fbpx
Sunnudagur 05.janúar 2025
Fókus

Kynntist föður sínum fyrst á dánarbeðinu

Auður Ösp
Mánudaginn 24. september 2018 22:00

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Valgeir Skagfjörð ólst upp föðurlaus og átti sér þá ósk heitasta að eignast pabba. Móðir hans átti við áfengis- og geðræn vandamál að stríða og gengu Valgeir og yngri systkini hans sjálfala. Hann hitti föður sinn fyrst 17 ára gamall en varð fyrir svo miklum vonbrigðum að hann sleit öll tengsl við hann og vildi ekkert meira af honum vita. Um 22 árum síðar lágu leiðir feðganna saman á ný og það fyrir einskæra tilviljun.

Skilnaðurinn var skelfileg lífsreynsla

Valgeir er svokallaður „allt muligt“ maður. Hann hefur komið víða við á lífsleiðinni. Tónlistarmaður, leikari, leikstjóri, námskeiðshaldari, kennari, markþjálfi og varaþingmaður eru á meðal þeirra titla sem hann hefur borið. Hann líkir lífinu við kafla. „Og ef þú lærir ekki eitthvað af hverjum kafla þá staðnar þú einfaldlega. Þá er engin framför.“

Hann útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands árið 1987 og var á fullu í „bransanum“ næstu árin. Seinustu árin hefur hann að mestu einbeitt sér að leikstjórn og kennslu. Stundum kemur þó fyrir að hann sakni leiksviðsins.

„Ég sakna stundum þessa tíma, ég held að það sé alveg eðlilegt fyrir þá sem hafa verið í þessum leiklistarbransa. Þetta var náttúrlega lífsstíll á sínum tíma. En svo eignaðist ég börn og fjölskyldu. Ég var eitthvað að leikstýra um tíma en svo hætti maður eiginlega að nenna þessu eilífa harki.“

Stoltur faðir með dætrum sínum. Tvær af dætrum Valgeirs, þær Ólöf Jara og Anna hafa fetað í fótspor föður síns og lært leiklist.

Hann kvæntist Guðrúnu Gunnarsdóttur árið 2005, eftir 18 ára samband. Þau eignuðust þrjár dætur, þær Ólöfu Jöru, Önnu Hjördísi og Elísabetu en fyrir átti Valgeir dótturina Evu. Barnabörnin eru orðin fjögur talsins. Hjónabandi Valgeirs og Guðrúnar lauk 2010 og skilnaðurinn tók sinn toll á Valgeiri, andlega og líkamlega. Hann tjáði sig um þetta erfiða tímabil í lífi sínu í viðtali við DV á sínum tíma.

„Ég óska engum þess að standa í þessu því svona skilnaður er alveg skelfileg lífsreynsla. Ég hef aldrei upplifað annað eins niðurbrot á ævi minni. Bæði var þetta langur tími sem við Guðrún áttum saman, 23 ár, og við vorum búin að ganga í gegnum margt saman, bæði gleðistundir og erfiðleika eins og í öllum hjónaböndum.

Hjónaband er bara fyrirbæri sem þú átt á hættu að glata ef þú ert ekki með hugann við það alla daga. Það þarf í sjálfu sér ekki mikið  til. En það þarf rosalega mikla vinnu til þess að halda svona hlutum gangandi.

Maður upplifir þetta fyrst sem endi heimsins, en svo uppgötvar maður að þetta er upphafið að einhverju nýju.“

Stöðugur ótti og hræðsla

Á uppvaxtarárunum bjó Valgeir í lítilli íbúð í Álfheimunum ásamt móður sinni og tveimur yngri systkinum. Hann ól sig upp sjálfur. Faðir hans var enskur tónlistarmaður sem kynntist móður hans á Hótel Borg á sínum tíma. Hjónaband þeirra entist stutt og faðir hans hélt til Englands á ný.

