fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fókus

Fjölmiðlafólk rifjar upp erfið og furðuleg mál: „Var hótað líkamsmeiðingum og lífláti af dæmdum hrottum og ofbeldismönnum“

Ómar Ragnarsson tók þátt í leit að sjálfum sér – Lóa Pind ætlaði að skrifa um háhraðanet en skrifaði um háræðanet – Hrottar hótuðu Sölva lífláti – Helga varð heltekin af Guðmundar og Geirfinnsmálinu

Auður Ösp
Mánudaginn 29. janúar 2018 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjölmiðlafólk á Íslandi starfar á fjölbreyttum vettvangi og enginn dagur er eins. Málin sem tekin eru til umfjöllunar eru jafn mismunandi og þau eru mörg og snerta allt litróf mannlífsins. Á sama tíma þrengir stöðugt að starfsumhverfi fjölmiðla á Íslandi, starfsöryggið er lítið sem ekkert, samkeppnin yfirdrifin og vinnutíminn allt annað en fjölskylduvænn. Persónuárásir og hótanir um málsóknir eru daglegt brauð. Það er því óhætt að fullyrða að flestir þeir sem kjósa að starfa á vettvangi fjölmiðla eru fyrst og fremst drifnir áfram af hugsjón.

Í seinasta tölublaði DV voru nokkrir af þekktustu lögfræðingum landsins beðnir um að rifja upp eftirminnilegar sögur af ferlinum. Í þetta sinn leitaði DV til valinkunnra einstaklinga úr fjölmiðlastétt og kennir þar ýmissa grasa.

Ómar Ragnarsson

Hvernig kom það til að þú fórst að starfa í fjölmiðlum?

„Ég var landafræði-, stjórnmála- og fréttanörd frá unga aldri, en var á kafi í skemmtanabransanum, textagerð og leikhússtarfi frá 18 ára aldri fram undir þrítugt. Séra Emil Björnsson, fyrsti fréttastjóri Sjónvarpsins, hafði þekkt mig frá æskuárum mínum og vildi fá nördinn í sjónvarpið, enda byggi ég yfir einstæðri reynslu varðandi það að eiga eigin flugvél og hafa þvælst um allt landið árlega í 10 ár.

Fjölmiðlaferill Ómars spannar rúmlega hálfa öld og hefur hann komið að umfjöllun á mörgum stóratburðum Íslandssögunnar.
Hokinn af reynslu Fjölmiðlaferill Ómars spannar rúmlega hálfa öld og hefur hann komið að umfjöllun á mörgum stóratburðum Íslandssögunnar.

Mynd: úr einkasafni

1969 komu upp óvænt veikindi Sigurðar Sigurðssonar íþróttafréttaritara, enginn fannst til að hlaupa í skarðið og Emil grátbað mig um að redda málinu í bili. Ég sló til en var fljótlega kominn á kaf í frétta- og dagskrárgerð samtímis öðrum verkefnum svo að ekki varð aftur snúið.“

„Sem betur fer er hægt að finna ljósa punkta á starfi fjölmiðlafólks. Vandræðalegar og fáránlegar uppákomur verða eftir á til þess að maður sættir sig við að hafa álpast inn í starf, sem býður upp á allan pakkann af mistökum og rugli, sem hægt er að hlæja að eftir á.“

Erfiðasta/átakanlegasta málið sem þú hefur fjallað um?

„1973 dundi gosið í Heimaey yfir og framundan var að fara á alla stórslysa- og hamfarastaði næstu áratugina. Það var ekki endilega stærð hvers atburðar sem var átakanlegast, heldur einstök tilvik innan harmleikjanna. Stærð og umfang snjóflóðanna á Vestfjörðum gerðu þær hamfarir einna skelfilegastar, en átakanlegast var þó sennilega að koma á vettvang og vinna úr hörmulegum atburði norðaustan Hofsjökuls í júlí 1989 þegar jeppa hvolfdi í Bergvatnskvísl og það kostaði fjögur mannslíf í atburðarás, sem fær mig enn í dag til að fá sting í hjartastað.“

Manstu eftir einhverri eftirminnilegri eða vandræðalegri/furðulegri uppákomu sem þú hefur lent í, til dæmis í beinni útsendingu eða á vettvangi fréttaflutnings?

