fbpx
Þriðjudagur 03.desember 2024
Fókus

Þakklátur að geta borgað allar skuldirnar

Kolbeinn Óttarsson Proppé bað um gjaldþrot – Búinn að ná jafnvægi í lífinu – Kominn með þykkan skráp

Ari Brynjólfsson
Laugardaginn 17. mars 2018 08:00

Kolbeinn Óttarsson Proppé

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kolbeinn Óttarsson Proppé bað um að vera lýstur gjaldþrota eftir að hafa safnað skuldum í áratugi. Í dag er hann búinn að vera edrú í fjögur ár og hefur setið á þingi fyrir Vinstri græn í rúmt ár. Í haust klárar hann að borga af öllum skuldunum. Í viðtali við DV lýsir hann því hvernig hann kom sér í þessa stöðu, edrúmennskuna og hvernig það er að vera kallaður landráðamaður og svikari.

„Ég er bara lífsglaður maður, einu sinni var það vegna þess að það var föstudagur en það er ekki þannig lengur,“ segir Kolbeinn kátur þegar hann sest niður með blaðamanni í færeyska herberginu í Alþingishúsinu á sólríkum föstudegi. „Í grunninn er ég hress, en eftir að ég villist af leið í lífinu þá urðu morgnarnir þyngri, en eftir að ég hætti að drekka og tók til í mínu lífi hef ég aftur fundið þessa lífsgleði, að vakna og hlakka til dagsins. Það eru allir dagar þannig.“

Ef við byrjum á byrjuninni, hvaðan ert þú?

„Ég tala um að ég sé frá miðhálendinu. Ætli ég hafi ekki verið í fimm grunnskólum, við fluttum svo títt. Það var einhver ævintýramennska og víðsýni í foreldrum mínum. Ég fæddist í Reykjavík, þegar ég var tveggja ára fluttum við norður á Dalvík. Þar var ég næstu sex árin, þá fluttum við í Hafnarfjörð. Tveimur árum síðar var pabbi ráðinn bæjarstjóri á Siglufirði, þar bjuggum við í eitt kjörtímabil, fjögur ár. Húsið okkar í Hafnarfirði brann á meðan við bjuggum fyrir norðan þannig að við fluttum á endanum í Kópavog. Þetta er kannski ekki miðhálendið, ég er frá Norðurlandi og höfuðborgarsvæðinu. Þetta er Tvídægra,“ segir Kolbeinn og hlær. „Ég lít á mig sem Norðlending, en það togast á við Suðurland því móðurættin er frá Þjórsárdal og þar var ég á sumrin.“

Datt fyrst í það 11 ára

Aðstæður leiddu til þess að Kolbeinn byrjaði ári á undan í grunnskóla, Kolbeinn á afmæli í desember og því var hann aðeins fjögurra ára í fyrsta bekk. „Pabbi var húsvörður og kennari í skólanum á Dalvík, við bjuggum á heimavistinni þar sem var verið að kenna yngsta bekknum. Ég hékk alltaf fyrir utan og á endanum var mér hleypt inn. Ég var í bekk með krökkum sem voru sum hver nánast tveimur árum eldri en ég, sem betur fer þroskaðist ég mjög snemma.“
Þar af leiðandi byrjaði Kolbeinn snemma að vinna. „Ég var 12 ára byrjaður að vinna á sumrin í frystihúsinu og var tekjuhærri en mamma.“ Þegar Kolbeinn flutti suður var stóra bróður hans boðið pláss á skipi, bróðir hans komst ekki og bauð Kolbein fram í staðinn. „Þá var ég 17 ára. Ég var nokkur sumur á sjónum.“

Kolbeinn var byrjaður að drekka aðeins 11 ára gamall og byrjaður að vinna 12 ára.

Þroskaðist snemma Kolbeinn var byrjaður að drekka aðeins 11 ára gamall og byrjaður að vinna 12 ára.

Mynd: Sigtryggur Ari

Var það í frystihúsinu á Siglufirði sem þú tókst fyrsta sopann?

