fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Kristinn Rúnar allsber í maníu á Austurvelli – „Ég vissi ekki sjálfur hvað þetta var“

Kristinn H. Guðnason
Miðvikudaginn 24. október 2018 22:00

Vettvangur maníu Berháttaði sig á Austurvelli.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristinn Rúnar Kristinsson hefur barist við geðhvörf í tæpan áratug og lent í ýmsum skrautlegum uppákomum í því alsæluástandi sem því fylgir. Hann komst í fréttirnar þegar hann berháttaði sig á Austurvelli, reyndi að tengjast Cristiano Ronaldo í gegnum Herbalife og stýrði umferð á sundskýlunni einni fata. Þetta skrásetur hann í bókinni Maníuraunir: Reynslusaga strípalingsins á Austurvelli sem kemur út 25. október. DV ræddi við Kristin um þessa baráttu.

Árekstrar við fjölskyldu og vini

Kristinn er nú að leggja lokahönd á bók þar sem hann lýsir baráttu sinni við geðhvörf, en einnig fjallar hann um æskuna og drauminn um atvinnumennsku í íþróttum. Hann segir að almenningur viti lítið um geðhvörf og hann hafi viljað varpa ljósi á hvernig sjúkdómurinn virkar, hvernig maníurnar gerast.

„Ég hef haldið fyrirlestra fyrir unglinga og alltaf spurt hvort þeir viti hvað geðhvörf séu. Aðeins um fimm prósent segjast vita það, sem er sláandi. Ég get fullyrt að um níutíu prósent fullorðinna vita það ekki. Þegar ég fór í mína fyrstu maníu, tvítugur, hélt fólk í kringum mig að ég væri í einhverju „flipp-tímabili“ af því að ég var örari og hagaði mér undarlega. Ég vissi ekki sjálfur hvað þetta var. Þegar ég var búinn að vera í þessu ástandi í sex vikur heyrði ég orðið manía í fyrsta skipti frá geðlækni.“

Kristinn greindist með geðhvörf árið 2009 og hefur skrifað um sína reynslu, bæði í pistlum í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Hann segir að fordómarnir gagnvart fólki með andlegar áskoranir séu að minnka, sérstaklega eftir baráttu eins og „Ég er ekki tabú“ og „Út með það.“ En mestu fordómarnir séu alltaf hjá þeim sem þurfa að kljást við þetta.

„Fólk um fimmtugt og eldra á erfiðast með að tala um þetta. Svona mál voru ekki rædd áður fyrr.“

Hefur fólk í kringum þig sýnt ástandi þínu skilning?

„Nei, ég tala um það í bókinni að mér hefur fundist sem fjölskylda mín hafi ekki skilið geðhvörfin í gegnum tíðina. Maður þarf að hafa upplifað þetta sjálfur til að skilja þetta til fullnustu. Ég hef lent í mörgum árekstrum við fjölskyldu mína, sérstaklega í maníunum sjálfum. Maður verður að passa hvað maður segir við manneskju í þessu ástandi og það getur verið eins og að skvetta olíu á eld að ætla að grípa inn í. Einn félagi minn spurði mig á rúntinum á Hringbrautinni hvort ég vildi hitta geðlækni. Þá sagði ég honum að snarstoppa bílinn, lamdi í plássið fyrir ofan hanskahólfið, rauk út og gekk úr Reykjavík heim í Kópavog. Ég bjó hjá foreldrum mínum og systkinum á þessum tíma og það voru daglegir árekstrar. Nú bý ég einn og það er miklu betra.“

Kristinn hefur lært að vera sem mest einn þegar hann er í þessu ástandi. Hann lætur samfélagsmiðla að mestu leyti vera og svarar oftast ekki í símann. Þá er hann í sínum eigin heimi að sinna verkefnum.

Missti bróður í flugslysi „Ég fór í eitthvert ástand strax, grét, svaf ekkert, ráfaði um og meðtók ekkert sem var sagt við mig.“

Missti bróður í flugslysi

Kristinn er Kópavogsbúi í húð og hár, alinn upp í sex systkina hópi. Eldri bróðir hans Guðni lést í flugslysi í Kanada sumarið 2007 aðeins 22 ára að aldri.

