fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fókus

Steinunn barðist í Írak: „Ekki sama manneskjan eftir að ég kom heim“

Kristinn H. Guðnason
Þriðjudaginn 7. ágúst 2018 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Steinunn Sædal er ein af þeim fáu Íslendingum sem þekkja hernað af eigin raun en hún barðist með landgöngudeild Bandaríkjahers í stríðinu í Írak sem braust út árið 2003. Steinunn var þá einstæð móðir og fór samtals tvo túra í þennan mikla hildarleik. Í seinni ferðinni lenti hún í sprengjuárás og er enn að kljást við meiðslin sem hún hlaut, líkamleg og andleg. Kristinn ræddi við Steinunni sem nú ræktar íslenska hesta í San Diego.

„Það er eins og maður búi í helvíti hérna núna,“ segir Steinunn. Miklir skógareldar geisa nú í Kaliforníu, þeir sjöundu mestu í sögu fylkisins. Þúsundir bygginga hafa brunnið til kaldra kola og að minnsta kosti sex manns hafa látist. Meira en þrjú þúsund slökkviliðsmenn eru að störfum en sviptivindar og bratt landslagið gera störf þeirra erfið.

„Hestarnir mínir eru reyndar úr hættu eins og er því að eldarnir eru að berast nær Los Angeles-svæðinu. Ég er í San Diego sem er sunnar.“

Eldarnir hafa ekkert ógnað heimili þínu?

„Nei, nei, en mér er sama um heimilið. Ég er bara að hugsa um dýrin og börnin,“ segir hún. Steinunn er einstæð móðir með tvær dætur á unglingsaldri, einstaklega glaðvær manneskja og hlý en augljóslega hörð í horn að taka og mikill töffari. Hún hefur gengið í gegnum miklar raunir en það er ekki að sjá á fasi hennar.

 

Handboltinn og fræg systir

Steinunn er fædd árið 1974 og alin upp í Keflavík og á Kjóastöðum í Bláskógabyggð. Foreldrar hennar eru Ríkey Ingimundardóttir listakona og Kjartan Sigtryggsson, sem starfaði sem lögreglumaður og öryggismálastjóri hjá lögreglunni á Keflavíkurflugvelli. Steinunn segist hafa verið mikill prakkari sem krakki og alltaf að gera eitthvað af sér en hún var samt ekki vandræðaunglingur, reykti hvorki né drakk.

Kjartan var öflugur knattspyrnumaður og spilaði bæði með Keflavík og íslenska landsliðinu. Íþróttaáhuginn smitaðist í Steinunni og átti hún sjálf góðan feril í handknattleik.

„Þú veist hvernig þetta er heima. Maður kemur ekkert heim fyrr en um miðnætti eftir að hafa verið í öllum íþróttum sem maður gat verið í. Ég æfði handbolta og keppti fyrir Fram og hjá atvinnumannaliði í Svíþjóð. Eftir atvinnumennskuna flutti ég til Þýskalands og þjálfaði hesta. Síðan kom ég aftur heim til Íslands og hélt áfram í handboltanum.“

Steinunn á tvo bræður og er annar þeirra Kjartan Atli Kjartansson, íþróttafréttamaður og fyrrverandi körfuboltastjarna. Hún á einnig tvær systur, sú eldri er söngkonan og barnastjarnan Ruth Reginalds sem sló í gegn árið 1975.

Fékkst þú mikla athygli út á systur þína og hafðir þú áhuga á að feta sömu slóð?

„Ég hafði engan áhuga á því. Ég átti einhvern tímann að vera í bakröddum hjá henni en það var hætt við það. Maður verður að geta sungið til að vera í þessum bransa,“ segir Steinunn og skellir upp úr.

Í herinn vegna veðmáls

Eftir að Steinunn flutti heim frá Þýskalandi fékk hún vinnu á Keflavíkurflugvelli og þar kynntist hún bandarískum hermanni að nafni Alan Truesdale. Hann var liðþjálfi í landgöngudeildinni og innan skamms settu þau upp hringana og eignuðust dóttur. Árið 1996 fluttu þau saman til Kaliforníu þar sem hún býr enn en þau Alan skildu eftir tíu ára sambúð.

