fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fókus

„Við verðum örugglega kallaðir reiðir feður“

Feður sameinast fyrir réttindum barna og umgengni og gegn tálmunum mæðra

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 10. mars 2018 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þrátt fyrir að einn og einn úr þeirra hópi hafi til þessa stigið fram undir nafni og mynd og sagt opinberlega frá tálmunum og ofbeldi af hálfu barnsmóður, hafa þeir feður sem fá ekki umgengni við börn sín haldið sig til hlés og barist vonlausri baráttu, einir við kerfið, til að fá jafna umgengni og forsjá yfir börnum sínum. En nú hafa þeir fengið nóg og nota byrinn sem #metoo-byltingin olli og stíga fram sem hópur undir merki #daddytoo. Markmiðið er að sýna hversu algeng feðrasvipting er á Íslandi með því að safna reynslusögum feðra, bæði þeirra sem berjast enn og þeirra sem gefist hafa upp í baráttunni, og mynda með því fram á þrýsting á breytingar í kerfinu svo börn geti notið jafnra samskipta við báða foreldra.

Blaðamaður DV settist niður með forsvarsmönnum hópsins, Hugin Þór Grétarssyni, Stefáni Páli Pálusyni, Friðgeiri Sveinssyni, Huga Ingibjartssyni og Friðgeiri Erni Gunnarsyni, og fræddist um tilurð hópsins og markmið og heyrði brot af reynslu þeirra.

„Í rauninni er þetta bara framlenging á því sem hefur verið í gangi lengi,“ segir Huginn Þór Grétarsson, en hann bíður eftir bráðabirgðadómsúrskurði um umgengni hans við tveggja ára son sinn. Barnsmóðir hans dvelur í Kvennaathvarfinu með son þeirra og hefur sagt sína sögu í viðtali við Stundina, þar sem hún lýsir ofbeldi af hálfu Hugins Þórs.

„Aðilar hafa reynt hver í sínu horni að berjast gegn lögbrotum og við höfum séð fjölda yfirlýsinga frá feðrum sem hafa jafnvel verið tálmaðir frá börnum sínum í mörg ár. Hér er kominn saman hópur sem ætlar að safna saman sögum af þessum brotum og sýna hvað þetta er rosalega algengt og stórt vandamál. Feðrasvipting á Íslandi er ofbeldismál sem er regla frekar en undantekning, skerðing á umgengni barna við föður eða algjörlega lokað á hana. Í rauninni þarf að vekja athygli samfélagsins á þessu og fara fram á breytingar. Lögin eru þokkaleg, en framkvæmdin eða venjan er sú að regluleg umgengni er jafnvel engin og það er jafnvel tekin forsjá af hæfu foreldri af því foreldrar geta ekki haft samskipti sín á milli. Þá er nóg að annar aðilinn setji upp eitthvert leikrit og forsjá fer sjálfkrafa til hins aðilans.“

„Ég þekki ekki eitt einasta dæmi þess að karlmaður hafi tálmað góða móður, ég held að kerfið taki ekki þátt í slíku.“

Meðvirkni ríkir með kvenkyns brotamanneskjum

Af hverju kemur hópurinn fram núna fyrst?

„Karlmenn hafa reynt að stíga fram en brenna bara yfir, það hefur ekkert verið hlustað. Áður en ég byrja að tala um þetta, þá er búið að safna saman mörgum sögum um misrétti kerfisins og andlegt ofbeldi með því að slíta börn af feðrum sínum. Þetta er miklu algengara en fólk gerir sér grein fyrir, það er meðvirkni með brotamanneskjum ef þær eru kvenkyns, það verður bara að segja það eins og það er,“ segir Huginn Þór. Samfélagið virðist leyfa tálmun þegar tálmunaraðili er kvenkyns, ég þekki ekki eitt einasta dæmi þess að karlmaður hafi tálmað góða móður, ég held að kerfið taki ekki þátt í slíku.

