Íslenskir handboltaáhugamenn eru líklega enn í sárum eftir að frábæru tækifæri á Evrópumeistaramótinu í handknattleik var glutrað niður í vikunni. Einn af þeim sem voru í eldlínunni í Króatíu er Selfyssingurinn Janus Daði Smárason, sem sem spilar sem atvinnumaður hjá liði Álaborgar í dönsku úrvalsdeildinni. Piltur hefur staðið sig vel með félagsliði sínu en hann var meðal annars tilnefndur sem einn besti nýliði Meistaradeildarinnar í handknattleik á dögunum.
Færri vita að móðurbróðir Janusar Daða hefur einnig getið sér gott orð fyrir afskipti sín af handknattleik. Það er enginn annar en Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins. Þórir tók við liðinu í apríl 2009 og hefur síðan landað tveimur heimsmeistaratitlum, þremur Evrópumeistaratitlum og ólympíugulli.
Vonandi fær Janus Daði fljótlega að upplifa það að fá medalíu um hálsinn í landsliðsbúningi líkt og frændi sinn. Ein dugar.