„Nei, það var líklegast þegar við krakkarnir stálum brennivíni af Siglufjarðarleið. Stemningin þarna fyrir norðan var á þá leið að okkur lá mjög á að verða fullorðin. Það átti við um vinnuna og að detta í það. Við héldum partí eftir skólann, drukkum, dönsuðum og tókum til áður en foreldrar okkar komu heim. Ég held að ég hafi verið 11 ára þegar ég datt fyrst í það.“

Kolbeinn var því orðinn nokkuð veraldarvanur þegar hann flytur suður, 14 ára gamall. „Það voru einhverjir byrjaðir að drekka og aðrir að prófa. Þá var ég búinn að vera á fylleríum í nokkur ár og drykkja orðin eðlilegur hluti af lífinu.“

Endaði á geðdeild vegna drykkju

Hvenær var drykkjan orðin að vandamáli?

„Ég veit það hreinlega ekki, auðvitað er það vandamál að svona ungt barn sé á fylleríi. Þegar ég var kominn í menntó þá voru allir á fylleríi um helgar, ekki allar helgar. Maður drakk mikið og var á kafi í töffaraskap. Ég leitaði svo í aðstæður og félagsskap þar sem drykkja er eðlileg. Það er ekki hægt að segja hvenær þetta varð vandamál, þetta er stigversnandi sjúkdómur. Ég leit aldrei á þetta sem vandamál fyrr en ég var orðinn fullorðinn. Það fer að kvarnast úr hópnum sem er til í að detta í það með þér, þá finnur þú annað fólk sem er til í það.

Ég hafði engan stoppara, tveir bjórar á barnum og það varð fyllerí. Ég varð sjaldan þunnur og átti ekki í vandamáli með svefn, þannig að þetta gekk alveg. Fyrr en ég áttaði mig á var ég kominn með stimpilinn að vera drykkfelldur, ég upplifði þetta ekki sem vandamál fyrr en ég var að sækja um vinnu og komst að því að meðmælandi talaði um að ég drykki mikið. Þá var ég fertugur.“

Afneitunin var það sterk að hann áttaði sig ekki á að hann væri alkóhólisti þrátt fyrir að hann endaði inni á geðdeild vegna drykkju. „Afneitun er sterkasta aflið, sterkara en þörfin til að drekka. Þú sérð það sem vandamál á meðan þú ert niðri. Þú sverð það á mánudegi að drekka aldrei aftur, en á fimmtudeginum er þetta aldrei vandamál.“

Hvernig kom það til að þú endaðir inni á geðdeild vegna drykkju?

„Þetta var 2003. Þá var ég búinn að vera í slæmum aðstæðum, búinn að drekka í nokkra daga og sofa nánast ekki neitt. Ég var bara orðinn ruglaður, en ég náði mér fljótt upp úr því.“

Þegar þarna var komið sögu var Kolbeinn orðinn tveggja barna faðir. „Þú missir öll prinsipp. Ég sleit samvistir árið 2002, fyrst var maður rosa fínn, var með barnið viku og viku, svo fór að kvarnast úr því og svo var ég kominn í þá stöðu að það var langt síðan ég sá barnið mitt því ég var svo upptekinn að sinna því að vera alkóhólisti. Þarna hefði ég getað fundið minn botn, en ég gerði það ekki.“

Botninn getur komið hvenær sem er

Á þessu tímabili var Kolbeinn hvað lengst niðri, en síðan náði hann stöðugleika í lífinu þrátt fyrir að vera áfram virkur alkóhólisti. „Ég hafði þá sýn á sjálfan mig að ég væri rosa frjáls hugur og hálfvorkenndi þessum smáborgurum í kringum mig sem voru bundnir af fjölskyldu og húsnæðislánum. Innst inni öfundaði ég þetta fólk.“ Kolbeinn fór í meðferð 2012. „Ég var dreginn inn og ég var að þessu fyrir aðra. Það entist nokkra mánuði.“

Hvenær fannst þú svo botninn?

„Það var 2014. Það er svo skrítið, botninn svokallaði getur komið í raun og veru hvenær og hvar sem er. Það er ekki endilega þegar maður er búinn að gera skelfilegustu hlutina. Ég var kominn í nýja vinnu og drykkjan farin að þvælast fyrir mér, ég sá þetta sem vandamál. Mætti seint, oft veikur, þóttist vera á fundi úti í bæ. Ég vaknaði einn morguninn í íbúð vestur í bæ sem ég var að leigja, hefði átt að vera mættur í vinnuna og var að velta fyrir mér hvernig ég ætti að tækla þennan daginn. Ég var búinn að búa þarna í sex mánuði, horfði í kringum mig, sá kassa sem ég var ekki búinn að taka upp úr. Þarna rann upp fyrir mér ljós, ókei, ég kemst aldrei lengra í lífinu en þetta. Ef ég er heppinn þá næ ég að viðhalda þessu en líklegast fer allt versnandi. Fjölskyldutengsl, fjármálin, allt í rúst. Allt svo óyfirstíganleg vandamál að það tekur því ekki að byrja að reyna að leysa þau. Þarna gafst ég upp.“

Kolbeinn fann botninn í leiguíbúð þegar hann áttaði sig á að ef hann héldi áfram að drekka myndi hann aldrei komast lengra í lífinu.