„Við vorum nánir og mér finnst ég alltaf finna fyrir honum, sérstaklega þegar ég er í maníu. Hann ýtir á mig að skapa og skrifa. Mér finnst hann eiga þátt í þessari bók sem ég er að gefa út núna.“

Guðni, sem var einn fremsti hjólabrettamaður landsins, var í flugnámi í Kanada. Hann var að taka síðustu tímana áður en hann hefði fengið atvinnuflugmannsréttindi þegar vélin fórst í nauðlendingu í skógi. Mælirinn bilaði og Guðni þurfti að hækka flugið vegna óveðursskýs.

„Hann lenti vélinni þannig að hann sjálfur tæki mesta höggið því hann vissi að hann bæri ábyrgð á þessu. Davíð Jónsson, besti vinur hans, var með og tveir aðrir. Davíð fór illa út úr þessu en er í góðu ásigkomulagi í dag og meira að segja enn þá að skeita.“

Kristinn var staddur á Benidorm þegar vinkona móður hans sem var í nágrenninu kom til hans og sagði honum fréttirnar. Hann segist hafa fengið einhverja ónotatilfinningu áður en hún kom til hans, einhvern fyrirboða um hvað var í vændum.

„Ég fór í eitthvert ástand strax, grét, svaf ekkert, ráfaði um og meðtók ekkert sem var sagt við mig. Það var erfitt að upplifa þetta fjarri fjölskyldunni og samferðafólk mitt þurfti að vakta mig. Ég tók flug heim tveimur dögum síðar og það var sérstaklega erfitt eftir að hafa misst bróður sinn í flugslysi.“

 

Íhugaði sjálfsvíg hjá ömmu sinni „Svo fór ég út á svalir og hugsaði um að fleygja mér fram af.“

Íhugaði sjálfsvíg hjá ömmu

Kristinn segist hafa verið mjög sérstakur krakki. Hann las minningargreinar í Morgunblaðinu til að sjá hvort hann hefði einhver tengsl við fólkið. Hann var gömul sál og átti auðvelt með að tengjast eldra fólki.

Hann átti við námsörðugleika að stríða og var mikill einfari en gekk vel í íþróttum, bæði knattspyrnu og körfuknattleik. Fram að áttunda bekk var hann með fremstu keppendum á landinu í báðum greinum. En þá kom skellurinn mikli.

„Ég fór úr 50 kílóum í 62 á einu sumri. Getan og sjálfstraustið hvarf og ég var á endanum settur í markið. Það helltist yfir mig svart þunglyndi og ég hélt að mér myndi aldrei líða vel aftur.“

Það var á þessum tíma sem Kristinn íhugaði sjálfsvíg, aðeins þrettán ára gamall.

„Ég fór í heimsókn til ömmu minnar, sem bjó á tíundu hæð í Gullsmáranum, eftir fótboltaæfingu og átti innihaldslaust spjall við hana. Svo fór ég út á svalir og hugsaði um að fleygja mér fram af. En ég hætti við af því að mér fannst ég ekki geta gert fjölskyldu minni þetta. Tveimur dögum seinna brotnaði ég saman fyrir framan foreldra mína sem voru búin að reyna að hressa mig við.“

Eftir þetta komu þunglyndishrinurnar, tíu eða tólf dagar í senn, og botninn yfirleitt á sjötta eða sjöunda degi.

„Krakkarnir vissu ekkert hvað var að gerast hjá mér og skólayfirvöld sýndu mér skilning en það var engin alvöru hjálp til staðar. Þetta er enn þá svona í grunnskólunum. Kennararnir sem ég hef rætt við eftir fyrirlestra hafa sagt að þeir ræði ekki um geðsjúkdóma við krakkana.“

Reyndir þú að fela þetta?

„Já. Ég var í feluleik frá 2002 til 2014. Þá svipti leikarinn Robin Williams sig lífi eftir baráttu við þunglyndi. Vinkona mín sagði mér að vitundarvakning væri að fara af stað og allir sem hefðu sögu að segja ættu að opna sig og ég gerði það.“

 

Alsæluástand

Hvernig líður þér þegar þú ert í maníu?

