Við hittum Þorstein fyrir í Bataskóla Íslands við Suðurlandsbraut sem hefur verið starfandi í eitt ár og útskrift annars bekkjar er nýlokið. Þorsteinn starfar þar sem verkefnisstjóri ásamt Esther Ágústsdóttur og skipuleggja þau dagskrá skólans. Skólinn er samstarfsverkefni Geðhjálpar og Reykjavíkurborgar til þriggja ára og nær námið yfir eitt skólaár.
„Hingað kemur fólk í sex til sjö mánuði og velur sér námskeið sem hentar. Námskeiðin snúast öll um bata við geðrænum kvillum og áskorunum og leiðir til betri lífsgæða. Til dæmis námskeið um kvíðastjórnun, þunglyndi, sjálfstraust, ADHD, sjálfsumhyggju, núvitund og margt fleira.“
Þorsteinn segir að hér á Íslandi hafi verið til áhugahópur um að koma upp slíkum skóla í mörg ár og að þeir séu til víða erlendis, sérstaklega í Bretlandi. Hópurinn fór út til Bretlands til að skoða aðstæður og ákveðið var að hafa einn slíkan, Nottingham Recovery College, sem fyrirmynd að íslenska skólanum. Oft eru skólarnir inni á geðdeildum en í Nottingham er hann óháðari stofnun.
Á næsta ári verður lögð áhersla á yngra fólk og boðið upp á bekk fyrir 18 til 28 ára og Þorsteinn er mjög spenntur yfir því.
„Það eru nokkrar ástæður fyrir þessu. Við teljum út frá okkar reynslu að ungt fólk vilji vera út af fyrir sig. Einnig er þetta sá hópur sem þeir sem standa að úrræðum svipuðum og okkar eru að reyna að ná til. Þetta er fólk sem yfirleitt hefur veikst frekar nýlega og er viðkvæmt. Það er búið að vera að rannsaka þennan hóp sérstaklega undanfarin ár og undarlegar niðurstöður eru að koma í ljós. Einmanaleiki drengja er að aukast, kvíði og þunglyndi hjá unglingum einnig. Það er erfitt að reiða hendur á hvað er í gangi.“
Þorsteinn leggur áherslu á að Bataskólinn sé skóli en ekki meðferð. Hér eru ekki teknar niður neinar sjúkrasögur eða slíkt en reynt er að mæla árangurinn af starfinu með könnunum og viðtölum, bæði vellíðan og virkni nemenda.
„Hérna eru hins vegar engin próf eða mætingarskylda. Við höfum skráð niður mætingar og haft samband við þau sem að mæta illa og hvatt þau til að mæta. Sumum finnst þetta erfitt og námskeiðin eru krefjandi. Þetta er alvöru skóli en við leggjum mjög mikið upp úr léttleika og fjölbreytilegum kennsluaðferðum og notum aldrei sömu aðferð nema í tíu mínútur í senn, fyrirlestur, verkefnavinna, vídeó og svo framvegis. Ef fólki finnst erfitt getur það farið fram og tekið sér pásu, við höfum þetta manneskjulegt.“
Í hvernig ásigkomulagi er fólkið sem leitar til ykkar?
„Flestir sem koma inn í skólann til okkar eru þeir sem hafa reynslu af geðrænum veikindum og hafa verið á batavegi í einhvern tíma, yfirleitt nokkur ár. En það er ekkert endilega þannig og sumir koma beint úr meðferð á Landspítalanum. Sumir eru orðnir einkennalausir og vilja halda sér á góðum vegi og aðrir vilja bæta lífsgæði sín þótt þeir hafi einkenni. Þannig skilgreinum við bata á einstaklingsbundinn hátt. Þetta er mjög fjölbreytilegur hópur með mismunandi bakgrunn og það brýtur niður fordóma að fólk með ólíkan bakgrunn sitji saman í bekk.“
Alls 28 manns voru innritaðir í fyrsta hóp skólans síðastliðið haust og Þorsteinn finnur fyrir þörfinni. Hann og Esther hafa verið að sækja út á við og sótt styrki til þess. Til dæmis hefur Bataskólinn verið með námskeið í fangelsinu á Hólmsheiði fyrir kvenfanga en geðheilbrigðismál fanga hafa einmitt mikið verið til umræðu á undanförnum árum og mikill skortur á sálfræðiaðstoð fyrir þá. Í haust verður meira gert af þessari útrás.
