Sorg og gleði – Trúa á ástina – Perrar – Barneignir – Ást á ónýtu kerfi – Verður amma – Óvirðing við hinn látna – Erfitt að ná ekki að kveðja vinkonu
Það hefur gengið á ýmsu í samfélaginu árið 2017. #Metoo-byltingin hefur haft gríðarleg áhrif, þá féll ríkisstjórn og önnur reis í staðinn. Hér ætlum við ekki að fjalla um samfélagsmál nema að hluta. Hér tjá þekktir Íslendingar sig um sínar verstu stundir á árinu og þær bestu. Sumir opna sig um erfiðan missi, kynferðislega áreitni og árásir á netmiðlum. Þá opna hinir þekktu Íslendingar sig um ný líf, börn, barnabörn og getur einn fyrrverandi þingmaður ekki beðið eftir að verða amma. Myrkur og ljós í lífi þekktra Íslendinga á árinu.
Bergur Þór Ingólfsson leikari
Kona grét í fangi Bergs á Austurvelli
Það besta sem gerðist árið 2017 er #höfumhátt. Við eignuðumst nýja vini sem verða órjúfanlegur hluti af lífi okkar til frambúðar. Fólk steig fram sem hafði áður setið inni með sögur sínar af brotum sem það hafði orðið fyrir. Stúlkan sem faðmaði okkur fyrir utan Hlemm á Menningarnótt. Konan sem grét í fanginu á mér á Austurvelli. Skeytin, stuðningurinn og sögurnar. Kerfið sem sagði okkur að þegja þurfti að gjöra svo vel að hlusta og bregðast við. Þagnarmúr var rofinn.
Það versta við árið 2017 var leyndar- og valdhyggjan. Þolendum kynferðisbrota var sagt að þegja og fara með bænirnar sínar. Fulltrúar stjórnmálaflokka gengu af fundum til að koma í veg fyrir að mál yrðu upplýst og gáfu í skyn að fólk sem var að leita svara við einhverju óskiljanlegu væri að beita ofbeldi. Æðstu ráðamenn reyndu að halda almenningi óupplýstum með því að svæfa umræðuna eða fela sig á bak við lög sem stóðust ekki. Tregðan og ógagnsæið. Ástin á úr sér gengnu kerfi. Ekki tókst að koma á lögum sem eiga að hindra að barnaníðingar gegni lögmannsstörfum.