„Þetta er vellíðunarástand. Það er sagt að þetta sé eins og að vera á kókaíni, amfetamíni og sýru öllu í einu, en ég hef ekki prófað það,“ segir Kristinn og brosir. „En þetta tekur mjög á, því maður sefur mjög lítið. Í fyrra var ég í sjö vikur í maníu og þá svaf ég ekki nema tvo eða þrjá tíma á sólarhring, alltaf á daginn, og fór aldrei í djúpsvefn. Ég var með mikla orku, æfði upp í allt að sex tímum á dag og grenntist mjög hratt. En litlu atriðin eins og að þvo þvott sátu á hakanum vegna lítillar þolinmæði, þess vegna var íbúðin mín í rúst. Ég var einnig alltaf að týna hlutum og ég tengi það við djúpsvefninn. Síðan vinnur líkaminn þetta allt til baka í niðursveiflunni. Þá get ég sofið í tuttugu tíma á sólarhring.“

Kristinn hefur alltaf farið í sínar maníur á sumrin, sérstaklega síðsumars og kemur niðursveiflan þá á haustin. „Það þekkist alveg að fólk fari í maníur á veturna en er sjaldgæfara hér. Íslenska veðrið er bipolar,“ segir Kristinn og hlær.

Hann segir maníurnar einnig tengjast skapi hans og hvað sé að gerast í lífinu. Velgengni getur hrundið maníu af stað.

„Ég er meðvitaður um að ég gæti farið í maníu eftir að bókin kemur út. Þá vegna vellíðunar vegna þess að hafa klárað verkið og sjá það fæðast. En það er ekki öruggt.“

Gerir þú þér grein fyrir að vera í maníu?

„Já, þess vegna get ég skrifað um það. En það er samt sjaldgæft því flestir ranka við sér eftir nokkurra vikna ástand og vita ekkert hvað gerðist, eins og „blackout“ eftir drykkju eða fíkniefnaneyslu.“

 

Kristinn og Cristiano
Taldi að Herbalife samstarf væri í vændum.

Kristinn og Cristiano Ronaldo

Í maníu fylltist Kristinn óbilandi sjálfstrausti og nefnir hann að hægt sé að nýta það ástand til góðs. Margt hæfileikafólk sem skarað hefur fram úr á sínu sviði hefur verið með geðhvörf. Það hefur ekki alltaf endað vel, til dæmis hjá Vincent van Gogh, Kurt Cobain, Marilyn Monroe og Amy Winehouse.

„Það fylgir þessu líka mikilmennskubrjálæði og ranghugmyndir, sérstaklega í lokin. Þú verður miðpunktur alheimsins og heldur að þú getir meira en þú getur. Hjá mér koma iðulega upp atvinnumannsdraumar í íþróttum. Það var sárt að ekkert varð úr fótboltanum, þar sem hafðar voru væntingar um slíkt. Þegar ég var tíu ára æfði ég mig í að skrifa eiginhandaráritanir hratt þar sem ég var farinn að undirbúa mig furir að þurfa að skrifa þúsundir. Þegar ég flosnaði upp úr boltanum fann ég fyrir mikilli skömm og hef ekki jafnað mig á því enn.“

Í einu ástandinu birti Kristinn mynd af sér við auglýsingaskilti sem á var mynd af knattspyrnumanninum Cristiano Ronaldo að auglýsa Herbalife, vöru sem Kristinn seldi og notaði mikið áður fyrr.

„Ég setti myllumerki við og var alveg sannfærður um að hann myndi sjá þetta og heyra í mér í kjölfarið. Við myndum síðan fara í samstarf. Það hafa komið upp fleiri tilvik þar sem ég hef heyrt eða séð eitthvað, til dæmis lög í útvarpinu, og fundist talað til mín. Þetta eru mjög algeng einkenni og margir hafa ferðast milli landa til að hitta átrúnaðargoðin sín,“ segir Kristinn og hlær.

 

Strípalingur á Austurvelli

Á loka stigi maníu fer Kristinn að finna fyrir ofsóknarbrjálæði og ofsahræðslu. Hann heldur þá að einhver sé að elta hann og reynir þá að flýja, til dæmis með því að keyra hratt í burtu. Kristinn hefur einnig sýnt af sér annars konar undarlega hegðun í maníu, til dæmis í tvö skipti tekið að sér að stýra umferð og í annað skiptið á sundskýlu einni fata.

„Ég hafði búið í Mexíkó og séð hvernig umferðarmenningin þar var betri en hér heima. Í eitt skipti var ég að stjórna umferð við Smáralindina, banka í rúður hjá fólki og skamma það. Eftir það skipti fór ég í nauðungarvistun á bráðageðdeild. Í hitt skiptið var ég heitum potti heima á Digranesheiðinni. Þá fór ég á skýlunni að Digranesveginum, stýrði umferð og skammaði fólk. Þá kom Biggi lögga og handtók mig og ég var fluttur á geðdeild.“

Undirtitill bókarinnar vísar í atvik sem átti sér stað á Austurvelli árið 2015 í kringum #freethenipple-átakið, þegar stúlkur gengu um berar að ofan. Kristinn varð vitni að þessu og fannst vera einhver ástæða fyrir því að hann væri þarna. Hann gekk því að styttunni af Jóni forseta og klæddi sig úr öllum fötunum til að sýna baráttunni samstöðu.