„Sem betur fer er hægt að finna ljósa punkta á starfi fjölmiðlafólks. Vandræðalegar og fáránlegar uppákomur verða eftir á til þess að maður sættir sig við að hafa álpast inn í starf, sem býður upp á allan pakkann af mistökum og rugli, sem hægt er að hlæja að eftir á. Erfitt að velja úr. Jæja, ein af þessum fáránlegu uppákomum var þegar hafin var leit að flugvél, sem vitni sáu steypast ofan í Jökulsá á Brú fyrir innan Kárahnjúka á meðan stíflan þar var í smíðum. Ég var á leið á litlum Fox-jeppa upp á Fljótsdalsheiði þegar björgunarsveitarbíll, sjúkrabíll og lögreglubíll brunuðu framhjá mér. Ég hringdi í RÚVAK og spurði hvað væri á seyði, og var sagt frá leitinni að hröpuðu flugvélinni, sem ekki fyndist tangur né tetur af. Var mér að sjálfsögðu brugðið við tíðindin en reyndi af skyldurækni að fylgja leitarleiðangrinum eftir. Fékk fljótlega símhringingu frá flugumferðarstjórn með fyrirspurn um hvort ég hefði orðið var við týndu flugvélina, og kom þá í ljós að ég var kominn í leit að sjálfum mér! Varð þá til þessi vísa:

Á ofsaferð um illan veg
ók ég fréttaþyrstur.
Í eigið flugslys æddi ég
og ætlaði’ að verða fyrstur.“

Hefur þér verið hótað í kjölfar fréttaflutnings eða fengið á þig kæru? Hafa störf þín í fjölmiðlum einhvern tímann haft áhrif á persónulegt líf þitt?

„1999 var ég ásakaður um að hafa brotið stórlega af mér í starfi með því að stunda hlutdræga umfjöllun og misnota aðstöðu mína varðandi áform um Fljótsdalsvirkjun og drekkingu Eyjabakka. Vönduð rannsókn á vegum Útvarpsráðs hreinsaði mig af þessum ásökunum. Þetta hafði hins vegar að sjálfsögðu mikil áhrif á líf mitt og starf eftir þetta og næstu árin fylgdu í kjölfarið býsna beittar hótanir og þrýstingur.“

Hvaða máli eða umfjöllun ertu stoltastur af?

„Ég er feginn að ég skyldi ekki láta utanaðkomandi aðför hrekja mig af þeirri leið sem ég taldi rétta, þegar ágjöfin var mest síðustu árin sem ég var fastur starfsmaður Sjónvarpsins. En það er alltaf gefandi þegar fjölmiðlafólk dettur niður á persónur, sem geta með tilvist sinni gefið tilefni til að víkja burt fordómum og stuðla að hugarfarsbreytingu með því að nýta mátt fjölmiðlunar. Kynni við og umfjöllun um fólk eins og Reyni Pétur Yngvason 1985 og Gísla á Uppsölum 1981 eru dæmi um þetta, sem mér eru kær.“

Lóa Pind Aldísardóttir

Hvernig kom það til að þú fórst að starfa í fjölmiðlum?

„Mig langaði að vinna við að skrifa og af því að ég er botnlaust forvitin um fólk og samfélagið. Svo er þetta örugglega eitt skemmtilegasta starf í heimi, það er fáránlega gaman að hafa þennan aðgang að fólki og hafa starfsleyfi til að spyrja viðstöðulaust um alls konar sem maður veit ekki og vill skilja. Og hafa kannski einhver áhrif á fólk í leiðinni.“

„Það er fáránlega gaman að hafa þennan aðgang að fólki og hafa starfsleyfi til að spyrja viðstöðulaust um alls konar sem maður veit ekki og vill skilja,“ segir Lóa Pind.
Örugglega skemmtilegasta starf í heimi „Það er fáránlega gaman að hafa þennan aðgang að fólki og hafa starfsleyfi til að spyrja viðstöðulaust um alls konar sem maður veit ekki og vill skilja,“ segir Lóa Pind.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Hvað er erfiðasta/átakanlegasta málið sem þú hefur fjallað um?

