fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Fókus

Veist að heimili og persónu Harðar eftir búsáhaldabyltinguna: „Stundum hef ég þurft að flytja mig um set út af þessu“

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 12. október 2018 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eftir að bankarnir hrundu haustið 2008 og hrikti í stoðum samfélagsins, steig einn maður fram og skipulagði mótmæli fyrir utan þinghúsið á Austurvelli. Sá maður var Hörður Torfason, söngvaskáld og þekktur baráttumaður fyrir réttindum samkynhneigðra. Í fimm mánuði stýrði hann fundum þar til stjórnin féll og boðað var til kosninga. Hörður hefur nú gefið út minningar sínar frá þessum tíma með það markmið að miðla af reynslu sinni til komandi kynslóða. Hörður ræddi við DV um þessa átakatíma.

Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV.

Sýnileiki til að takast á við fordóma

Hörður er aðgerðarlistamaður og pólitískt starf hefur fylgt hans sköpun um áratuga skeið. Bæði í tónlist og leiklist. Rót þessa má finna í hans eigin lífi og baráttu fyrir viðurkenningu sem samkynhneigður maður.

„Átján ára gamall gerði ég mér grein fyrir þessu og fór ekki í felur með þetta. Ég þverneitaði að láta berja mig niður þrátt fyrir þær árásir sem ég varð fyrir. Þegar ég gekk í gegnum leiklistarnám, þá var það mjög algengt að veist væri að mér og ég varð niðurbrotinn ungur maður. En ég hafði ekki skap í mér til að fara í felur. Ef ég mátti ekki vera sá sem ég er, hver átti ég þá að vera? Þegar maður mætir slíku fólki, sem reynir að niðurlægja annað fólk með hnefann á lofti, sér maður hversu mikil heimska og illska þetta er. Það var lengi þjóðarsport að taka fólk niður sem féll ekki inn í normið. Þetta skelfilega ástand var knúið áfram af mikilli vanþekkingu og alkóhólisma.“

Nánustu vinir Harðar vissu að hann væri samkynhneigður þegar hann var að stíga sín fyrstu skref í tónlistinni. Hann var beðinn að ræða þetta ekki opinberlega til að skemma ekki fyrir plötusölunni en hann vildi ekki fara í felur með það. Árið 1975 opnaði hann sig um samkynhneigðina í viðtali og þá varð hann á einu augnabliki umtalaðasti og mest útskúfaði maður landsins.

„Af hverju á maður að lifa í fangelsi heimskunnar? Er ég ekki frjáls manneskja? Eftir að ég sagði frá þessu opinberlega varð allt vitlaust og það sagði sitt um ástandið í mannréttindamálum hér á landi. En réttur eins er réttur allra.“

Þú hefur þurft að vera hugrakkur til að gera þetta?

„Hugrekki byggir á hræðslu, hræðslu sem heldur manni vakandi. Ég menntaði mig í leikhúsi, varð listamaður. Ég var aðeins að sinna starfi mínu sem slíkur, takast á við tilveruna. Notaði sjálfan mig í stað þess að benda annað. Já, á nokkrum árum varð ég mjög var eftirsóttur og með fullt af verkefnum á þessum tíma. Var í kvikmyndum, að halda tónleika, gefa út plötur, í leikhúsi og sat fyrir sem módel. En ég varð að flýja land. Gróflega ofsóttur. Ég fékk ekki atvinnutilboð á Íslandi eftir þetta viðtal fyrr en 1998 og þá vegna þess að ég vakti athygli á þeirri staðreynd. Fordómar erfast og verða alltaf til í samfélaginu. Hluti af því að takast á við þetta opinberlega var að standa fyrir stofnun Samtakanna ’78. Mín aðferð til að takast á við fordóma var að vera sýnilegur, ferðast um landið með sögur mína og söngva.“

Hörður segir að bókin sem hann skrifaði sé í raun kennslubók um hvernig eigi að fást við svona mál.