Þorsteinn er nú í sálfræðinámi við Háskóla Íslands, hefur nýlokið við að skila inn BS-ritgerðinni og á aðeins eftir að klára örfáar einingar. Það var að hluta til fyrir tilviljun að hann valdi fagið en hann er útskrifaður leikari og á að baki langan feril í listum. Að fara inn á þessa braut voru því mikil tímamót í lífi hans.
„Ég vissi ekki alveg hvað sálfræði var áður en ég skráði mig í námið en hugsaði með mér að þetta væri eitthvað svipað og ég væri búinn að vera að gera í listinni, að skoða mannlega hegðun.“
Hefur þú sjálfur glímt við andleg veikindi sjálfur?
„Nei, en ég hef upplifað mikla streitu í mínum störfum og var farinn að finna fyrir kulnun á því sviði. Ég þurfti því að taka beygju á mínum ferli og fara í einhverja allt aðra átt.“
Var ekkert skrýtið að setjast á skólabekk með öllum krökkunum?
„Jú, það var mjög skrýtið,“ segir Þorsteinn með bros á vör. „Til að byrja með voru fleiri öldungar eins og ég en svo duttu þeir út og ég stóð einn eftir með fólki um tvítugt. En krakkarnir tóku mig með inn í verkefnahópa og voru hlýleg við mig.“
Geðheilbrigðismál hafa verið mikið til umræðu undanfarin tvö eða þrjú ár, sérstaklega í tengslum við þunglyndi og kvíða og hátt hlutfall sjálfsvíga hjá ungum mönnum og drengjum. Þorsteinn segir mikla vakningu vera að eiga sér stað meðal almennings.
„Ég finn að fólk sem ég ræði við hefur almennan áhuga á þessum málum og fordómarnir gagnvart geðsjúkum fara sífellt minnkandi. Margt hér á landi er mjög vel gert en það vantar meira fjármagn. Það er til dæmis ekki í lagi að loka geðdeildum hérna á sumrin. Alls ekki í lagi og við eigum ekki að láta það spyrjast út. Einnig vantar ákveðið framhald fyrir fólk sem veikist alvarlega. Þetta er stórt samfélagslegt mál sem allir verða að taka saman höndum til að laga. Og eins og ég segi þá eru skrýtnir hlutir að gerast hjá unga fólkinu.“
Hvað telur þú að sé að gerast þar?
„Fólk hefur verið að kenna samfélagsmiðlunum um en ég held að þetta sé stærra mál. Ef að unglingarnir okkar eru kvíðnir þá er ástæða fyrir því. Sú ástæða er yfirleitt sú að þeir horfa til framtíðar og á þjóðfélagið og hugsa: „Vá! Þetta er eitthvað sem ég á ekki eftir að ráða við.“ Kvíði er alltaf fyrir einhverju og ástæðulaus kvíði er sjaldgæfur. Þegar svona margir eiga í hlut þá er einhver ástæða fyrir þessum kvíða og við fullorðna fólkið erum að gera eitthvað vitlaust. Ég held að við séum að láta þetta þjóðfélag líta erfiðara út en það er í raun. Við erum alltaf að rífast og mikil neikvæðni í gangi. Ofan á það bætist lífsgæðakapphlaupið og samkeppnis- og keppnisandi á öllum stöðum. Allir eru sífellt að mæla það hvort þeir séu nógu góðir fyrir þetta eða hitt í stað þess að fólk fái frið til að melta og vera eins og það er. Við erum að hræða unglingana okkar.“
Hvað gerum við þá?
„Lausnin er ekkert endilega fólgin í fleiri pillum eða sálfræðitímum, sem er þó vöntun á, heldur að við breytum þjóðfélaginu og gerum þeim lífið aðeins auðveldara. Við sjáum til dæmis mikla kulnun í starfi hjá kennurum og aukinn kvíða hjá unglingum, hópar sem eyða miklum tíma saman og kannski gæti þar verið samhengi á milli. Það að ungir drengir loki sig af og spili tölvuleiki út í eitt gæti hugsanlega verið afleiðing af vandamálinu en ekki orsökin að hluta til. Við þurfum að byrja á forvörnum og laga aðstæðurnar áður en við byrjum að framleiða geðsjúkdóma. Síðan verðum við að forgangsraða rétt í kerfinu okkar því að það er til nóg af peningum. Fyrir þá sem hugsa aðeins út frá peningum þá er líka mjög dýrt að leyfa fólki að veikjast, alveg fáránleg bissness-hugmynd.“
Þorsteinn er fæddur í Reykjavík árið 1967 inn í mikla leikarafjölskyldu. Foreldrar hans eru leikararnir Guðmundur Magnússon og Helga Stephensen og móðurafi var Þorsteinn Ö. Stephensen sem hóf sinn leikaraferil á þriðja áratug síðustu aldar. Í sumar útskrifaðist Hlynur, sonur Þorsteins, sem leikari frá Listaháskólanum og er þar af leiðandi fjórði ættliður leikara. Þorsteinn segir að það hafi þó ekki alltaf legið fyrir að hann sjálfur myndi feta þessa slóð, því sem barn langaði hann helst til þess að verða tónlistarmaður og lék á trompet með lúðrasveit.
