Með: Heiða Björg Hilmisdóttir – Á móti: Einar Steingrímsson
Það er mikilvægt að draga fram á yfirborðið kynjakerfið sem við búum í og hvernig samfélag okkar birtist annars vegar konum og hins vegar körlum út frá kynferði. Markmiðið er að bæta það til að allir séu jafnir óháð kynferði. #metoo dregur fram að hættan á að verða fyrir ofbeldi og áreitni margfaldast ef þú ert kvenkyns og það hefur áhrif á framgang í starfi og laun og annað.
Metoo er samfélagslega mikilvægt því ef við viljum virkilega ná fram jafnrétti í samfélaginu þá þurfum við að ræða þessi mál. Ef við viljum búa í góðu samfélagi þá þurfum við að varpa ljósi á hversu kynjað samfélagið er, það vill enginn ala börn sín upp í samfélagi þar sem áreitni er liðin. Þetta snýst ekki um hversu alvarleg brotin eru því það getur hamlað þér í lífinu ef þú upplifir áreiti sem sumum finnst vera minniháttar.
Metoo-byltingin snýst um að fá karla til að hlusta á konur og hugsa um sína framkomu, að allir karlmenn taki þessar sögur til sín og hugsi með sér „hef ég gert eitthvað?“ Allir karlar þurfa að axla ábyrgð því annars geta þeir talið sér trú um að #metoo eigi ekki við þá og sleppt því að hlusta. Það er enginn að segja að það megi ekki reyna við einhvern af hinu kyninu því það er ekki það sama og áreitni. Ef þú ert ekki viss þá er einmitt gott að velta þessu fyrir sér.
Það er alltaf rangt að gera fólk ábyrgt fyrir misgjörðum annarra sem tilheyra hópi sem viðkomandi hefur ekkert val um að tilheyra, eins og gert er þegar þess er krafist að allir karlar, en ekki konur, taki ábyrgð á kynferðislegri áreitni og ofbeldi sumra karla, þá er það sérstaklega klikkað þegar einu gögnin sem við höfum um hversu algengt slíkt sé segja að það sé mjög sjaldgæft. Það er alveg jafn fáránlegt, og skaðlegt, að gera alla karla ábyrga fyrir ofbeldi sumra og það væri að gera allar konur ábyrgar fyrir umgengnistálmunum sumra kvenna gagnvart barnsfeðrum sínum. Kynjastríð er vont, og það mun ekki bæta samskipti fólks.
Það er líka ógeðfellt að krefjast þess bæði að allir karlar taki ábyrgð og samtímis að þeir hlusti og þegi. Þær hugmyndir eru ekkert skárri en sú kúgun sem konur hafa orðið fyrir gegnum aldirnar þegar þær voru meðhöndlaðar sem annars flokks fólk.
Málstaðurinn að vinna gegn kynferðislegri áreitni, yfirgangi og ofbeldi er mjög góður. Og vonandi hefur þessi hreyfing jákvæð áhrif í þá átt. Til þess þurfa ekki síst þau sem eru í valdastöðum, sem eru bæði karlar og konur, gleymum því ekki, að gera það sem þau geta til að vinna gegn slíku á vinnustöðum sínum. En með því að reyna að gera alla seka um það sem fáir stunda er hættan sú að enginn beri ábyrgð.