„Ef maður stendur upp og lætur engan bilbug á sér finna þá hefur maður sigur á endanum. Það tekur marga smá ósigra til að vinna þá stærstu. Þetta er oft mjög lýjandi en þá er að taka sér frí og hvíla sig til að geta komið til starfa á nýjan leik. Þetta er „Mín“ aðferð sem virkar en hún er mjög krefjandi,“ segir Hörður. „Sem ungur maður gerði ég mistök á mistök ofan því að ég var í myrkri að þreifa mig áfram. En smám saman tókst mér að vinna upp ákveðinn kjarna og ákveðna reynslu í hvernig hægt er að takast á við slæma valdhafa. Við eigum öll þetta kerfi, það er ekki einkaeign lítils og gráðugs hagsmunahóps valdhafanna, og við eigum ekki að láta valta yfir okkur endalaust. Þetta sýndum við hópurinn á Austurvelli og víðar um landið. Við sögðum „Hingað og ekki lengra. Hér erum við, við höfum kröfur“ og það heppnaðist.“

 

„Hann steytti hnefann að mér og sagði mér að snáfa aftur í vélina þar sem ég ætti heima“

Veist að heimili og persónu

Að vera foringi í svona stórum og heitum aðgerðum hafði vissulega áhrif á persónulegt líf og feril Harðar. Eftir að hafa misst alla útvarpsspilun, plötusölu og fleira eftir viðtalið fræga árið 1975 náði hann að vinna sig upp sem söngvaskáld og árið 2008 var hann vinsæll listamaður. Hann hélt vel sótta tónleika á hverju hausti og hafði gert um árabil. Árið 2008 seldust 1.100 miðar á hausttónleikana en ári seinna seldust innan við 200 miðar.

„Það kom bakslag og tónlistarferillinn tók slíka dýfu að ég hætti alfarið að koma fram. Árin eftir mótmælin fékk ég alvarlegar hótanir. Þetta fylgir því að ganga í broddi fylkingar fyrir öðruvísi hugsun. En ég undirstrika að ég starfa sem venjulegur borgari með stjórnarskrárvarinn rétt til þátttöku. Stundum hef ég þurft að flytja mig um set út af þessu.“

Var veist að heimili þínu?

„Já, húsið mitt og bíllinn minn hafa oft orðið fyrir árásum, aumingja bíllinn minn,“ segir Hörður og hlær. „Það var mjög oft hleypt úr dekkjunum, brotist inn í hann og hann laminn með hamri. Einnig veist gróflega að mér. Í eitt skiptið árið 2013 eða 2014 var ég að fljúga til Íslands frá Suður-Ameríku, langt og strangt ferðalag. Ég setti sem skilyrði að ég flygi á fyrsta farrými en þegar ég millilenti í London kom að mér þekktur hægriöfgamaður, öskrandi og froðufellandi. Hann steytti hnefann að mér og sagði mér að snáfa aftur í vélina þar sem ég ætti heima. En ég stóð, brosti og æsti mig ekki upp. Rólegheit og yfirveguð viðbrögð eru það versta sem slíkir menn vita. Síðan settist ég niður og allir horfðu á og allt fraus. Hann fór í burtu en kom svo aftur ansi fýldur og settist í sætið hinum megin við ganginn. Þá lagði hann yfir sig teppið og sneri baki í mig alla leiðina til Íslands og ég hugsaði að hann ætti eftir að finna til í bakinu eftir þriggja tíma ferð,“ segir Hörður kíminn.

Hörður man eftir öðru atviki þar sem fyrrverandi forseti Alþingis veittist að honum á myndlistarsýningu, í viðurvist fjölda fólks.

„Hann hrópaði að mér að ég hefði verið á Austurvelli í þeim eina tilgangi að græða peninga. Að ég hefði selt plötur út á þetta og notað mótmælin til að auglýsa tónleikana mína. Mér var sagt að hann hefði verið drukkinn en það afsakar ekki neitt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Móðir segir Ísland ekki lengur barnvænt og kallar eftir hugarfarsbreytingu – „Þetta er alvarlegt vandamál. Við þurfum hjálp!“

Móðir segir Ísland ekki lengur barnvænt og kallar eftir hugarfarsbreytingu – „Þetta er alvarlegt vandamál. Við þurfum hjálp!“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ómar leitar að leigjanda yfir jólahátíðina fyrir 600 þúsund krónur

Ómar leitar að leigjanda yfir jólahátíðina fyrir 600 þúsund krónur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ragnhildur segir að þessi spurning valdi fólki miklum kvíða um jólin

Ragnhildur segir að þessi spurning valdi fólki miklum kvíða um jólin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Búllukóngur selur 330 milljóna króna höll á Arnarnesinu

Búllukóngur selur 330 milljóna króna höll á Arnarnesinu