifar formaðurinn, Jónas Garðarsson, einn undir þó að fundarritari í stjórn félagsins eigi að gera það líka samkvæmt lögunum. Þessi skrípaleikur í kringum þessi lög og kynningu þeirra hefur gert þau óstarfhæf og greinar stangast á.“
Telur þú að fundargerðin hafi verið fölsuð?
„Nei, ég hef aldrei sagt það. En ég set spurningu við gildi fundargerðarinnar sjálfrar miðað við þennan skrípaleik og þessar sjö aukabreytingar sem allar varða réttindi félagsmanna og núverandi stjórn.“
Heldur þú að þetta sé gert til að halda þér frá stjórninni?
„Já, og ekki aðeins mér heldur öllum sem vilja breytingar og vilja láta til sín taka.“
Núverandi stjórn kynnti áætlun um sameiningu sjómannafélaga í ársbyrjun 2019 og Heiðveig segir að flestir félagsmenn hafi komið af fjöllum. Hún sé þó líkt og flestir fylgjandi því að sjómenn starfi saman í stéttarfélagi. Eftir að kjörgengismálið komst í hámæli hafa þrjú félög dregið sig út úr þeim viðræðum í bili og Jónas hefur kennt Heiðveigu persónulega um það uppnám.
„Hann hefur verið að tjá sig um þetta í dagblöðum og í útvarpi og vill meina að þetta sé mér að kenna. Það er í besta falli vanþekking á málinu og í versta falli yfirgengilegur hroki að heimfæra þessi slit á viðræðunum á mig, eingöngu vegna þess að ég bendi á rangfærslur í lögunum og óska eftir skýringum. Ég var ekki á þessum aðalfundi, vegna þess að ég var á sjó,“ segir Heiðveig og brosir.
Jónas hefur sagst ekki ætla að gefa kost á sér áfram en mun samt sinna starfi formanns út árið 2019. Heiðveig og hennar fólk hefur kallað eftir afsögn núverandi stjórnar og segir hún:
„Það er vegna þeirra alvarlegu aðgerða sem þeir virðast hafa farið í til þess að halda upplýsingum frá okkur félagsmönnum og mögulega reyna að afvegaleiða umræðuna. Það er samt sem áður mikilvægt að mínu mati, þá algjörlega óháð persónum og leikendum í þessu leiðindamáli, að fráfarandi formaður sitji í tæpt ár frá því að ný stjórn er kosin. Hvort sem hann kýs sjálfur að hætta eða verði kosinn frá. Þetta ár er vinnuár í undirbúningi næstu samningalotu, þar sem samningar renna út í lok árs 2019.“
Heiðveigu er mikið niðri fyrir um af hverju staðan er þessi en stendur þó keik.
„Ég skil ekki af hverju staðan er þessi. Ég hef öskrað á það að fá að taka þátt í störfum þessa félags, átt samtöl, komið með ábendingar og fleira. Aðrir hafa líka reynt en það er ekki hlustað á fólkið og okkur virðist einhvern veginn haldið viljandi frá, kannski af því að við erum ekki já-manneskjur,“ segir Heiðveig ákveðin.
„Ég veit ekki við hvað þeir eru hræddir, hvort þeir séu að fela eitthvað eða séu hræddir við að einhver sinni starfinu betur. Þessi viðbrögð, þessar ofsafengnu persónuárásir og rangfærslur sem núverandi formaður setur fram í fjölmiðlum gefa að sjálfsögðu tilefni til þess að halda að það sé verið að fela eitthvað. Sá málflutningur sem ég hef borið fram varðandi þetta mál hefur aldrei verið hrakinn. Þessu er frekar svarað með persónulegum árásum og skítkasti. Til dæmis að ég sé útsendari útgerðarinnar, reynslulaus og fleira í þeim dúr. Það er í rauninni verið að segja: Hvað er þessi kelling að tuða? Hann afvegaleiðir umræðuna af því að hann getur ekki svarað þessu með málefnalegum rökum og vísun í gögn. Það var búið að vara mig við því að það yrði spilaður „ljótur leikur“ en ég hefði aldrei getað ímyndað mér að leikurinn yrði svona.“
Trúnaðarmannaráð Sjómannafélagsins mun tilkynna A-lista fyrir 5. nóvember og mun þá óska eftir mótframboðum. Kosið verður á skrifstofu félagsins frá 24. nóvember til 10. janúar.
Áttu von á því að ykkar lista verði hafnað?
„Alveg eins, miðað við málflutning þeirra og rökleysur. Hins vegar lít ég svo á að framboð okkar sé löglegt þar sem lögin stangast á. Til stuðnings hef ég fengið tvö lögfræðiálit sem staðfesta það. Ég hef því óskað eftir að trúnaðarmannaráð taki á þessari spurningu.“