„Það var hringt í lögguna en ég var fljótur í fötin aftur og kom mér á brott. Ég var í bol merktum Herbalife og félagi minn úr körfunni, sem var í löggunni, áttaði sig á hver strípalingurinn hefði verið. Þá var mér fylgt inn í lögreglubíl.“

 

Eyddi milljón á mánuði

Annað sem fylgir ástandinu er gríðarleg eyðslusemi. Í fyrstu maníunni árið 2009 var Kristinn staddur í Prag og kláraði hann þá allan gjaldeyrinn sinn á fyrsta degi. Samferðamenn hans héldu að hann væri á sýru og hugsuðu aðeins um að reyna að koma honum heilum heim. Í maníunni árið 2017 tók hann 500 þúsunda króna lán hjá Netgíró og eyddi samstundis tæpum 200 þúsund í íþróttafatnað. Í maníunni árið 2017 eyddi hann einni milljón á mánuði og hefði eytt meira ef hann hefði getað.

„Þetta er dæmigert. Fólk hefur eytt miklu hærri upphæðum í maníuástandi og með sjálfstraustinu kemur sannfæringarkraftur til þess að útvega sér lán.“

Hefur þú einhvern tímann óttast að valda slysi, á þér eða öðrum?

„Já, ég hef afhent pabba bíllyklana því að maður getur orðið villtur við að keyra í umferðinni. Í fyrra fór ég því mestallt fótgangandi. Þá munaði minnstu að illa færi þegar ég var að hlaupa yfir götuna við Hörpu, maður gefur sér ekki tíma í að bíða eftir ljósum. Það keyrði bíll á 80 kílómetra hraða fyrir framan mig rétt áður en ég steig yfir götuna. Ég hugsaði hins vegar ekki mikið um þetta fyrr en seinna.“

 

Maníuraunir
Ítarlegar lýsingar á baráttu við geðhvörf.

Gefa lyf eins og Smarties

Hvernig finnst þér ástandið á geðdeildinni vera í dag?

„Ekki gott,“ segir Kristinn og brosir út í annað. „Það er ekki hugað að því rólega umhverfi sem þarf að vera til staðar á geðdeild. Þegar ég var þar inni, á mesta álagstímanum í ágúst í fyrra, voru mikil læti fyrir utan, verið að vinna með höggbora og loftpressur. Starfsfólkið sjálft var að missa vitið. Þar sem verið var að vinna úti í garði var ekki hægt að fara út til að fá ferskt loft. Ég komst ekki út í níu daga samfleytt. Annar vistmaður kýldi fjóra starfsmenn sömu helgina út af þessu.“

Á bráðageðdeildinni eru aðeins tólf pláss og þess vegna sé sífellt verið að útskrifa fólk til að rýma fyrir nýjum sjúklingum. Fá þeir þá ekki þá meðferð sem þeir þurfa. „Þegar þú ert með marga sjúklinga saman í maníu er það eins og að hafa óða hunda saman í litlu rými. Suma dagana fer maður niður á við í bata.“

Kristinn er ekki hrifinn af þeirri stefnu að beita lyfjum við öllu og telur skorta samtalsmeðferðir. Sjálfur hefur hann verið á Seroquel, sem veldur mikilli syfju og ofþyngd.

„Læknarnir gefa þetta eins og Smarties. Í fyrstu innlögninni var slökkt á mér með þessu. Ég missti áhugann á íþróttum, svaf tólf tíma á sólarhring og borðaði þess á milli.“

Það sem honum finnst einnig vanmetið meðferðarúrræði er raflost. Eftir eina slíka var hann einkennalaus í þrjú og hálft ár. Hann segir þó að fólk megi ekki fara of ört í slíka meðferð því að skammtímaminnið versni.

Kristinn segist ætla að gefa hluta ágóðans af bókinni til bráðageðdeildarinnar. „Ég veit að það mun ekki muna miklu en mig langar til að láta gott af mér leiða.“ Bókin Maníuraunir kemur út þann 25. október og verður fáanleg á síðunni kristinnrunar.com. Hægt er að panta eintak nú þegar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024