Botninn getur komið hvenær sem er Kolbeinn fann botninn í leiguíbúð þegar hann áttaði sig á að ef hann héldi áfram að drekka myndi hann aldrei komast lengra í lífinu.

Mynd: Sigtryggur Ari

Þetta var 8. febrúar 2014. Edrúdagur Kolbeins er 4. mars, daginn sem hann fór inn á Vog. „Þessi dagur skiptir mig miklu máli því hann er undirstaðan að öllu mínu lífi í dag, að ég gafst upp. Og finna sáttina sem fylgir því að gefast upp og viðurkenna að ég ráði ekki við þetta. Þú spurðir mig fyrst hvort ég væri glaður að vakna á morgnana, áður vaknaði ég og hugsaði hvernig ég ætti að þrauka og ljúga mig í gegnum daginn, lífið gekk alveg en ég gat ekki horfst í augu við sjálfan mig í speglinum. Breytingin frá því, að vakna glaður og spenntur og hugsa hvað ég ætti að takast á við í dag, þetta er svo ofboðslega stór breyting, að takast á við lífið með auðmýkt og þakklæti.“

Fær að endurgreiða skuldirnar

Kolbeinn sendi inn beiðni um gjaldþrot árið 2016. Um var að ræða skuldir, þá helst dráttarvexti, sem hann skuldaði Tollstjóra. „Ég var að vinna sem verktaki og borgaði ekki skatta, ég skilaði ekki einu sinni inn skattframtölum. Þannig að það er áætlað á mig, upphæð sem óx bara því ég gerði ekkert í því. Ég lifði bara frá degi til dags og sinnti aðeins þeim fjárhagsskyldum sem nauðsynlegar voru til að forða því að ég myndi lenda á götunni. Annars tók ég enga ábyrgð á því sem ég gerði.“

Skuldirnar hlóðust upp jafnt og þétt á meðan Kolbeinn drakk. „Sem dæmi um raunveruleikabrenglunina þá ákvað ég stundum að ég myndi nú taka á þessu og fara á sjóinn. Fertugur maður sem hefur ekki farið á sjóinn í fimmtán ár. Þetta varð svo mikil hít og með áætlunum þá segir Tollstjóri að ég skuldi tugi milljóna. Það var alveg ljóst að mér myndi ekki endast ævin til að borga þetta en ég ætlaði út á sjó og græja þetta.“

Þegar hann fór í meðferð 2014 ákvað hann að taka til í sínu lífi. „Ég fór í uppgjör við fólk sem ég hafði komið illa fram við, gerði upp það sem ég hafði gert öðrum og reyndi að bæta fyrir, þá voru fjármálin eitthvað sem ég þurfti að laga. Ég fékk endurskoðanda með mér til að skila inn öllum framtölum, þá lækkaði upphæðin um helming en var samt svo há að ég gat ekki ráðið við hana. Þau hjá Tollinum sögðu mér að það væri best að fara bara í gjaldþrot. Mér hafði verið ráðlagt það áður en mér fannst það eitthvað svo smánarlegt.

Ég bað um gjaldþrot og í því ferli opnaðist þessi leið, að gera nauðasamning. Það er ýmislegt í því ferli sem væri hollt fyrir okkur þingmenn að skoða. Ég fer þá leið, borga ekki af mínum skuldum á meðan en þessi leið kostar mig meiri peninga. En fyrir vikið fæ ég að endurgreiða skuldirnar sem ég stofnaði til og vel rúmlega það, því stærsti hlutinn er vaxtakostnaður.“

Næsta haust klárar Kolbeinn að greiða síðustu greiðsluna, alla upprunalegu skuldina og hluta af dráttarvöxtunum, þá verður hann skuldlaus við skattinn. „Sigurtilfinning, léttir, en umfram allt þakklæti. Ég er að borga upphæðir sem ég hefði aldrei trúað að ég myndi láta frá mér, en mér líður alveg óendanlega vel með að skilja við peningana. Því ég er að fá færi á að taka ábyrgð á því sem ég gerði áður. Sumir halda örugglega að ég sé bara að ljúga, en þetta alveg raunverulegt þakklæti. Ég er heppinn, það eru ekkert allir sem geta borgað skuldirnar sínar. Ég verð mörg ár að borga af fjármögnuninni til að gera upp við Tollinn, en það er í góðu lagi. Ég fæ þá að standa skil á mínu.“

Þú ert Proppé, varstu í hljómsveit?