Veistu, ég hef fjallað um alls konar, hef oft fengið á mig hárblásarann frá fólki, en sjaldan tekið það nærri mér. Enda reyni ég að fjalla um mál af nærgætni, auðmýkt og virðingu, þegar það á við, án þess að bugta mig og beygja fyrir valdinu, þegar það á við. Þannig að samviskan er barasta hrein, held ég. En það erfiðasta sem ég hef gert, var að finna geðsjúkt fólk sem var tilbúið til að hleypa mér og Agli Aðalsteinssyni myndatökumanni inn í líf sitt. Það tók upp undir tvö ár að finna þann sterka hóp af fólki sem svo á endanum var með okkur í þáttunum „Bara geðveik“.

Lóa Pind segir það hafa verið eitt erfiðasta verkefnið á ferlinum að finna viðmælendur í sjónvarpsþáttaröðina Bara geðveik.
Tveggja ára ferli Lóa Pind segir það hafa verið eitt erfiðasta verkefnið á ferlinum að finna viðmælendur í sjónvarpsþáttaröðina Bara geðveik.

Ég trúi því að svoleiðis efni geti haft djúp áhrif í að breyta hugarfari. Ég frétti af afgreiðslustúlku á kassa sem brosti breitt til konu sem var í þáttunum, og kvaðst hafa séð hana í sjónvarpinu. „Við erum alveg eins,“ sagði stelpan, „ég er búin að vera geðveik síðan ég var 11 ára. Svo geðveik að ég þurfti að vera með hárkollu í fermingunni minni, ég var búin að rífa allt hárið af mér.“ Hversu mikils virði heldurðu að það sé fyrir unga stúlku að geta samsamað sig manneskju á skjánum sem stendur keik þrátt fyrir erfiðan og flókinn geðsjúkdóm til áratuga?“

„Ég hef oft fengið á mig hárblásarann frá fólki, en sjaldan tekið það nærri mér“

Manstu eftir einhverri eftirminnilegri/vandræðalegri/furðulegri uppákomu sem þú hefur lent í, til dæmis í beinni útsendingu eða á vettvangi fréttaflutnings?

„Heilinn er svo haganlega hannaður að ég man örugglega ekki eftir öllum vandræðalegu uppákomunum í beinni. Hláturskast í langri beinni útsendingu er til dæmis ekki vel til þess fallið að halda þræði í viðtali. Ég hef komist að því. Vandræðalegustu mistök sem ég hef gert – í árdaga ferilsins – voru þegar ég skrifaði lærða frétt um tækninýjungina háhraðanet. Nema ég vissi ekkert um hvað maðurinn í símanum var að tala og skrifaði því ca. hálfsíðugrein um þetta háræðanet sem ætti eftir að létta okkur lífið í tölvunni. Þetta var nota bene, fyrir tíma veraldarvefjarins og Google. Lexían: aldrei þykjast vita meira en þú veist.“

Hefur þér verið hótað í kjölfar fréttaflutnings eða fengið á þig kæru? Hafa störf þín í fjölmiðlum einhvern tímann haft áhrif á persónulegt líf þitt?

„Já, mér hefur bæði verið hótað og hef 2–3 sinnum verið kærð til siðanefndar Blaðamannafélagsins. Ég hef þó aldrei talist hafa brotið siðareglur BÍ. Fyndnasta hótunin fannst mér þegar fréttastjóri kallaði eitt sinn á mig inn á skrifstofu og kvaðst hafa fengið þá meldingu að skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins væri í startholunum að grafa undan orðspori mínu ef ég héldi áfram á sömu braut. Þetta var eftir frétt sem ég gerði um hvaða dómarar skiluðu flestum sérálitum í Hæstarétti. Mjög eðlilegt að gagnrýna fréttaflutning, en þetta þóttu mér heldur yfirdrifin viðbrögð.“

Hvaða máli eða umfjöllun ertu stoltust af?