Eins og gefur að skilja var Steinunn mikil kraftakona og setti stefnuna á að verða lögregluþjónn. En sá draumur var úti þegar hún komst að því að einungis bandarískir ríkisborgarar geta starfað sem lögregluþjónar. Þrátt fyrir að hafa búið í meira en tvo áratugi í Kaliforníu er hún ekki enn orðin ríkisborgari því að hún neitar að gefa eftir íslenska ríkisborgararéttinn. En þegar einar dyr lokast þá opnast gjarnan aðrar. Árið 2001 gekk hún í landgöngudeild bandaríska hersins.

Hvernig stóð á því að þú skráðir þig í herinn?

„Það var út af veðmáli,“ segir Steinunn og flissar. „Yfirmaður minn á stað sem ég var að vinna á hafði verið í sjóhernum og hann sagði að ég gæti aldrei orðið landgönguliði. Það væri allt of erfitt að komast í gegnum grunnþjálfunina. Ég tók hann á orðinu og spurði hvort hann vildi veðja. Tveimur vikum síðar var ég komin í búðirnar í Parris Island í Suður-Karólínu.“

Var þetta ekki svolítið stórt skref að taka?

„Ég vann fimmtíu dollara,“ segir hún og hlær. „Mamma var ofboðslega stolt af mér og ég held pabbi líka en hann er ekki mikið fyrir að sýna tilfinningar. Ég talaði ekkert mjög mikið við fjölskyldu mína á þessum tíma. Í þjálfunarbúðunum máttum við ekki hringja í neinn. Ég þurfti reyndar að fá sérstakt leyfi til að ganga í landgönguliðið því að ég var orðin 27 ára gömul, flestir fara þarna inn mjög ungir, jafnvel 17 ára. En mér var tekið mjög vel og var eins og mamma allra unglinganna þarna.“

Steinunn segir að landgönguliðarnir séu mun nánari hópur en í flestum öðrum deildum hersins eins og landher, sjóher og flugher. Þjálfunin sé líka mjög erfið, sérstaklega fyrir konur og aðeins nýlega var byrjað að leyfa konum að vera í fremstu víglínu deildarinnar.

„Þegar ég var lítil stúlka dreymdi mig oft að ég væri hermaður. Síðan vaknaði ég og áttaði mig á að þetta voru bara draumar og af því að ég bjó á Íslandi var þetta svo fjarlægur veruleiki. En þetta var ein besta ákvörðun sem ég hef tekið. Landgönguliðarnir eru fjölskylda. Við erum öll bræður og systur. Ef einhver þarf á hjálp að halda þá hrúgast allir að til að aðstoða. Semper Fi.“

 

Vildi ekki í stríð

Um það leyti sem Steinunn var að hefja sinn feril í hernum rann upp 11. september 2001, hinn örlagaríki dagur þegar farþegaþotum var flogið inn í Tvíburaturnana í New York. Hún og félagar hennar voru að læra að keyra hertrukka þegar sjónvarpi var skyndilega rúllað inn og kennari þeirra sagði að verið væri að ráðast á Bandaríkin.

„Ég hélt að þetta væri plat. Að þetta væri hluti af æfingunni því að í búðunum brjóta þjálfararnir okkur niður andlega og byggja svo aftur upp. En síðan var ljóst að þetta var að gerast í alvörunni. Hann reyndi að hughreysta okkur en ég var alveg að skíta í buxurnar af hræðslu við að fara í stríð. Ég skráði mig ekki í herinn til þess að berjast í stríði heldur til að sjá fyrir dóttur minni. Þegar seinni flugvélin lenti á byggingunni varð allt svart og hvítt og ég hugsaði bara: Ó sjitt.“

Varstu hrædd við að fara í bardaga?

„Ó já. Ég vissi ekkert hvort ég myndi sjá barnið mitt aftur. Aftur á móti var ég búin að vera svo lengi frá fjölskyldunni heima á Íslandi að ég hugsaði voða lítið um hana.“

Steinunn tók hins vegar ekki þátt í innrásinni í Afganistan sem hófst í kjölfarið á árásinni á Tvíburaturnana. Hún ferðaðist um heiminn og var á herstöðvum á Filippseyjum, Japan, Dúbaí og víðar.

Árið 2003 lýsti George W. Bush forseti því yfir að Bandaríkin og bandalag viljugra þjóða myndu ráðast inn í Írak og steypa einræðisherranum Saddam Hussein af stóli. Það ár fór Steinunn í fyrri túr sinn þangað og kynntist bardögum á eigin skinni. Hún var þá í deild sem heitir EOD, sem fer fyrst inn og sér um að taka í sundur allar sprengjur sem finnast. Í deildinni voru um 400 karlmenn en aðeins tvær konur.

