Inga Sæland og Margrét Friðriksdóttir sleikja sólina á Kanaríeyjum saman
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, skellti sér til Tenerife ásamt vinkonu sinni, Margréti Friðriksdóttur frumkvöðlafræðingi. Inga hefur ekkert tjáð sig opinberlega um ferðalagið en Margrét birti myndband á Facebook af þeim að skoða skartgripi, þar á meðal perlur. Myndbandið hvarf svo skömmu síðar af Facebook-síðu Margrétar.
Margrét segir í samtali við DV að myndbandið hafi átt að fara í „Sögur“ eða „Stories“ en óvart ratað á Facebook-síðu hennar og því hafi hún látið það hverfa. „Þetta átti bara að fara í „Stories“ en svo sá ég að þetta var „Live“, þetta voru bara mistök,“ segir Margrét.
Margrét yfirgaf Flokk fólksins í haust eftir deilur um uppstillingar á framboðslistum. Hún segir að allar deilur séu að baki og þær Inga séu aftur orðnar góðar vinkonur. „Við erum búnar að vera góðar vinkonur í nokkuð mörg ár. Það komu upp smá leiðindi í haust en við unnum úr þeim. Við höfum verið nánar, hún hefur aðstoðað mig og ég hana.“
Margrét yfirgaf Frelsisflokkinn í september í fyrra og tilkynnti að hún ætlaði í framboð fyrir Flokk fólksins í Reykjavík áður en hún yfirgaf þann flokk í október. Aðspurð hvort hún sé aftur að íhuga framboð í komandi borgarstjórnarkosningum segir Margrét: „Þetta er allt óákveðið ennþá. Það er ekki búið að ákveða neitt. En jú, ég er að skoða það.“