„Ég var ekki í HAM en ég var alltaf í hljómsveitum. Pabbi er einn músíkalskasti maður sem ég hef á ævinni hitt, hann gat tekið upp hvaða hljóðfæri sem er og spilað rosalega vel á það eftir smástund. Ég hef erft þennan hæfileika að því marki að ég get spilað á hvaða hljóðfæri sem er… en afar illa. Ég entist aldrei í neinu tónlistarnámi.“

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=4loUtSiuQuQ&w=560&h=315]

Lengst af var Kolbeinn í hljómsveitinni Synir Raspútíns sem varð til í Menntaskólanum í Kópavogi og varð til í tengslum við Söngkeppni framhaldsskólanna. „Við spiluðum síðast á afmæli Hins hússins, 2011 í Austurbæ. Við gáfum aldrei út plötu en nokkur lög fóru í útvarpsspilun. Hittarinn okkar, Fjötrar, er til í nokkrum útgáfum á YouTube, við fórum með það í Söngkeppnina á sínum tíma. Við gerðum mjög metnaðarfullt myndband við lagið sem ég hvet fólk til að skoða.“

Hélt að hann þekkti starf þingmannsins

Kolbeinn var lengi þingfréttaritari og segir það hafa verið sérstakt fyrst að vera sjálfur orðinn fréttamatur. „Ég reyndi að skrifa fréttir þar sem skyggnst var á bak við tjöldin en ekki bara átakapunktana. Ég veit ekki hvort ég geti kallað það hroka en ég hélt að ég þekkti starf þingmannsins eftir að hafa starfað sem þingfréttaritari og líka eftir að hafa fylgst með pólitík síðan ég var púki. Svo kemur maður hingað inn og upplifir að það er mikið sem þú veist ekki. Það var margt sem var allt, allt öðruvísi en ég hélt.“

Þá sérstaklega vinnan utan þingfundar. „Stór hluti vinnunnar fer fram fjarri sjónvarpsmyndavélum, þá sérstaklega nefndarstörf. Þar er fólk minna að reyna að koma höggi hvert á annað og komast í fyrirsagnir, fólk er bara að vinna að framgangi mála. Ég hafði óljósa hugmynd um þetta en umfangið og fagmennskan kom mér á óvart. Það kom mér líka á óvart hvað það er sótt í að tala við þingmenn, innhólfið fyllist af alls kyns boðum og sendingum, allt frá boði á Iðnþing yfir í mjög persónulegar sögur einstaklinga sem eru í erfiðum aðstæðum og baráttu við kerfið. Ef maður ætlaði að sinna þessu mjög vel þá færi stór hluti starfsins bara í þetta. Það segir mér eitt, það er mikil þörf fyrir að gera margt í samfélaginu.“

Kolbeinn segir erfitt að eiga í rökræðum, umræðan sé iðulega á efsta stiginu.

Kallaður landráðamaður Kolbeinn segir erfitt að eiga í rökræðum, umræðan sé iðulega á efsta stiginu.

Mynd: Sigtryggur Ari

Allt séð í neikvæðu ljósi

Gagnrýnin sem þingmenn fá á sig kom Kolbeini einnig nokkuð á óvart. Sem blaðamaður gagnrýndi hann þingmenn í skoðanapistlum og var sjálfur uppnefndur „Baugspenni“ þegar hann starfaði fyrir 365 miðla, þrátt fyrir að hafa meðal annars lent í ritdeilu við Jón Ásgeir Jóhannesson. Hann segir að gagnrýnin sem hann hafi fengið á sig þá hafi verið léttvæg samanborið við gagnrýnina sem þingmenn fá. „Við erum á þeim stað að það er rosalega erfitt að eiga í rökræðum, ég hef miklar áhyggjur af því. Fólk er mjög stóryrt, fólk skellir fram alls kyns fullyrðingum og fyrir suma er alveg sama hvað þú gerir, það er alltaf séð í neikvæðu ljósi. Eins og núna, ég upplifi það að hjá mörgum er alveg sama hvað ég segi eða geri, það er alltaf séð í ljósi þess að ég studdi þetta ríkisstjórnarsamstarf. Þetta kom mér á óvart, líka í fyrra þegar ég var í stjórnarandstöðu. Það er ekki auðvelt að eiga rólegar og yfirvegaðar umræður um mál, við erum í efsta stiginu.“

