Snappkóngurinn Viðar „Enski“ Skjóldal er byrjaður að selja varning merktan sjálfum sér. Um er að ræða boli á bæði kyn, peysur, bolla og símahulstur merkt honum. Línan er hönnuð af Fannari P. Thomsen en allt er samþykkt af Viðari. „Fannar er svo góður á tölvu, ekki ég. Hann er að teikna og græja og gera þetta, en það er allt samþykkt af mér,“ segir Viðar í samtali við DV.
Viðar ætlar að láta 50 krónur af hverri vöru renna til Barnaspítala Hringsins. „Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég gef þeim pening. Einu sinni gaf ég þeim 50 þúsund og fékk skjal sem ég sýndi á snappinu mínu.“
Enski segir viðbrögðin framar vonum. „Ég er strax búinn að fá 400 skilaboð. Þetta er selt á netinu, með myndum af mér og frösum sem ég nota á snappinu.“ Þeir Viðar og Fannar ætla að halda áfram að hanna vörur. „Þá í kringum HM í Rússlandi næsta sumar, svo kannski eitthvað fyrir túrista. Þetta er framleitt í Bandaríkjunum og selt á netinu.“