„Ég var ósköp ljúfur sem barn og skapandi. Svolítið hlédrægur og feiminn sem varð að vandamáli á unglingsárunum. Ég var óöruggur og hélt mér til hlés en veit ekki alveg af hverju. Þegar ég fór í Menntaskólann í Reykjavík þá snerist þetta við og ég fór að blómstra. Þá skipti ég um vinahóp til að endurskilgreina mig en það var svo sem ekkert að gömlu vinunum. Ég þurfti að skipta um umhverfi til að landið færi að rísa hjá mér.“
Í MR gekk Þorsteinn í leikfélagið Herranótt og steig fyrst á svið í leikritinu Húsið á hæðinni – hring eftir hring eftir Sigurð Pálsson. Þá varð ekki aftur snúið. Þorsteinn hlær þegar hann er spurður um hvort það hafi verið vegna þrýstings frá fjölskyldunni.
„Það var enginn þrýstingur, þvert á móti. Ég man eftir kvíðasvipnum á afa þegar ég sagði honum frá þessu. En hann dró samt ekkert úr mér og kom á sýningarnar mínar. Hann hefði ábyggilega þegið það að ég færi frekar í læknisfræði eða lögfræði. Þetta er í sjálfu sér erfitt starf og illa borgað.“
Var ekkert erfitt fyrir feiminn strák að stíga á svið?
„Nei,“ segir Þorsteinn hugsi. „Ég var að brjótast út úr feimninni á þessum tíma og síðan hefur feimni ekkert mikið að gera með hvernig fólk stendur sig á sviði. Feimið fólk blómstrar oft í leiklist eða uppistandi. Þar eru allt aðrar aðstæður.“
Eftir menntaskólann hélt Þorsteinn í Leiklistarskóla Íslands og síðan í ýmis verkefni á vegum Þjóðleikhússins, Borgarleikhússins og smærri leikhúsa. Að eigin sögn var hann hins vegar ekki beint að slá í gegn. Einnig fór hann að skrifa töluvert og árið 1993 eða 1994 að halda uppistand, sem var þá nánast óþekkt á Íslandi. Orðið uppistand var ekki einu sinni til.
Sem leiklistarskólanemi stefndi Þorsteinn á að verða hádramatískur og alvarlegur leikari en fljótlega komst hann að því að gamanleikurinn ætti betur við hann og í dag er Þorsteinn nær eingöngu þekktur fyrir gamanleik og grín í gegnum ýmsa miðla. Enn kemur Þorsteinn fram af og til sem uppistandari þó að hann leggi ekki sérstaklega mikla áherslu á þann vettvang.
Hafa áhorfendur breyst á þessum aldarfjórðungi?
„Í sjálfu sér ekki en í dag veit fólk út á hvað þetta gengur. Þegar ég var að byrja þá áttu margir erfitt með að skilja hvað uppistand væri. Í dag er orðinn miklu meiri kúltúr fyrir þessu.“
Hefur þú tekið eftir breytingum á því sem leyfilegt er að segja?
„Já, fólk er orðið miklu meðvitaðra um hvað sé móðgandi og á varðbergi gagnvart því. Að sumu leyti er það gott en að öðru leyti takmarkandi. Sérstaklega þegar fólk er að móðgast fyrir hönd annarra, það er bara kjánalegt. Þjóðfélagið hefur breyst mikið á þessum tíma og grínistar verða að þróast með. Það er ekki hægt að vera með sama prógram og sama húmor og fyrir 25 árum.“
Hefur þú móðgað fólk?
„Já, guð!“ segir Þorsteinn og slær sér á lær. „Stundum þannig að ég sé eftir því en stundum þannig að ég sé ekkert eftir því. Uppistandarar eru í mikilli hættu af því að þeir eru í svo nánu samtali við áhorfendur. Með reynslunni hef ég lært að svara fólki og gert þá góðlátlegt grín að því. Þegar ég var að byrja svaraði ég oft á harkalegan hátt og lenti þá jafnvel á einhverjum sem ekki gat tekið því. Síðan lærði ég að beina þessu að til dæmis yfirmönnum eða einhverjum sem ég sé að hefur húmor.“
Þorsteinn segir að hann sjálfur sem grínisti hafi þróast með árunum og hans húmor hafi færst nær raunverulegum smekk. Á fyrstu árunum var hann mikið að apa eftir öðrum og flytja efni í stíl sem hann hélt að fólk vildi heyra.
