Launin hækka töluvert fyrir þáttaröð tvö
Big Little Lies, stutta þáttaröð HBO sjónvarpsstöðvarinnar, átti bara að innihalda sjö þætti, en vegna gríðarlega vinsælda hefur verið ákveðið að þáttaröð tvö verði að veruleika, með nokkrum breytingum.
Kona mun setjast í leikstjórastólinn, en Andrea Arnold hefur verið ráðin til að taka við af Jean-Marc Vallée og nokkrir leikaranna munu fá verulega launahækkun.
Reese Witherspoon og Nicole Kidman munu fá 1 milljón dollara hvor, eða rúmlega 102 milljónir íslenskra króna fyrir hvern þátt. Zoe Kravitz og Shailene Woodley munu einnig fá verulega launahækkun.
Hluta launahækkunarinnar má kannski útskýra með nýju hlutverki Witherspoon í sjónvarpsþáttaröð Apple, sem enn hefur ekki fengið nafn, en mun hún fá 1,25 milljón dollara fyrir hvern þátt þar.
Big Little Lies hefur einnig fengið gríðarlega góða dóma, auk þess að hljóta Golden Globe og Emmyverðlaun, þannig að ljóst var að framboð varð að mæta eftirspurn. Samningar leikara innihéldu ekki ákvæði um frekari þáttaraðir og því var tilvalið að hækka launakröfurnar.
Witherspoon og Kidman munu hafa fengið 250 þúsund dollara fyrir hvern þátt af þáttaröð eitt og ættu því að vera glaðar með launahækkunina. Tölurnar innihalda ekki tekjur þeirra sem framleiðendur þáttanna.