„Þetta var erfitt því flugvélarnar okkar og annar búnaður var alltaf að bila. Við þurftum að tjasla þessu öllu saman með alls konar leiðum, notuðum límband og hvað sem við fundum. Birgðavélarnar voru risastórar, með skriðdrekum, trukkum, Hummer-jeppum og öðrum mjög þungum tækjum. Ég bað til guðs að við myndum komast á leiðarenda.“

Steinunn segir að það hafi gengið mjög fljótt og vel að steypa stjórnarher Saddams Hussein. Bandaríkjaher sé það vel æfður og með svo mikið af öflugum vopnum að ómögulegt hafi verið að stöðva hann. En í kjölfarið fylgdu bardagar við skæruliða sem drógust mjög á langinn. Steinunn keyrði þá sjúkrabíl í svokallaðri læknahersveit.

„Bíllinn hét Christine, eins og bíllinn úr sögu Stephens King sem drap alla,“ segir Steinunn kímin.

Helstu verkefnin voru að koma hermönnum til aðstoðar og í læknishendur. Einnig vann sveitin fyrir heimamenn eins og hægt var. Á þessum tíma sá hún alls kyns hrylling.

„Það var mjög sorglegt að fara inn á spítalana þarna því skæruliðarnir notuðu börn til að finna jarðsprengjur. Þarna voru mörg börn sem höfðu misst útlimi. Ég man sérstaklega eftir einni ungri stúlku sem við hefðum getað bjargað ef við hefðum mátt flytja hana til Bandaríkjanna. Við gátum ekkert gert fyrir hana þarna því við vorum ekki með öll tól eða lyf. En landsstjórnin í Írak gaf ekki leyfi og hún er örugglega ekki lengur á lífi greyið,“ segir Steinunn og í fyrsta skiptið í samtalinu breytist tónninn í rödd hennar. Það tekur augljóslega á að rifja upp slíka reynslu.

Höfuð skilið eftir á disk

Steinunn fór heim til Bandaríkjanna og átti yngri dóttur sína, Dalíu, og til að aðstoða hana flutti Ríkey, móðir hennar, til Bandaríkjanna. Hún seldi allt heima á Íslandi og sá um börnin þegar Steinunn flaug út í sinn seinni túr til Írak en þá var hún í þungaflutningasveit og starfaði við að sækja bíla og aðra hluti sem höfðu verið sprengdir.

Misstir þú vini þarna úti?

„Já, mjög marga.“

En skaust þú einhvern?

„Ég held að ég hafi ekki hitt einn né neinn og reglurnar voru mjög strangar um hverju við máttum skjóta að. Skæruliðarnir skutu hins vegar á alla sem þeir vildu,“ segir hún sposk. „En mig langaði heldur ekki til þess að drepa neinn. Ef ég hefði þurft þess þá hefði ég gert það.“

Steinunn kynntist mörgum heimamönnum sem hún segir hafa verið mjög gefandi og minnist hún sérstaklega fornleifafræðings sem sýndi henni rústirnar af hinni fornu borg Babýlon. Hún sá líka ólýsanlegan hrylling koma fyrir fólk.

„Við þekktum einn sextán ára strák sem hét Muhammed. Faðir hans var að vinna á flugvellinum og skæruliðarnir náðu honum fyrir utan einn daginn. Þeir tóku af honum hausinn, plokkuðu augun út, skáru tunguna af, settu á disk og skildu eftir fyrir utan völlinn. Þetta var gert til að hræða heimamenn og fæla þá frá því að vinna með okkur.“

 

 

Trukkurinn sem ráðist var á

Slasaðist illa í sprengjuárás

Í einni aðgerð árið 2004 var Steinunn farþegi í trukk sem varð fyrir sprengjuárás. Allt í einu kom byssukúla frá leyniskyttu fljúgandi milli hennar og annars hermanns og skömmu síðar varð sprenging í trukknum. Bíllinn var með stórt hlass og var tíu eða fimmtán tonna þungur en sprengjubyssan sem notuð var er yfirleitt notuð til að granda skriðdrekum.