„Ég er stolt af ýmsu, til dæmis því að hafa gert ítarlega heimildaþætti um „Tossana“ okkar, um þessa geigvænlega stóru hópa af ungmennum okkar sem fíla sig ekki í skólakerfinu og flosna unnvörpum upp úr framhaldsskólum með tilheyrandi niðurbroti á sjálfsmynd, kvíða, skömm og tímasóun. Staðan hefur skánað ögn síðan ég gerði þessa þætti – en það er ennþá þannig að ekki nema helmingur þeirra sem byrja, eru útskrifaðir fjórum árum síðar. Við myndum græða helling á því að gera þjóðarskurk í að koma til móts við þessi ungmenni.“

Sjónvarpsþættir Lóu um íslenska „tossa“ vöktu verðskuldaða athygli.
Stolt af Tossunum Sjónvarpsþættir Lóu um íslenska „tossa“ vöktu verðskuldaða athygli.

Sölvi Tryggvason

Hvernig kom það til að þú fórst að starfa í fjölmiðlum?

„Sennilega forvitni. Ég hef alltaf verið forvitinn og haft áhuga á að kynnast hlutum. Ég kláraði háskólanám í sálfræði, en ákvað í millibilsástandi að fara í framhaldsnám í fjölmiðlafræði. Þannig að eins og með svo margt annað í lífinu réð tilviljun líka för.“

Sölvi Tryggvason á litríkan fjölmiðlaferil að baki en hann hefur meðal annars starfað sem fréttamaður á Stöð 2 og DV og vakið eftirtekt fyrir fréttaskýringaþættina Málið sem sýndir voru á Skjá einum.
Drifinn áfram af forvitni Sölvi Tryggvason á litríkan fjölmiðlaferil að baki en hann hefur meðal annars starfað sem fréttamaður á Stöð 2 og DV og vakið eftirtekt fyrir fréttaskýringaþættina Málið sem sýndir voru á Skjá einum.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Erfiðasta/átakanlegasta málið sem þú hefur fjallað um?

„Þrír ítarlegir heimildaþættir um barnagirnd, þar sem við skoðuðum meðal annars aðkomu íslenskra manna að alþjóðlegum barnaklámshring. Það var erfitt að grafa í þessum málum í nærri tvo mánuði samfleytt.“

Sölvi tók barnaníð fyrir í þremur þáttum af Málinu.
Veiddi barnaníðing í gildru Sölvi tók barnaníð fyrir í þremur þáttum af Málinu.

Manstu eftir einhverri eftirminnilegri/vandræðalegri/furðulegri uppákomu sem þú hefur lent í, til dæmis í beinni útsendingu eða á vettvangi fréttaflutnings?

„Mörgum. Ég fékk nokkrum sinnum hláturskast þegar ég var að lesa morgunfréttir í beinni á Stöð2, sem var erfitt, þar sem það var ekki í boði að klippa í neitt annað en smettið á mér. Grátandi fólk á Suðurlandi þegar sterkir jarðskjálftar urðu þar fyrir einum tíu árum. Að vera baksviðs þegar Ingibjörg Sólrún hélt fréttamannafund eftir að hafa greinst með krabbamein og sjá hana örmagna í hliðarherbergi. Þegar ég sá ráðherra tvöfalt í sjónvarpsviðtali í beinni útsendingu eftir að ég hafði keyrt mig í algjört þrot af streitu. Atvikin eru óteljandi.“

„Það tók ekkert sérstaklega langan tíma að læra að láta hótanir um kærur sem vind um eyru þjóta“

Hefur þér verið hótað í kjölfar fréttaflutnings eða fengið á þig kæru? Hafa störf þín í fjölmiðlum einhvern tímann haft áhrif á persónulegt líf þitt?

