Í október verður kvikmyndin Undir halastjörnu frumsýnd. Hún er byggð á líkfundarmálinu svokallaða frá árinu 2004 sem öll þjóðin fylgdist með. Myndin er fyrsta leikna kvikmynd Ara Alexanders Ergis Magnússonar í fullri lengd en hann hefur lengi starfað við kvikmyndagerð, myndlist og fleira. DV ræddi við Ara um myndina, föðurmissinn og Síberíu en þaðan fluttist móðir hans til Íslands á sjöunda áratugnum.
Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV.
Ari fæddist árið 1968 og ólst upp í Vogahverfinu í Reykjavík.
„Kristján Davíðsson myndlistarmaður bjó í götunni fyrir neðan mig og sem barn lá maður á glugganum á vinnustofu hans, hann var rammgöldróttur líkt og Thor Vilhjálmsson rithöfundur sem bjó tveimur götum fyrir ofan mig. Maður skynjaði sköpunarkraftinn og ég bar mikla virðingu fyrir þeim. Síðar á námsárum mínum í París varð Thor einn af mínum nánustu vinum enda var hann þar með annan fótinn. Sannarlega sakna ég samvista okkar og er með stóra mynd af honum í eldhúsinu hjá mér, þannig að Thor er aldrei langt undan.“
Eins og gefur að skilja umgengust foreldrar Ara marga listamenn og annað skapandi fólk og ávallt var eitthvað á seyði. Faðir hans var mikill vinur Ragnars Arnalds, Úlfs Hjörvar, Brynju Benediktsdóttur, Jökuls Jakobssonar, Þórhildar Þórleifsdóttur, Styrmis Gunnarssonar, Vigdísar Finnbogadóttur, Atla Heimis, Guðrúnar Ásmundsdóttur og Ara Jósefssonar ljóðskálds, sem Ari er nefndur eftir. List var haldið að systkinunum, teikningu, tónlist og fleira og því ekki undarlegt að Ari hafi fundið sinn farveg í sköpun.
„Þetta þótti óvenjulegt heimili miðað við heimili skólasystkina minna. Það var alltaf mikið í gangi, mamma og pabbi töluðu alltaf rússnesku sín á milli og við systkinin vorum asísk í útliti eins og mamma, en það var mjög sjaldgæft í Reykjavík á þessum tíma. Það var oft mikið fjör á heimilinu og þess vegna stungum ég og eldri bróðir minn oft af til ömmu minnar, Ragnheiðar Möller, eftir skóla og um helgar. Mér fannst alltaf mikil vernd í því. Hún var með stórt og mikið hjarta, elskaði okkur óendanlega líkt og við hana og hún fór með okkur á endalausa menningarviðburði, frá ungverskum ljóðalestri í Háskólabíói á Superman.“
Hvernig barn varst þú?
„Ég var mjög fjörugur. Eyvindur Erlendsson, leikstjóri og vinur pabba, sagði fyrir mörgum árum að hægt hefði verið að sjá skóförin í loftinu eftir mig, lætin og hamagangurinn væri slíkur að hann skildi ekkert í þolinmæði föður míns gagnvart náttúruaflinu í barninu. Ætli maður hefði ekki verið settur á lyf í dag og kominn með einhverjar greiningar,“ segir Ari og brosir. „Ég var uppátækjasamur og ævintýragjarn.“
Þú minnist á asíska útlitið. Lentir þú einhvern tímann í fordómum vegna þess?
„Ég upplifi mig alltaf svolítið eins og útlending, alls staðar. Þegar ég var yngri var alltaf sagt við mig að ég hlyti að vera útlendingur og ég spurður hvaðan ég væri því ég talaði svo góða íslensku. Þegar ég svaraði Síberíu þá vissi enginn hvar það var. Ég hef aldrei lent í alvarlegu einelti en þurfti oft að hlusta á rasistaathugasemdir sem ég leiddi mismikið hjá mér. Ég var stór fyrir minn aldur og var fljótur að svara fyrir mig. Síðan var systir mín sætasta stelpan í hverfinu og allir strákarnir voru skotnir í henni,“ segir Ari og brosir. „Það var vernd í því. En ég fann alltaf fyrir því að vera öðruvísi, þessi skrýtna skrúfa, og það herti mig. Á unglingsárunum hjálpaði það nú að vera svolítið öðruvísi,“ segir hann kíminn á svip.
Ari segir að vegna þess fjörs sem fylgdi listamannslífinu hafi foreldrar hans á endanum skilið. Nokkru seinna, þann 4. febrúar árið 1979, þegar Ari var aðeins ellefu ára gamall, missti hann Ragnheiði, ömmu sína, á sviplegan hátt.
„Við vorum á amerískri kvikmyndahátíð á Hótel Loftleiðum, við bróðir minn, sem var tólf ára, og amma. Við sátum þar á veitingastaðnum og vorum að borða þegar hún fékk skyndilega hjartaslag og lést fyrir framan okkur, á gólfinu,“ segir Ari meyr. „Kallað var á lækni og síðan kom sjúkrabíll og tók hana og við bróðir minn stóðum þarna agndofa, engin talaði við okkur. Allt í einu sagði einhver maður: voru ekki þessir drengir með henni? og hann keyrði okkur heim. „Þetta fékk mjög á mig. Ég var ekki aðeins að missa ömmu mína heldur minn besta vin.“
Ellefu mánuðum síðar dundi annað áfall yfir. Eftir skilnaðinn flutti faðir hans til Bandaríkjanna en hann ætlaði þá að skipta um starfsvettvang og snúa sér að sálfræði. Hann var við framhaldsnám ytra þegar hann féll frá eftir hjartaáfall aðeins 41 árs gamall.
„Hann hafði fengið vægt áfall skömmu áður og læknarnir voru búnir að segja honum að slaka á. En hann var mikill orkubolti og gat það ekki. Svo dó hann bara, var brenndur og fluttur heim í krukku.“
Þetta hefur verið erfiður tími?
„Já, þetta var í fyrsta skipti sem ég upplifði það að fólk gæti farið úr þessari veröld. Það var áfallið og síðan var ekkert unnið með þetta. Ég man eftir að mamma faðmaði mig en svona hlutir voru ekkert ræddir á þessum tíma, þetta var bara grátið út í koddanum. Það var fleira í gangi á þessum tíma. Mamma hafði kynnst öðrum manni sem ég kunni ekki vel við og við höfðum flutt til Árósa í Danmörku. Eitt kvöldið í desember kom skeyti heim til okkar, mamma var með leikhóp úti á landi og við systkinin ein heima. Skeytið kom frá Friðriki Páli, föðurbróður mínum, og bað hann mömmu um að hringja strax því alvarlegir atburðir hefðu átt sér stað. Það var engin sími á heimilinu þannig að við fórum út í símaklefa til að hringja og Friðrik Páll þurfti að tilkynna okkur að pabbi hefði dáið í Bandaríkjunum.“