Þegar mál koma fyrir dómstóla, þá verðlauna þeir brotamanneskju nánast í öllum tilvikum, þrátt fyrir að hún hafi níðst á réttindum barns og eyðilagt samband þess við föður, það sýnir að móðirin er óhæf til að tryggja réttindi barnsins, samt er þetta raunveruleikinn sem við horfum á.“

80 prósent feðra eru sjálfkrafa umgengnisforeldri

„Samtökin Foreldrajafnrétti og Samtök umgengnisforeldra eru að berjast fyrir sömu málefnum í víðara samhengi,“ segir Stefán Páll Páluson. „Hérna erum við að einbeita okkur að því að feður séu í meirihluta, þannig að af hverju ekki að standa upp fyrir feðrum. Um 80 prósent feðra eru umgengnisforeldri sjálfkrafa. Samkvæmt lögum á barn að njóta samveru með báðum foreldrum og ætti því jöfn umgengni að vera bara sjálfkrafa í kerfinu. Lög um skipta búsetu hafa verið föst í innanríkisráðuneytinu síðan árið 2011, þau eru tilbúin til að leggja fram. Réttur er beggja foreldra og ef farið er eftir því þá væri búið að leysa 60 prósent mála sem vandamál eru í, en við erum enn að fara eftir hefðum og gildum frá 1920.
Við eigum eftir að fá ákúrur fyrir þetta, við verðum örugglega kallað reiðir feður, það er bara allt í lagi. Konur eru reiðar vegna launabaráttunnar, en gleyma forsjárbaráttunni,“ segir Stefán Páll.

„Það hefur ekki verið í lagi að vera tilfinningavera í svona málum,“ segir Hugi Ingibjartsson: „maður á að láta sig hafa þetta, setjast bara niður og segja já.“

Stefán Páll á tvo unga syni með barnsmóður sinni og hefur hann ekki þurft að berjast fyrir umgengni né forsjá. Þau hafa verið með sameiginlega forsjá frá því að þau skildu og umgengni til jafns hjá báðum foreldrum. Í fyrra var Stefán Páll hins vegar með syni sína í átta mánuði í heildina og það sem af er þessu ári. Núna óskar móðirin eftir að umgangast syni þeirra á ný og snýr gagnrýni og barátta Stefáns Páls að því að umgengnin eigi að falla í fyrra horf, án þess að aðstæður og heimili móður séu kannað. Það hefur aldrei verið gert, hins vegar hefur Barnavernd nokkrum sinnum tekið hans heimili út.

„Barnaverndarnefnd á að horfa á hag barnanna, ekki hag lögheimilisforeldris,“ segir hann. „Mér hefur verið bent á að sækja um forræðið einn, en ég vil það ekki, ég vil að synir mínir umgangist báða foreldra sína.

Við sem foreldrar eigum jafnan rétt, en þegar kemur að börnunum þá er hann aldrei virtur. Það er ekkert sameiginlegt með sameiginlegri forsjá, það er lögheimilisforeldrið sem stjórnar. Ég hef engan rétt í kerfinu, ég fæ ekki tilkynningar frá leikskólanum þegar eitthvað er að. Sem dæmi má nefna að mætt var með annan son minn á sokkabuxunum í leikskólann í fyrra. Hún fær meðlag greitt, barnabætur og umönnunarbætur og hefur fengið það greitt þann tíma sem synirnir hafa verið hjá mér.“

Hann gagnrýnir líka að barnaverndarnefnd hafi ekki mætt á staðinn, þegar komið hafa upp atvik milli hans og barnsmóður hans, til dæmis þegar þau hafa rifist fyrir utan leikskóla barnanna. „Ég fæ það svar þegar ég hringi að ég eigi að meta aðstæður, hvort hún sé hæf til að fara með börnin.“

Mikilvægt að bregðast strax við tálmun

„Ein stór og mikilvæg breyting væri að bregðast strax við tálmun og meta hana þeim til vansa sem henni beitir,“ segir Huginn Þór. Þegar barn er jafn hænt að báðum foreldrum og móðir byrjar að beita tálmun, þá ætti forsjá að færast yfir til föður. Það ætti strax að grípa til þess. Það væri þá strax gefin skýrsla um að móðir sé vanhæf og óhæf til að tryggja réttindi barnsins.“

Hvernig væri það framkvæmt?