„Margoft, en misalvarlega. Það tók ekkert sérstaklega langan tíma að læra að láta hótanir um kærur sem vind um eyru þjóta, þar sem oftast var ekkert á bak við þær. En þegar mér var hótað líkamsmeiðingum og lífláti af dæmdum hrottum og ofbeldismönnum stóð mér ekki á sama. Ég svaf ekki heima hjá mér í nokkra sólarhringa í byrjun árs 2013 þegar það stóð sem hæst.“

*Hvaða máli eða umfjöllun ertu stoltastur af? *

„Sennilega þegar ég fjallaði um aðbúnað vinnumanna frá Austur-Evrópu 10 kvöld í röð og fór í húsnæði allt í kringum höfuðborgarsvæðið þar sem þeim hafði verið hrúgað í atvinnuhúsnæði á okurkjörum af sömu mönnum og héldu á atvinnu- og landvistarleyfi þeirra. Það var lagt fram frumvarp á Alþingi í kjölfar umfjöllunarinnar, þar sem reynt var að koma böndum á þessa starfsemi. Eins er ég stoltur af því að hafa stigið inn í óvissuna og fylgt knattspyrnulandsliðinu eftir í tvö ár áður en það hafði komist á stórmót. Fyrsta árið var launalaust og oft og tíðum spurði ég mig hvern fjandann ég hefði eiginlega verið að spá.“

Helga Arnardóttir

Hvernig kom það til að þú fórst að starfa í fjölmiðlum?

„Ég byrjaði í lögfræði og fór svo í frönsku og fór svo til Frakklands sem skiptinemi. Þar var Vigdís Finnbogadóttir gerð að heiðursdoktor við í Montpellier-háskóla. Mig langaði svo að taka viðtal við hana og gera því skil í fjölmiðlum heima, en ég hafði aldrei tekið viðtal áður. Þarna hugsaði ég hvað það gæti verið skemmtileg starf. Eftir að ég byrjaði síðan í stjórnmálafræði hitti ég samnemanda sem sagði mér frá starfi sínu á Fréttastofu útvarpsins og það fyrsta sem ég hugsaði var: „Ókei, hvar fæ ég þessa vinnu? Hvar get ég sótt um hana?“ Ég fékk síðan vinnu á fréttastofunni, byrjaði sem næturfréttamaður og síðan komu dagvaktir og síðan sjónvarpið og síðan færði ég mig yfir á Stöð 2. Og ég hef aldrei litið til baka. Þarna ákvað ég að vera fréttamaður. Ég var búin að finna mína hillu og mér hefur alltaf fundist ég vera á þessari hillu.

Helga Arnardóttir á að baki áralanga reynslu í útvarpi og sjónvarpi en er nú yfirritstjóri Birtíngs og ritstjóri Mannlífs. Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir.
Færði sig af skjánum yfir á prentið Helga Arnardóttir á að baki áralanga reynslu í útvarpi og sjónvarpi en er nú yfirritstjóri Birtíngs og ritstjóri Mannlífs. Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir.

Forvitnin drífur mig áfram og ég held að forvitnin sé einn mikilvægasti eiginleikinn sem þú getur haft í þessu starfi. Ég myndi segja að ég væri mjög ástríðufullur blaða- og fréttamaður. Ég sé frétt í öllu sem ég heyri í umhverfinu. Ég er með ofboðslega mikla réttlætiskennd og ég fæ mikið út úr því að geta miðlað. Miðlað sannleikanum. Svo elska ég að segja sögur af fólki. Nú er ég komin í blaðamennsku eftir að hafa verið í sjónvarpi í mörg ár en ég er ennþá að fást við nákvæmlega það sama: segja sögur fólks og taka á gölluðum kerfum, gölluðum lögum og óréttlæti.“

„Forvitnin drífur mig áfram og ég held að forvitnin sé einn mikilvægasti eiginleikinn sem þú getur haft í þessu starfi“

Erfiðasta/átakanlegasta málið sem þú hefur fjallað um?

„Þegar ég gerði úttekt á Guðmundar og Geirfinnsmálunum árið 2011. Ég varð hreinlega heltekin. Það sem var erfiðast í þessu öllu saman var að skynja allan þennan sársauka og sorg. Ég held að þú þyrftir að vera ómennskur til að taka þetta ekki inn á þig og réttlætiskenndinni var illilega misboðið. Þetta er auðvitað ekkert annað en mannlegur harmleikur. Seinasta haust, þegar ég síðan gerði sjónvarpsþátt um rangar sakargiftir Erlu Bolladóttur, þá upplifði ég þetta aftur. Þetta mál snýst um svo miklu meira en þessi tvö mannshvörf.“

Manstu eftir einhverri eftirminnilegri/vandræðalegri/furðulegri uppákomu sem þú hefur lent í, til dæmis í beinni útsendingu eða á vettvangi fréttaflutnings?