„Þetta var allt öðruvísi en það sem við erum vön að sjá í bíómyndunum. Það kom hvítt ljós og svo var eins og það liði heil sekúnda þangað til sprengingin sjálf varð. Það hægðist á tímanum. Þegar sprengingin kom loks þá urðum við öll heyrnarlaus á stundinni, eins og það væru flautur í eyrunum á okkur. Trukkurinn lyftist, flaug marga metra og fór allur í skrall. Ég sá allt í einu framljósin lýsa beint á okkur og húddið var farið af bílnum. Síðan varð allt alelda og ég hélt að við værum dauðans matur. En við náðum að komast út úr bílnum og ætluðum að hlaupa í burtu. Þá var hrópað til okkar og við vöruð við jarðsprengjusvæðinu sem var beint fyrir framan fæturna á okkur.“

Steinunn særðist alvarlega í árásinni. Hún skaddaðist á mjóhrygg og við hálsinn og missti heyrn í öðru eyra. Um tíma gat hún ekki gengið og þurfti að fara í aðgerðir. En alvarlegustu afleiðingarnar voru mikill heilaskaði og áfallastreituröskun sem hrjá hana enn mjög í dag. Þrátt fyrir þetta fór hún ekki strax heim frá Írak.

„Þegar ég lenti í árásinni gaf herinn mér möguleika á að fara strax heim. Ég gat ekki gengið í nokkra daga eftir þetta. Hins vegar ákvað ég að vera lengur af því að krakkarnir sem voru úti með mér voru þarna í sínum fyrsta túr en ég hafði reynsluna. Ég vildi ekki yfirgefa þau.“

Steinunn hefur fengið margar orður fyrir störf sín í bandaríska hernum en eftir sprengjuárásina fékk hún hið þekkta purpurahjarta, sem er veitt þeim hermönnum sem særast á vígvellinum.

Steinunn með purpurahjartað

Nauðgað af bílstjóra

Næstu tíu ár voru Steinunni ákaflega erfið, og þá er mjög vægt til orða tekið, og andlegu eftirköstin mikil. Vegna heilaskaðans missti hún mikið af skammtímaminninu. Hún gleymir andlitum og á erfitt með að vita hvern hún þekkir og hvern ekki. En eldri minningar, lagatextar og fleira í þeim dúr hafa haldið sér.

Vegna áfallastreituröskunarinnar, sem er mjög algeng hjá fyrrverandi hermönnum, hrjá minningar úr hildarleiknum í Írak hana. Alls 38 sinnum hefur hún fengið raflostmeðferð til að reyna að þurrka þessar minningar út en það er alltaf eitthvað annað sem fer í staðinn.

Annar vágestur, þunglyndi, fór einnig að leggjast á hana með miklum þunga. Hún segir:

„Mér leið mjög illa í um tíu ár á eftir að ég kom heim og ég var ekki sama manneskjan. Mamma var hjá mér og hjálpaði mér með stelpurnar og ég reyndi að sinna þeim eins og ég gat. Ég lokaði mig oft af inni í herbergi, vildi ekki vera innan um fólk og gat ekki sofið. Síðan snerist það við og ég fór að fara óhóflega mikið út á lífið og drakk allt of mikið. Ég vissi eiginlega ekkert hvernig ég ætti að haga mér. Ég var á alls nítján mismunandi lyfjum og var alveg týnd andlega.“

Það er ekki auðvelt að rifja þennan tíma upp en Steinunn er róleg og einlæg í svörum sínum.

Varstu með sjálfsvígshugsanir?

„Já, tvisvar sinnum var ég á mjög vondum stað og systir mín á Íslandi lét senda mig á geðdeild til aðhlynningar.“

Það voru hins vegar ekki aðeins eftirköst sprengingarinnar og minningarnar frá Írak sem sóttu á Steinunni því á þessum tíma, þegar hún var á hvað viðkvæmasta staðnum, var henni nauðgað af óþekktum manni. Hún segir:

„Það var áður en ég fór í seinna skiptið inn á geðdeild. Ég ætlaði að taka Uber-bíl en sá sem sat undir stýri var ekki með leyfi frá fyrirtækinu. Hann réðst á mig, nauðgaði mér, reyndi svo að drepa mig og henti mér út úr bílnum.“

Hvernig komstu í gegnum þetta allt saman?