Ljósmynd: DV/Hanna

„Mamma gat ekki unnið og var stöðugt að byrja með nýjum og nýjum körlum sem gátu skaffað peninga. Ég hef ekki tölu á öllum stjúppöbbunum sem komu inn á heimilið.“

Móðir Valgeirs var alkóhólisti. Persónuleikaröskun gerði það að verkum að hún átti í erfiðleikum með greina á milli sannleika og lygi; hún skildi ekki muninn á milli veruleika og fantasíu. Oft kom það fyrir að hún hvarf og skilaði sér ekki heim svo dögum skipti.

„Yngri systkini mín áttu feður sem þau heimsóttu en ég hafði engan annan en mömmu. Stundum kom það fyrir að ég þurfti að hugsa um hana. Ég vissi ekki alltaf hvernig ástandið ætti eftir að vera á henni, hvenær eða hvort hún kæmi heim. Það voru engir gemsar á þessum tíma og síminn heima var yfirleitt lokaður.“

Hann minnist þess að heyra bíllhjóð fyrir utan, bílhurðina skellast og mömmu sína nálgast. „Þá hugsaði ég: „Í hvernig ástandi er hún? Er hún ofbeldisfull, blíð, geðvond? Hvaða mamma er að fara að koma inn um dyrnar?“

Hún var oft illa á sig komin. Ég þurfti að sækja fötu handa henni því hún þurfti að kasta upp, ég þurfti að gefa henni að borða og hlúa að henni. Sjóða jafnvel síðasta eggið ofan í hana.

Börn sem alast upp við þessar aðstæður, það er sambærilegt við það að lifa af styrjöld. Þú ert á tánum allan daginn, alla daga ertu stilltur á kvíða og ótta. Þú ert alltaf á varðbergi, hættan getur leynst alls staðar og þú þarft alltaf að vera viðbúinn. Þetta snýst um að lifa af.

Síðan þurfti ég auðvitað líka að mæta í skólann og spilatíma og standa skil á hinu og þessu. Á sama tíma þurfti ég alltaf að vera að passa að enginn fengi að vita um ástandið heima. Það voru margir boltar sem þurfti að halda á lofti og það var heilmikill pakki fyrir 11 ára strák.“

Barnaverndarnefnd fylgdist stöðugt með heimilinu en aldrei var þó gripið inn í málin.

„Það var sett upp leikrit. Fulltrúinn frá barnaverndarnefnd kom alltaf í eftirlitsheimsókn á miðvikudögum. Áður en hún mætti vorum við systkinin öll sett í verkefni, það þurfti að þrífa allt og ryksuga hátt og lágt og mamma dró fram strauborðið og strauboltann. Svo hringdi dyrabjallan, við fórum til dyra og tókum á móti fulltrúanum og inni í íbúðinni var allt spikk og span. Þetta var rosalega flott leikrit sem við settum upp, allir tóku fullan þátt í því. Systir mín sat og var að læra, bróðir minn var að leika sér, ég var stundum settur á píanóið og svo var mamma að strauja á fullu eins og fyrirmyndarhúsmóðir. Þetta var hið fullkomna heimili. Það var aldrei hægt að setja út á neitt.

Hún átti aldrei möguleika. Hún drakk og tók töflur þar til hún dó um sextugt. Það fylgir þessu mikil skömm og sektarkennd. Þér finnst þú bera ábyrgðina. Mér tókst ekki að láta mömmu hætta. Þegar ég var beittur ofbeldi þá hugsaði ég með mér að ég ætti þetta skilið. Þú venst því að vera stöðugt í ótta og kvíða, það verður eðlilegt ástand. Einn daginn fékk ég síðan bara nóg og fór að heiman, 16 ára gamall.“

Valgeir sér engan tilgang í því að vera reiður eða bitur vegna þeirra aðstæðna sem hann bjó við sem lítill drengur.

„Ég er auðvitað búinn að „feisa“ þetta allt saman. Ég er búinn að fyrirgefa og þetta er ekki lengur að stýra mínu lífi eins og hjá svo mörgum meðvirkum alkabörnum.“

Stal fötum úr búningageymslu Leiklistarskólans

Leiklistarferill Valgeirs hófst með áhugamannaleikfélagi á Akranesi snemma á níunda áratugnum.

„Ég ætlaði alltaf að verða tónlistarmaður. Ég var að vinna sem tónlistarkennari á Akranesi þegar ég var fenginn til að sjá um tónlistarflutning í Línu langsokk sem leikfélagið var að setja upp. Ég bjó til karakter í leiðinni, fór í kjólföt og sminkaði mig. Í lok sýningarinnar var ég dreginn upp á svið þar sem ég stóð upp og hneigði mig. Ég bjó til einhvern performans í kringum það og stjórnendum þótti svo mikið til þess koma að ég var fenginn til að leika hlutverk í næstu sýningu, farsa. Mér fannst þetta ótrúlega skemmtilegt.“

Valgeir var í kjölfarið hvattur til að leggja leiklistina fyrir sig. Hann endaði í Leiklistarskóla Íslands og hafði í raun ekki hugmynd um hvað hann væri búinn að koma sér út í. „Þetta var svolítið skrítið. Ég var elstur í bekknum en þetta voru rosalega skemmtileg ár. Ég bjó til þennan karakter, „leiklistarnemann.“ Bjó í herbergi hjá ömmu og fann þar frakka af afa mínum og gamlan hermannabakpoka sem ég setti dótið mitt í. Seldi bílinn og fékk mér hjól og svo gekk maður um í einhverjum gömlum fötum sem maður fann í búningasafni Leiklistarskólans,“ segir hann hlæjandi.

Ljósmynd: DV/Hanna

Andleg vakning

Valgeir er alkóhólisti og tók á sínum tíma virkan þátt í „sukkinu“ sem oft virðist loða við leikhúsbransann. Eftir æfingatörn, og sýningar sem sugu burt líkamlega og andlega orku, var vinsælt að kíkja á barinn.

„Ég hætti að drekka árið 1995. Ég varð einfaldlega fyrir hugljómun. Það bara gerðist einn daginn. Það var auðvitað  oft farið á pöbba eftir æfingar og sýningar.

Við viss tækifæri vitraðist mér að ég væri hreinlega stjórnaus alkóhólisti og það var fínt að „feisa“ það loksins. Ég vaknaði upp í einhverju paríi úti í bæ og vissi ekkert hvað hafði gerst. Mér fannst ég fara út úr líkamanum og horfa á mig eins og áhorfandi á bíómynd. „Þarna er þessi gæi, hvað er hann að pæla og hvað ætlar hann að gera núna?“ Þarna urðu hugsanaskipti og algjör umsnúningur.

Á þessum tíma var ég vinna í leikhúsinu og fékk mig ekki lausan úr sýningunni. Á þessum tíma var ekki komin nein göngudeild og þetta endaði þannig að ég  fékk því að taka „brennivínsskólann“ utan skóla. Mætti í grúppu í Síðumúla og fór á fundi. Fór svo af fullum krafti inn í samtökin.“

Hann tekur undir kenningar kanadíska læknisins Gabor Maté, eins fremsta fræðimanns heims á sviði ávanabindingar. Að sögn Maté er áfengisfíkn bein afleiðing áfalla.

„Sem fullorðið barn alkóhólista þá er mitt „tráma“ vanræksla og ofbeldi. Ég var alltaf ákveðinn í því að ég ætlaði aldrei að drekka af því að ég sá hvernig áfengi fór með mömmu mína og aðra í kringum mig. En þetta „tráma“ var þannig að eina leiðin til að deyfa það var að drekka sjálfur. Og á þeim tímapunkti missti ég stjórnina.

Sjúkdómshugtakið, eins og AA samtökin skilgreina það, er mjög einfalt og auðskiljanlegt. Það gerir þér kleift að fókusera á eitthvað til að ná bata –„Ég er með sjúkdóm og hann virkar svona og þegar ég er ekki í neyslu þá er hann óvirkur.“ – Mér finnst konseptið virka af því að það getur útskýrt svo margt hvað varðar líðan og hegðun alkóhólista. Ef ég er með sjúkdóm þá er til lausn.

Þeir sem nota hins vegar sjúkdómshugtakið til að afsaka misgjörðir eða vonda framkomu, þeir eru augljóslega ekki í bata. Þeir reyna að búa til réttlætingu í stað þess að taka á sínum brestum.“

„Minn kæri sonur“

Sem lítill drengur átti Valgeir sér þá ósk heitasta að eiga föður. Allir strákarnir í hverfinu áttu pabba nema hann. Pabbi Valgeirs bjó í hins vegar í Englandi og þekkti Valgeir hann aðeins í gegnum ljósmyndir og frásagnir héðan og þaðan.

Foreldrar Valgeirs í London á sjöunda áratug seinustu aldar.

„Ég fann einhvern tímann bréf frá lögfræðingi pabba en þá hafði mamma staðið í málaferlum við hann á sínum tíma og fór fram á meðlagsgreiðslur.“

Dag einn þegar Valgeir var 17 ára tók hann sig til, skrifaði bréf til lögfræðingsins og bað hann um að koma honum í samband við föður sinn. Í kjölfarið skrifaði hann föður sínum bréf.

„Ég var búinn að vera með þennan pabbakomplex í mörg ár, var búinn að heyra aðra tala um hann og var búin að sjá myndir af honum. Ég heyrði sögur um það hvað hann væri mikill snilllingur og stórkostlegur djassmúsíkant, klár á píanó og trompet og út frá því málaði ég hálfgerða helgimynd af honum í hausnum á mér.

Svo gerðist það að hann skrifaði mér til baka og tók þessu afskaplega vel. Hann bjó þá með írskri konu í London og var búinn að eignast með henni tvær dætur. Nokkrum mánuðum síðar, um jólin, skrifaði hann mér annað bréf en af skrifunum af dæma var hann aðeins búinn að fá sér í glas og það var byrjað að losna um tilfinningarnar. Þetta var mjög einlægt og fallegt bréf sem hófst á orðunum „My dear son“ (Minn kæri sonur.) Í bréfinu bauð hann mér síðan koma út og dvelja hjá þeim um tíma.

Það varð úr að ég fjárfesti í opnum flugmiða og dreif mig út. Þar sem pabbi var að vinna þegar ég lenti í London þá komu konan hans og stelpurnar þeirra tvær, systur mínar, að sækja mig á Heathrow. Þær lentu þá í vandræðum vegna þess að enginn vissi hvernig ég leit út, það hafði enginn hugsað út í það að senda ljósmynd. Þær þurftu þess vegna að reyna að giska á það hver í farþegahópnum væri 17 ára strákur frá Íslandi. En þegar ég sá þær vissi ég strax hverjar þær voru.“

Stundin þegar Valgeir hitti föður sinn í fyrsta skipti var ekki eins og hann hafði gert sér í hugarlund. „Ég var búinn að ímynda mér þetta dramatíska kvikmyndamóment þar sem við féllumst í faðma í mikilli geðhræringu. Hann beið eftir okkur heima og það fyrsta sem ég tók eftir var að hann var miklu minni en ég. Þetta var voðalega formlegt allt saman. Við tókumst í hendur og heilsuðumst eins og tveir miðaldra menn á fundi. Ég reyndi að halda kúlinu eins og ég gat og reykti hverja sígarettuna á fætur annarri. Við fórum svo smátt og smátt að opna okkur fyrir hvor öðrum, ég sagði honum frá lífinu á Íslandi og hann sagði mér sögur frá fyrri tíð.“

Faðir Valgeirs var fjölhæfur tónlistarmaður með glæstan feril.

Feðgarnir áttu sameiginlegt áhugamál, tónlistina, og Valgeiri var boðið að koma á æfingar með hljómsveit föður síns. „Þegar hann komst að því að ég spilaði á píanó þá spurði hann hvort ég gæti ekki hugsað mér að spila á trommur með hljómsveitinni og ég lét til leiðast. Ég var 17 ára, að verða 18, og þurfti þarna að halda í við þessa reynslubolta eins og ég gat. Þá kom það oft fyrir að pabbi rauk upp og húðskammaði mig þegar ég klúðraði einhverju. Hann gat verið rosalega skapstór.“

Valgeiri brá svo mikið við að sjá þessa nýju hlið á föður sínum að hann ákvað að fljúga aftur heim til Íslands hið snarasta.

„Ég hringdi heim og bað mömmu um að senda símskeyti til mín og ljúga að afi minn væri að deyja og ég yrði koma heim strax. Það gerði hún og ég notaði það sem afsökun til að fara aftur heim. Ég kvaddi með þeim orðum að ég myndi snúa til baka fljótlega en ég var samt búinn að ákveða að ég ætlaði aldrei að koma aftur til baka. Ég vildi ekkert vita af þessu fólki.“

Valgeir sleit þar með öll tengsl við föðurfjölskyldu sína.

„Mér skilst að pabbi hafi alltaf viljað taka þráðinn upp aftur en hans fyrrverandi hafi alltaf sagt honum að „let it go“, gleyma þessu bara. Hún dró úr honum með að hafa samband aftur.“

Næstu tvo áratugi vissi Valgeir ekkert um föður sinn, hvað hann væri að gera eða hvort hann væri yfirhöfuð á lífi.

„Hugurinn leitaði þó til hans nokkrum sinnum. Einhvern tímann um miðjan níunda áratuginn fór ég í leikhúsferð til London. Ég var þarna eitthvað að vafra um borgina og fór þá að velta fyrir hvar pabbi væri og hvernig hann hefði það. En svo varð ekkert meira úr því. Einstaka sinnum hvarflaði þetta svo að mér. Ég vissi svo lítið um þessa ætt mína, þessi 50 prósent af genunum í mér.“

Örlagaríkt símtal

Um 22 árum eftir að Valgeir flaug fyrst til London lágu leiðir feðganna saman á ný. Sagan á bak við þá endurfundi sýnir að það er lítið um tilviljanir í þessu lífi.

„Það var sem sagt þannig að kunningjakona mín, Álfheiður Ingadóttir, og systir hennar voru staddar í London og settust inn á veitingastað. Þar var maður að spila á píanó. Allt í einu byrjaði hann að spila íslenskt lag, Litla flugan, sem þær þekktu auðvitað samstundis. Hann kom svo til þeirra í pásunni því hann heyrði þær tala íslensku. Þegar þær spurðu hann út í hvernig hann þekkti lagið þá sagði hann þeim að hann hefði einu sinni verið á Íslandi, og að hann ætti meira að segja son þar. Þegar hann sagði þeim nafn mitt sögðust þær þekkja mig. Hann bað þær þá um að skila kveðju til mín.

Þær höfðu að vísu ekki samband við mig heldur sögðu einhverjum öðrum frá þessu, sem sagði einhverjum öðrum og eftir einhvern tíma barst þessi saga til vinkonu minnar sem síðan hringdi í mig og lét mig vita.

Ég hafði samband við Jakob Frímann Magnússon, sem var þá var menningarfulltrúi í sendiráði Íslands í London, fékk nafnið á þessum veitingastað og bað Jakob um að fara og athuga hvort pabbi væri þar.“

Þegar Jakob Frímann fór á veitingastaðinn var faðir Valgeirs hvergi að finna. Í ljós kom að hann lá á sjúkrahúsi.

„Þannig að Jakob hringdi í mig aftur og sagðist ætla að fara á spítalann og sjá hvort pabbi væri þar og hvort það væru líkindi með okkur feðgum. Ég fékk síðan þriðja símtalið frá honum sem var eitthvað í þessa átt: „Já sæll, þetta er Jakob Frímann hérna, ég fann nú ekki hann pabba þinn  en hann er víst með ristilkrabbamein.“

Þarna fór ég að pæla í þessu. Þarna var ég búinn að fá þessar upplýsingar. Ég hugsaði með mér að ég yrði að fara til hans, ég yrði að hitta hann. Ég sagði við mína fyrrverandi að ég ætlaði að fljúga út til hans um páskana, þá ætti ég frí. En þá sagði hún: „Nei, Valgeir, farðu bara núna. Þú verður að fara núna“.“

Valgeiri tókst að redda sér ódýrum farmiða til London og hélt á fund föður síns.

 „Ég kom þarna inn í andyri sjúkrahússins og vissi ekkert á hvaða deild pabbi væri. Þá heyrði ég allt í einu mann fyrir framan mig spyrja starfsmann: „Where’s mister Martin?“ Hann var þá líka að leita að pabba. Og ég tengdi strax. Ég gekk í humátt á eftir honum alla leið inn á sjúkrastofuna þar sem pabbi lá. Allt í einu blasti hann þar við mér og við horfðumst í augu. Honum var augljóslega mjög brugðið og spurði hvað ég væri að gera hér. „Ég er kominn til að hitta þig,“ sagði ég. Og þarna brotnuðum við báðir niður, féllumst í faðma og grétum. Maðurinn sem ég hafði elt inn á stofuna var fljótur að láta sig hverfa og skildi okkur eina eftir, en ég komst seinna að því að hann var umboðsmaður pabba.

Við áttum þarna þrjá daga saman og töluðum um heima og geima á meðan ég keyrði hann um allt í hjólastólnum. Systir mín kom í heimsókn og það urðu miklir fagnaðarfundir. Þarna náðum við loksins þessari tengingu sem var ekki til staðar 22 árum áður. Pabbi var agalega stoltur og kepptist við að kynna mig fyrir öllum sem komu í heimsókn. „This is my son,“ sagði hann montinn.

Pabbi var orðinn mjög veikur og það sást á honum. Við töluðum samt um að hann myndi seinna koma til Íslands og heimsækja barnabörnin sín þar. En þegar ég kvaddi hann, gekk út af sjúkrastofunni og horfði á hann fjarlægjast þá vissi ég að ég myndi aldrei sjá hann framar. Nokkrum dögum síðar, daginn eftir pálmasunnudag, fékk hringingu frá systur minni sem tilkynnti mér að pabbi væri dáinn.

Ef ég hefði beðið til páska með að fara út þá hefði ég aldrei náð að hitta pabba á lífi. Það eru engar tilviljanir í þessi lífi. Það er stýring í gangi.“

Valgeir flaug aftur til London og fylgdi föður sínum til grafar.

„Daginn fyrir jarðarförina fékk ég að fara á útfararstofuna og sjá hann. Ég kom inn í herbergið þar sem pabbi lá í kistunni, sminkaður í jakkafötum með slaufu. Ég sat þarna einn inni í herberginu, bara ég og líkið. Það var lítil loftrist efst í einu horninu og í öðru horni var kveikt á kerti. Svo allt í einu komu geislar í gegnum loftristina og féllu á hann. Ég fann fullkominn frið inni í mér, algjöra kyrrð og sátt.“

Valgeir segir að jarðarförin hafi verið fjölmenn og erfidrykkjan eftirminnileg.

„Þetta var mjög óformlegt, eiginlega var þetta meira eins og partí. Þarna úti líta þau á þetta þannig að öll sorgin og gráturinn eigi heima í kirkjunni en þegar heim er komið þá eru sagðar sögur, hlegið og fallegar minningar af hinum látna rifjaðar upp.“

Faðir hans hafði skilið við konu sína 15 árum áður en Valgeir átti þó tvær hálfsystur. „Og þarna eignaðist ég nýja fjölskyldu. Við erum búin að heimsækja hvert annað og rækta tengslin og það er mjög kært á milli okkar. Önnur systir mín er einnig að vinna við leiklist og söng. Mér fannst ég hafa fundið þarna hinn helminginn af mér. Ég hélt áfram að kynnast pabba eftir á, í gegnum fólkið hans. Ég hef oft fengið að heyra að ég sé með alls konar hreyfingar og takta sem minna á hann.“

Missti allt

Valgeir lét heyra í sér þegar búsáhaldabyltingin stóð sem hæst. Rétt eins og svo margir fór hann illa út úr bankahruninu árið 2008.

„Það var selt ofan af mér og það gekk ekkert að eiga við umboðsmann skuldara. Fyrir hrun höfðum við keypt íbúð í gömlu húsi, ásamt risi. Þetta átti að vera fjárfesting til elliáranna. Svo var alltaf verið að hringja og hvetja okkur til að endurfjármagna og steypa okkur í meiri og meiri skuldir. Svo kom þessi skilnaður og þá fóru heilar árstekjur. Ég sat einn eftir og réð ekki við þetta. Við keyptum á 21 milljón og allt í einu var verðgildið komið í 35 milljónir en ég skuldaði 50 milljónir.