Kolbeinn hallar sér aftur í sætinu og áttar sig á að það sem hann var að ljúka við að segja verði einnig gagnrýnt. „Nú mun einhver segja að ég sé að kalla eftir minni gagnrýni og meiri ritskoðun. Alls ekki. Ég held bara að við sem samfélag komumst á betri stað ef við tölum betur saman og í því felst fyrst og fremst að við hlustum og virðum rök hvers annars. Það er alveg hægt að vera ósammála fólki en virða það á sama tíma.“

Þetta varð til þess að Kolbeinn eyddi samskiptaforritinu Facebook úr símanum sínum. „Það koma dagar þar sem ég segi börnunum mínum að fara ekki inn á Facebook. Þá er búið að tagga mig tuttugu sinnum þegar ég vakna og segja að ég sé þjóðníðingur, svikari, landráðamaður og ég veit ekki hvað og hvað. Og öll tækifæri nýtt. Ég birti mynd af látnum föður mínum til að minnast hans, þar undir kemur svo athugasemd hvað ég sé mikill svikari eins og allir Proppéar. Það er ekkert virt. Auðvitað er þetta öfgafullt dæmi og á ekki við um alla, en þetta er svo lýsandi fyrir umræðuna.“

Kolbeinn er því kominn með þykkan skráp. „Það er alveg nauðsynlegt til að lifa af í þessu starfi og bogna hreinlega ekki. Það getur verið hættulegt að vera með þykkan skráp, því ef þú færð svo þykkan skráp, sem er nauðsynlegur til að koma þér í gegnum daginn, þá er hættan sú að þú verðir ónæmur fyrir gagnrýni. Það er hættulegt því þú þarft sem þingmaður alltaf að hlusta á gagnrýni. Gagnrýni sem sett er fram á málefnalegan hátt getur og hefur fengið mig til að hugsa og skoða mál upp á nýtt. Ef sama gagnrýni er lögð fram með tali um landráð, þjóðníði og svikum, þá verður maður ónæmur fyrir henni. Hins vegar þarf maður að sitja nógu sáttur í sjálfum sér og sinni pólitík til að sveiflast ekki dag frá degi eftir fjölda „læka“ á Facebook. Þetta er jafnvægislist.“

Þess vegna forðast hann að nota stóryrði. „Ég gagnrýndi síðustu ríkisstjórn mjög mikið og spurði oft hvar kosningaloforðin væru, eflaust hef ég talað um svik við kjósendur. Það á ekki að skipta máli hvort maður sé í stjórn eða stjórnarandstöðu, ég get ekki ákveðið hvað aðrir segja, en ég reyni alltaf að tala af ábyrgð og á yfirvegaðan hátt.“

Nú þegar þú ert kominn alveg inn í starf þingmannsins, hefur sýn þín á fjölmiðla breyst?

„Nei, ég get ekki sagt það. Ég vildi óska þess að fjölmiðlar væru það stöndugir og starfsumhverfið það öruggt að það væru sex til tíu fjölmiðlamenn í húsinu að fylgjast með allan daginn. Ég fylgdist með þinginu á skrifstofu og skrifaði, en færði mig svo niður í þinghús. Það er allt allt annað að sitja hér inni í þessu húsi, finna stemmninguna, hitta fólk á göngunum. Ég átta mig á því að staða fjölmiðla er mjög slæm en ég óska þess að þeir geti sýnt okkur allt það aðhald sem við þurfum.“

Með barnalega sýn

Þú hefur lítið sést í fjölmiðlum að undanförnu og bloggsíðan þín hefur ekki hreyfst síðan í nóvember, léstu þig hverfa eftir kosningar?

„Ég gerði það, ég hvarf. Ég ætla að vera alveg heiðarlegur með það, umfang umræðunnar, þótt ég sé með þykkan skráp, hefur valdið því að ég hef minni þörf fyrir að tjá mig. Ég hugsa alltaf, þetta er eitthvað sem ég þarf að vinna í, ef ég set eitthvað út þá mun ég fá yfir mig gusu um að ég sé landráðamaður og svikari. Það hefur haft áhrif á mig, það kom flóðbylgja og ég hörfaði. Nú er ég búinn að fóta mig aftur og þarf að byrja að tjá mig á ný, því nóg hef ég af skoðunum.“

„Ég ætlaði ekki endilega að segja frá því, en ég reyni að vera heiðarlegur og fyrst þú spyrð svona beint þá verður myndin ekki full nema ég minnist á heilsuna. Ég hef verið að kljást við slappleika um hríð og verið í alls kyns rannsóknum, allt frá ristli til heila með viðkomu í maga og hjarta. Það hefur enn ekkert komið út úr því og ég er því enn að kljást við þetta, þróttleysi, svima og yfirliðstilfinningu, en tók þó ákvörðun um að dvelja ekki í þessu heldur halda bara áfram.“

Það sést á sumum þingmönnum að þeir brenna fyrir einhverju tilteknu málefni og vilja þeir gjarnan ólmir koma þeim tilteknu skoðunum á framfæri, slíkt er ekki að finna þegar rætt er við Kolbein.

Þú ert í Vinstri grænum, þingmaður Reykjavíkur, þú styður ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, hverjar eru þínar pólitísku skoðanir?

„Það var mjög barnaleg sýn sem varð til þess að ég ákvað að gefa kost á mér í stjórnmálum. Ég hef alltaf verið pólitískur, 15 ára var ég orðinn formaður æskulýðsfélags Alþýðubandalagsins í Kópavogi, svo eftir að ég villtist af braut þá minnkaði áhugi minn á samfélaginu. Nema þá til að gera grín að því á kaldhæðinn hátt. Kaldhæðni, drykkfelldi blaðamaðurinn, það var ég. Eftir að ég hóf nýtt líf vaknaði spurningin um hvort ég gæti gert samfélagið betra. Það er þessi barnalega sýn sem dregur mig áfram í pólitík.“

Kolbeinn segir að hann eigi heima í Vinstri grænum. „Fjórar grunnstoðir flokksins eru fjórar grunnstoðir stjórnmálaskoðana minna, það eru umhverfis- og loftslagsmálin, sósíalisminn, það að við búum í jöfnu samfélagi. Femínisminn, það að það skipti ekki máli hvort þú sért með typpi eða ekki. Svo er það friðarhyggjan, þar hef ég einnig þessa barnalegu sýn að utanríkisstefna Íslands eigi að miða að því að við séum góð við hvert annað frekar en að vera kasta sprengjum í hausinn hvert á öðru.“

Það er hins vegar hægara sagt en gert að taka almenna pólitíska sýn og beita henni í daglegum þingstörfum. „Mánudögum er það stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, svo þingfundur. Daginn eftir er það atvinnuveganefnd, það eru kannski fjögur, fimm mál á hverjum fundi sem þarf að takast á við. Og svo aftur á miðvikudegi og fimmtudegi.“

Þrjár gullnar reglur

Kolbeinn hefur áhuga á öllu en nefndirnar sem hann á sæti í stýra því hvaða mál hann fæst helst við. „Það er forgangsmál að berjast gegn fátækt hér á landi. Það er fráleitt að við séum hérna með samfélag þar sem fólk lifir ekki mannsæmandi lífi. Þetta nær til launastrúktúrs, þetta nær til örorkubóta, lífeyriskerfisins. Ég hef enga töfralausn en mig langar til þess að vinna að því að laga þetta. En þar sem ég er ekki í velferðarnefnd þá er ég að vinna að öðrum mikilvægum málum, sem eru þó ekki jafn brýn og bág staða öryrkja.“

Kolbeinn hefur þrjár gullnar reglur í stjórnmálum. „Fyrsta reglan er að ég viðurkenni að ég er ekki með neina töfralausn, ég er ekkert séní, ég sit ekki heima og hugsa og kem svo og segi hvernig hlutirnir eiga að vera. Ég tek þátt í vinnunni, hlusta og legg mitt af mörkum. Önnur reglan er að ég þykist aldrei vita eitthvað sem ég veit ekki, þegar ég kem að nýjum málum þá reyni ég að forðast mínar fyrirfram mótaðu hugmyndir. Þriðja gullna reglan er að tala aldrei fyrir munn þjóðarinnar, stjórnmálamenn sem segja hvað þjóðinni finnst eru að gera full mikið úr sjálfum sér – að halda að maður sé það mikill snillingur að maður geti talað fyrir munn þjóðarinnar.“

Kolbeinn segist ekki skilja suma kollega sína sem kvarta undan ágangi fjölmiðla, það sé þannig sem samfélagið virki.