„Það sem kom mér í gegnum þetta voru dætur mínar og hestarnir. Svo á ég yndislega vinkonu sem heitir Jenny sem hefur hjálpað mér mjög mikið. Hérna úti eru líka Íslendingar sem ég er í miklum samskiptum við og hafa reynst mér vel. Í dag þarf ég ekki að taka nein lyf lengur.“

 

Hrifin af Trump

Steinunn hefur séð marga hermenn koma heim með áfallstreituröskun. Hún segir að lengi hafi illa verið haldið utan um þennan hóp af stjórnvöldum en það sé að breytast til betri vegar. Helsta ástæðan fyrir því er tilkoma Donalds Trump í forsetastólinn og er hún dyggur stuðningsmaður hans.

Af hverju ertu svona hrifin af Trump?

„Af því að hann er nógu klikkaður til þess að hræða þessa rugludalla sem stjórna í einræðisríkjum. Íslendingar skilja þetta ekki, Ísland er herlaust land sem aldrei er ráðist á.“

Er mikill stuðningur við hann þarna á svæðinu í kringum þig?

„Já og nei,“ segir Steinunn og hlær. „Allir vinir mínir hér styðja Trump nema Ruth, systir mín, og íslensk vinkona sem heitir Solla. En þær hafa ekki farið í stríð. Að hafa forseta sem er sterkur leiðtogi og tekur slaginn fyrir bæði lögregluna og herinn er ákaflega mikilvægt.“

Steinunn hitnar öll þegar forveri hans Obama berst í tal.

„Obama var aldrei tilbúinn til að taka upp hanskann fyrir lögregluna, sérstaklega þegar uppþot urðu. Hann var algjör aumingi og lét Bandaríkin líta út fyrir að vera veikari en þau eru. Í hans tíð snerist allt um málefni svartra og það spruttu upp kynþáttafordómar vegna þess. Í dag eru allir sem styðja Trump brennimerktir sem rasistar.“

Ræktar hesta í San Diego

Langar aftur til Íslands

Þrátt fyrir miklar sveiflur í lífi Steinunnar hefur eitt aldrei horfið, en það er ástin á hestum og sérstaklega íslenskum hestum. Eins og áður var sagt ræktar hún og temur hesta í nágrenni við San Diego.

„Það sem mig langar að gera fyrr en seinna er að flytja til Arizona-fylkis. Þar er staður upp í fjöllunum sem heitir Prescott, ofboðslega fallegur og með veðri allra árstíða. Mig langar til að vera þar með íslenska hesta og stofna góðgerðasamtök fyrir fyrrverandi hermenn með áfallastreituröskun og fjölskyldur þeirra. Mig langar til að hjálpa, því að þetta er svo erfiður sjúkdómur og hjalli að komast yfir. Það er sagt að á 21 sekúndu fresti svipti bandarískur hermaður sig lífi vegna hans. Maður upplifir sínar verstu stundir aftur og aftur og aftur. Það hefur hjálpað mér mikið að vera úti með hestunum og mig langar til að gera eitthvað gott fyrir aðra í sömu stöðu.“

Eru Bandaríkjamenn hrifnir af íslenska hestinum?

„Þeir elska íslensku hestana. Þeir eru svo sterkir, flottir, dyggir og með þessa einstöku gangtegund, töltið. Þú gætir selt truntu hérna úti fyrir morðfé. En margir eru að temja íslenska hesta á rangan hátt hérna.“

Núna er Steinunn með stóðhest sem heitir Víkingur og hryssu sem heitir Fjóla og hyggst hún rækta undan þeim. Síðan er hún með arabískan blending sem heitir Lúsífer. Dýraástin er þó ekki bundin við hesta eingöngu því auk þess á hún þrjá hunda, Skessu, Pjöllu og Clumsy sem einnig hafa hjálpað henni að komast út úr sínum vandræðum. Hún kallar þá meðferðarhundana sína. Við þetta dýrasafn bætist páfagaukurinn Benji sem kann að tala.

Stefnir þú á að flytja einhvern tímann aftur heim til Íslands?

„Mig langar mikið til að koma aftur heim en ég gæti aldrei búið of langt frá dætrum mínum. Við erum að safna fé til að koma í heimsókn og hitta alla fjölskylduna. Ég hef ekki komið til Íslands síðan árið 2000 og það er fjöldinn allur af frændum og frænkum sem ég hef aldrei séð. Ég bið svo innilega að heilsa öllum sem ég þekki heima og ég elska ykkur öll.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur
Fókus
Í gær

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna
Fókus
Fyrir 2 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“