Leikarinn Stefán Karl Stefánsson segir á Facebook-síðu sinni að hann hafi sýnt karlmanni mikinn dónaskap í umferðinni í morgun. Hann segist hafa beðið viðkomandi afsökunar á staðnum.
„Ég sýndi manneksju mikinn dónaskap í morgun í einhverju morgun/hálku/umferðaröngþveiti ,með því að sýna viðkomandi puttann. Eftir þetta atvik reif viðkomandi upp hurðina hjá mér og húðskammaði mig sem rétt var að gera. Ég baðst afsökunar á þessari hegðun og við kvöddumst,“ segir Stefán Karl.
Hann segir að eftir þetta atvik hafi hann hlegið að eigin hegðun, hann hafi ekki sýnt puttann svo árum skiptir: „Eftir þetta fór ég að hlægja því ég man ekki eftir því að hafa sýnt nokkurri manneksju fingurinn nema kannski þegar ég var ungur að árum, stressaður og asnalegur í umferðinni en núna síðustu árin man ég ekki eftir þessu fyrr en núna. Ég mæli ekki með þessari aðferð og bið þennan ágæta mann afsökunar enn og aftur en aumingjahrollurinn hefur ekki leynt sér í dag.“