„Ójá! Fyrsta sumarið mitt í fréttamennsku fékk ég það verkefni að skrifa frétt úr Morgunblaðinu sem ég átti síðan að flytja í síðdegisfréttatímanum á laugardegi. Ég náði ekki að klára að skrifa fréttina, hafði aldrei verið blaðlaus í beinni og ætlaði að reyna að klóra mig fram úr þessu með því að semja fréttina í útsendingunni. Þegar ég var komin inn í hljóðverið þá gjörsamlega fraus ég. Ég vissi ekkert hvað ég átti að segja heldur stundi og blés eins og búrhvalur. Í beinni útsendingu! Þetta er án efa eitt hræðilegasta augnablikið sem ég man eftir og ég var gjörsamlega eyðilögð. Ég þakka bara fyrir að þetta fór ekki á flug á netinu, sem betur fer var þetta fyrir þann tíma. En samt þykir mér svolítið vænt um þetta móment þegar ég horfi til baka þar sem þetta kenndi mér að það er nú bara eðlilegt að gera mistök.“

Hefur þér verið hótað í kjölfar fréttaflutnings eða fengið á þig kæru? Hafa störf þín í fjölmiðlum einhvern tímann haft áhrif á persónulegt líf þitt?

„Mér hefur margsinnis verið hótað, en ég hef ekki fengið á mig kæru. Eitt sinn átti ég símtal við mjög háttsettan mann í samfélaginu og stóð í þeirri trú að þetta væri einkasamtal á milli okkar. Síðar hótaði hann mér að birta upptöku af símtalinu. Þetta var vissulega mjög óþægilegt, enda ýmislegt sem þú lætur flakka þegar þú stendur í þeirri trú að samtalið fari ekki lengra. Ég hef fengið á mig lögfræðinga og þurft að ráðfæra mig við lögfræðinga vegna mála en ég hef blessunarlega ekki verið dregin fyrir dóm.“

Hvaða máli eða umfjöllun ertu stoltust af?

„Ég verð að nefna Guðmundar og Geirfinnsmálið aftur. Það er tvímælalaust það mál sem ég er stoltust af á mínum fjölmiðlaferli. Eftir að ég lagði fram dagbækur Tryggva Rúnars Leifssonar fór nokkurs konar keðjuverkun af stað og leiddi til að mynda til þess Gísli Guðjónsson, réttarsálfræðingur og fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður var tilbúinn að tjá sig um málið eftir öll þessi ár. Þarna voru ættingjar Sævars og Erlu búnir að berjast um á hæl og hnakka. Þetta spilaði allt saman og leiddi til þess að Ögmundur Jónasson skipaði nefnd til að rannsaka málin. Þarna sá ég líka að stundum snýst þetta einfaldlega um að vera á réttum stað á réttum tíma. Þannig getur andrúmsloftið í samfélaginu verið þér hliðhollt í ákveðnum málum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Skipulögð brotastarfsemi mikið áhyggjuefni

Skipulögð brotastarfsemi mikið áhyggjuefni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dularfull eftirlýsing lögreglunnar á Norðurlandi vestra vekur athygli – „Ætlið þið að vera með skemmtiatriði hjá þeim sem svara?“

Dularfull eftirlýsing lögreglunnar á Norðurlandi vestra vekur athygli – „Ætlið þið að vera með skemmtiatriði hjá þeim sem svara?“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gleymið Bjarna og kökuskreytingunum – nú er það Bjarnapitsa – „Sjáið drenginn, hann á ekkert að vera að vinna á þingi“

Gleymið Bjarna og kökuskreytingunum – nú er það Bjarnapitsa – „Sjáið drenginn, hann á ekkert að vera að vinna á þingi“
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna