Einar Darri Óskarsson, 18 ára ungur dásamlegur drengur í blóma lífsins var bráðkvaddur á heimili sínu þann 25. maí síðastliðinn eftir ofneyslu lyfsins OxyContin. Fjölskylda og vinir Einars Darra eru búin að stofna minningarsjóð í nafni hans sem stendur fyrir og styrkir baráttuna, #egabaraeittlif, sem berst gegn fíkniefnum, með áherslu á misnotkun lyfja meðal ungmenna á Íslandi.
Fjölmargir einstaklingar ætla að hlaupa til styrktar Minningarsjóðs Einars Darra í Reykjavíkurmaraþoninu næstkomandi laugardag, þar á meðal eru 5 ættliðir í kvenlegg, Pálína Bjarnadóttir, 92 ára, Sigrún Anna Einarsdóttir, 69 ára, Bára Tómasdóttir, 48 ára, Andrea Ýr Arnarsdóttir, 27 ára, og Ísabella Rós Pétursdóttir, 5 ára.
„Með þessu viljum við fjölskylda Einars Darra varpa ljósi á það að við Íslendingar, þurfum öll að standa saman ungir sem aldnir og í sameiningu getum við snúið við þessari þróun í misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum og öðrum fíkniefnum. Áheit sem berast okkur og öðrum sem hlaupa til styrktar Minningarsjóðs Einars Darra munu vera vel nýtt í þeim forvarnar verkefnum sem framundan eru hjá baráttunni #egabaraeittlif,“ segir Bára, móðir Einars Darra.
Þegar þetta er skrifað, á þriðjudegi kl. 15, eru 162 einstaklingar sem ætla að hlaupa fyrir Minningarsjóðinn, en enn gæti bæst í hópinn þar sem skráning er opin þar til kl. 13 á fimmtudag.