En ég er búinn að sleppa takinu á þessu. Þetta skipti mig rosalega miklu máli á sínum tíma en ekki lengur. Þetta var bara hús. Í dag á ég ekki neitt og ég skulda ekki neitt og því fylgir mikið frelsi. Þegar þú átt ekkert þá hefur þú engu að tapa. Það er ekkert sem bindur mig. Í dag á ég ekki mikið, en ég á alltaf nóg. Ég á mig. Ég hafði í alvöru trú á því að okkur myndi takast að breyta hlutunum, en það gerðist ekki.“

Ljósmynd: DV/Hanna

Valgeir gegndi á sínum tíma formennsku fyrir Borgarahreyfinguna og var varaþingmaður flokksins. Það voru hans fyrstu og síðustu afskipti af þingmennsku.

„Ég brann rosalega mikið fyrir hugsjónum og mig langaði að breyta samfélaginu. Ég vil það ennþá; ég vil að við fáum nýja stjórnarskrá, ég vil breyta stjórnarkerfinu. Ég vil uppræta spillingu og ég vil að fólkið í landinu fái að njóta ávaxta erfiðisins í stað þess að eitt prósent landsmanna fái að sölsa undir sig öll auðæfin.

En ég er einhvern veginn búinn að sleppa takinu. Ég vil ekki vera beinn þátttakandi í pólitík. Ég gæti ekki starfað sem þingmaður, að standa í þessu eilífa þrasi og koma aldrei neinu í verk. En ég vil og mun halda áfram að berjast fyrir réttlæti og ég hef sterka pólitíska tilfinningu fyrir því hvernig ég vil hafa hlutina. Og ég get haft áhrif með öðrum leiðum.“

Leitum að lífsfyllingu á röngum stöðum

Í dag starfar Valgeir sem kennari og markþjálfi í Fjölsmiðjunni. Hann aðstoðar ungmenni sem vantar stuðning og þjálfun til að halda áfram í námi eða komast út á vinnumarkaðinn. Hann hefur orðið vitni að ótrúlegum framförum og segir starfið í Fjölsmiðjunni gríðarlega mikilvægt fyrir samfélagið í heild.

Hann er á góðum stað í dag. Og hann vill vekja aðra miðaldra karlmenn til vitundar. Hann kynntist bandarískum rithöfundi sem skrifaði bókina „The Middle Life Playbook“ og hyggst þýða bókina yfir á íslensku.

„Miðaldra íslenskum karlmönnum hættir svo oft til að breytast í sófakartöflur þegar seinni hálfleikur lífsins tekur við. Konurnar fara á fullt í þetta „borða, biðja, elska“-dæmi á meðan karlarnir staðna á vissan hátt. Þetta er sinnuleysi og sofandaháttur. Við erum svæfðir með endalausri afþreyingu og talin trú um að við verðum ekki hamingjusamir nema við kaupum þetta og hitt, nýjan jeppa eða nýtt grill. Sá vinnur sem á mesta dótið þegar hann deyr. Við leitum að lífsfyllingu á röngum stöðum. Íslenskir karlmenn eru almennt mjög uppteknir af því að halda uppi einhverri ímynd, þurfa að eiga fullt af hlutum og alltaf hafa rétt fyrir sér. Halda kúlinu. Ekki gráta eða sýna tilfinningar. Þeir tengjast ekki sjálfum sér.

Við förum í gegnum lífið í ákveðinni röð, nám, vinna, hús, bíll og fjölskylda en hvað tekur svo við í seinni hálfleik? Menn staldra ekki við og spyrja „hvað er ég að gera hérna? Er ég í alvörunni hamingjusamur eða er ég bara að fljóta með straumnum?““

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Ellý brugðið þegar hún spáði fyrir þátttöku Íslands í Eurovision – „Þetta finnst mér sérstakt“

Ellý brugðið þegar hún spáði fyrir þátttöku Íslands í Eurovision – „Þetta finnst mér sérstakt“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Loksins skilin eftir 8 ára hatrammar deilur – Deilur um víngerð halda áfram

Loksins skilin eftir 8 ára hatrammar deilur – Deilur um víngerð halda áfram