En hefur þú lent í því að enginn hlær?
„Já, síðast fyrir um það bil tuttugu árum. Það er hrikalega óþægilegt en kemur fyrir alla. Ungir grínistar kenna sjálfum sér um en það geta margar mismunandi ástæður verið fyrir þessu, stemningin og annað. Ég man til dæmis eftir einu atviki þar sem ég var pantaður upp á Höfða til að skemmta starfsfólki eftir vinnu. Þegar ég kom voru ekki nema um tíu manns þarna, sitjandi í sófa með krosslagðar hendur. Það kunni enginn að meta atriðið og enginn hló. Ég fór niðurlútur til forstjórans og baðst afsökunar á því að hafa klikkað svona á sýningunni. En hann sagði mér að hafa ekki neinar áhyggjur. Þetta væri allt saman fólk sem hefði fengið uppsagnarbréf um morguninn og með þessu hefði verið reynt að létta lundina.“
Uppistand er langt frá því það eina sem Þorsteinn hefur tekið sér fyrir hendur. Hann hefur verið dagskrárgerðarmaður í sjónvarpi og útvarpi, með leikna þætti og viðtalsþætti. Skrifað bækur, teiknimyndasögur og margt, margt fleira. Hann segir að í rauninni skipti miðillinn sjálfur ekki máli.
Er listin hark?
„Já, það er alveg hægt að segja það. Þetta er illa borgað og möguleikarnir þegar ég var að byrja voru mun færri en núna. Þetta var mjög stressandi og engin hálaunastörf í boði. Nýútskrifaðir nemar biðu eftir símtali frá Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu og voru búnir að ákveða að finna sér nýjan starfsvettvang ef það kæmi ekki. Í dag eru möguleikarnir fjölbreyttari. Til dæmis er elsti sonur minn, sem er nýútskrifaður, ekki að hugsa á þessum nótum heldur um alls konar verkefni sem hann ætlar að taka sér fyrir hendur.“
Þorsteinn skaust upp á stjörnuhimininn þegar hann kom inn í Fóstbræðra-hópinn árið 1998 og tók þátt í annarri seríu sem sýnd var á Stöð 2. Fjórar seríur fylgdu í kjölfarið og varð efnið nær goðsagnakennt og enn þá vitnað í það við ýmis tækifæri. Þorsteinn minnist þessa tíma með bros á vör.
„Þetta voru skemmtileg ár og sérstök. Svolítið eins og að vera í vinsælli hljómsveit. Fólk hafði miklar skoðanir á Fóstbræðrum, bæði jákvæðar og neikvæðar, og þetta hafði svolítinn sess í þjóðfélaginu. Svo er dálítið sérstakt að þeir sem settu sig upp á móti Fóstbræðrum þegar þættirnir voru sýndir eru mestu aðdáendurnir í dag. Margir þurftu tíma til að skilja þættina því að þetta var nýtt og öðruvísi á þessum tíma.“
Þorsteinn þekkti Jón Gnarr áður því þeir voru bekkjarbræður í Réttarholtsskóla og Fossvogsskóla. En það var Helga Braga sem dró hann inn í hópinn, upphaflega til að skrifa. Fóstbræðraþættirnir voru skrifaðir í tveggja manna teymum, Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson, Hilmir Snær Guðnason og Benedikt Erlingsson og síðar Helga Braga og Þorsteinn.
„Ég reyndi að koma þarna inn af hógværð því að í hópnum var fólk sem var búið að gera það mjög gott með fyrstu seríunni. Ég tók að mér stuðningshlutverk en reyndi að gera þau skemmtileg en svo snerist þetta ekki um aðalleikara og aukaleikara. Það var ekki keppni á milli okkar heldur snerist allt um að láta sketsana ganga upp og hitta í mark. Við tókum þetta mjög alvarlega og lögðum svakalega vinnu í þetta. Skrifuðum alltaf tvöfalt meira en við tókum upp.“
Þannig að það er til efni í fleiri seríur?
„Já, já, ég á efni í þrjár eða fjórar seríur til viðbótar. En ég held að þetta hafi verið alveg mátulegt og við höfum hætt á réttum tíma. Eftir þetta dró ég mig út úr svona sketsavinnu og ég held að það hafi verið rétt ákvörðun. Ég vildi að þetta fengi að lifa og ég færi að gera eitthvað annað.“