Meirihlutinn í Reykjanesbæ féll í nýafstöðnum bæjarstjórnarkosningum. Meirihlutinn var skipaður tveimur fulltrúum frá Samfylkingunni, Beinni leið og Frjálsu afli. Gengi þessara flokka var æði misjafnt í kosningunum. Samfylkingin bætti við sig manni en Bein leið og Frjálst afl misstu bæjarfulltrúa og þar með féll meirihlutinn.
Oddviti Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ er Friðjón Einarsson, núverandi formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar. Hann stendur í ströngu þessa dagana því allir flokkar eru að tala við alla varðandi meirihlutamyndun í bænum. Við sjóndeildarhringinn er þó mikið tilhlökkunarefni hjá Friðjóni. Sjálft heimsmeistaramótið í Rússlandi.
Sonur hans er atvinnuknattspyrnumaðurinn Samúel Kári, leikmaður Valerenga í Noregi, sem óvænt var kallaður í HM-hóp Íslands á dögunum. Það var ekki síst fjölhæfni Samúels Kára sem tryggði honum sæti í hópnum. Hann er svo sannarlega maður framtíðarinnar hjá íslenska landsliðinu.