Heilsar öllum Kolbeinn segist ekki skilja suma kollega sína sem kvarta undan ágangi fjölmiðla, það sé þannig sem samfélagið virki.

Mynd: Ari Brynjólfsson

Ótrúleg gjöf að geta verið til staðar

Kolbeinn röltir um ganga Alþingishússins og sér þar þingmann Pírata sem horfir á símann sinn. „Daginn!“ kallar Kolbeinn glaður og fær á móti bros og vink.

Þú heilsar alveg Pírötum?

„Ég heilsa öllum. Það gera það reyndar flestir. Aðhald stjórnarandstöðu er nauðsynlegt, sama með aðhald fjölmiðla. Ég skil stundum ekki kollega mína sem kvarta undan ágangi fjölmiðla, samfélagið á að virka þannig. Sama með stjórnkerfið, ég upplifi það stundum að það eigi ekki að veita upplýsingar nema það nauðsynlega þurfi. Það á einmitt að vera öfugt, það á að afhenda allt nema það sé einhver góð ástæða fyrir því að það eigi ekki að gera það. Það á að vera undantekningin. Þess vegna er ponta Alþingis er svo sterk birtingarmynd kerfisins, þar er fólk að tala,“ segir Kolbeinn.

Í dag er Kolbeinn búinn að vera edrú í fjögur ár, hann er búinn að ná jafnvægi í lífinu, er að klára að borga skuldir sínar og vinnur að því að styrkja samband við fjölskyldu og vini. „Maður uppgötvar það þegar maður tekur til í lífi sínu eftir meðferð hvað fólkið þitt hefur haft miklar áhyggjur af þér. Að upplifa það núna að börnin sækja í að vera hjá mér, sambandið við mömmu, nána vini, þetta er allt annað. Það er ótrúleg gjöf að geta verið til staðar, gefið af sér og ekki vera uppspretta áhyggja.“

Ertu trúaður maður?

„Nei, ég var eitt sinn mjög ótrúaður maður en ég hætti því. Ég þurfti virkilega að takast á við þetta, ég reiði mig á æðri mátt og fann á mér að ég þyrfti að sleppa tökunum,“ segir Kolbeinn og dregur djúpt andann. „Ég er ekki æðsta veran í alheiminum, það er eitthvað gott í alheiminum eða bara innra með okkur. Það getur verið samtakamáttur okkar þegar eitthvað bjátar á. Ég þarf ekki að skilgreina það. Ef þú kryfur froskinn þá drepst hann. Ég þurfti alltaf að skilja allt, en ég hvorki get né vil skilja æðri mátt.“

Kolbeinn segir það að ganga inn á Vog fyrir rúmum fjórum árum og taka til í sínu lífi sé ekki hægt að líkja við lífsstílsbreytingu, lífið sem hann lifir í dag er nýtt líf. „Ég er ekki að neita mér um áfengi, ég er ekki fórnarlamb, ég er bara heppinn að þurfa þess ekki. Þetta er auðvitað bara einn dagur í einu, maður er aldrei öruggur, en ég hef bjargfasta trú á því að það að vera edrú er grunnurinn að öllu mínu lífi í dag. Auðvitað er ég oft á bleika skýinu, en það er núna hluti af hversdeginum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 20 klukkutímum

„Ég er skrýtinn gaur með sérstök áhugamál og ástríðu fyrir óvenjulegum hlutum“

„Ég er skrýtinn gaur með sérstök áhugamál og ástríðu fyrir óvenjulegum hlutum“
Fókus
Fyrir 23 klukkutímum

Ragnhildur með ráðin sem virka gegn aukakílóunum

Ragnhildur með ráðin sem virka gegn aukakílóunum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Keyrði hættulegasta veg á Íslandi – Er undir sjávarmáli á kafla

Keyrði hættulegasta veg á Íslandi – Er undir sjávarmáli á kafla
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ef þú færð mörg stig á þessu nostalgíuprófi gæti aldurinn verið farinn að segja til sín

Ef þú færð mörg stig á þessu nostalgíuprófi gæti aldurinn verið farinn að segja til sín