„Með því að lögheimili færðist strax til hins aðilans, þá strax verður aðhald og neikvæður hvati fyrir tálmunaraðilann til að haga sér svona. Ég sé fyrir mér aðgerðahóp, sem í er sálfræðingur og mögulega eitthvert framkvæmdavald, sem kemur strax á svæðið við slíka tilkynningu og metur aðstæður, þannig að ef báðir aðilar eru jafnhæfir og tálmun er til staðar og engin ástæða til hennar, þá er manneskjan sem henni beitir metin óhæf og lögheimili þá fært yfir. Ef móðir, því í flestum tilvikum er um að ræða móður, neitar að afhenda barnið, og það er jafn hænt að báðum foreldrum, sýnir það verulega skerta foreldrahæfni. Við skilnað er jafn réttur foreldra tryggður. Rangar sakargiftir verða til vegna reiði og hefndarþorsta og þetta er ofbeldi sem færist beint yfir á börnin,“ segir Huginn Þór.

Rangar sakargiftir eru stórt vandamál

Þeir nefna að annað sem sé stórt vandamál séu rangar sakargiftir í dómsmálum. „Það er mjög algengt að ofbeldi sé logið upp á feður. Í mínu máli hef ég til dæmis margar sannanir, svart á hvítu, um rangar sakargiftir og það á ekki að líðast að fólk komi fram með og komist upp með rangar sakargiftir og erlendis eru dæmi þess að mæður hafi verið sviptar forsjá eingöngu vegna þessa. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að manneskjan er ekki fær um að sjá um réttindi barnsins,“ segir Huginn Þór.

„Í forræðismálum ríkir öfug sönnunarbyrði,“ segir Stefán Páll. „Sem dæmi ef hinn aðilinn segir að ég sé í neyslu þá þarf ég að sanna að ég sé ekki í henni, eða ef hann ber upp á mig að ég hafi beitt hann ofbeldi, þá þarf ég að sanna að það hafi ég ekki gert það, en ekki aðilinn sem ber það upp á mig,“ segir Stefán Páll.

„Það sóðalegasta sem er gert gagnvart karlmönnum er að ásaka þá um að hafa áreitt börnin kynferðislega og þetta gera mæður án viðurlaga,“ segir Hugi. „Danska heimildamyndin Farvel far fjallar um rangar sakargiftir og þar kemur fram að Danir hafa rannsakað slík mál, sem hefur fjölgað úr 50 upp í 70 prósent,“ segir Hugi: „einstaklingar eru markvisst að beita röngum sakargiftum.

Kerfið er vanhæft til að taka á brotum, um leið og upp koma mál þar sem kerfið er að gera mistök, þá byrjar kerfið að verja sig. Um leið og faðir fer fram á eitthvað þá fer kerfið að verja sig. Það er augljóst brot í mínu máli, en það vill enginn skoða það. Þeir viðurkenna ekki mistök og það er enginn vilji til að fara til baka og leiðrétta það.“

Dóttirin sett í fóstur án samþykkis

Hugi Ingibjartsson leitast við að fá umgengni við dóttur sína og forræði ef til þess kemur að hann verði alveg sviptur umgengni. Bæði hann og barnsmóðir hans hafa sagt sögu sína í viðtölum við Stundina. Barnsmóðirin varð ófrísk eftir stutt kynni og ákvað að eiga barnið. Dóttirin var fyrirburi og grét stöðugt og var erfið. Þau fengu enga aðstoð og gafst meðal annars dagmóðir upp eftir þrjá daga. Hugi tók sér frí frá vinnu og var til staðar fyrir mæðgurnar, en eftir tíu mánuði gafst móðirin upp og ákvað að gefa barnið frá sér til fólks sem hún þekkti til. Hugi fékk litlu um það ráðið að eigin sögn og voru gefnir þeir valkostir að taka barnið alfarið eða setja það í fóstur, hann ákvað að skrifa undir samþykki, en taldi sig ekki hafa gefið frá sér umgengni við dóttur sína.

Gagnrýnir hann vinnubrögð barnaverndarnefndar og telur að það vanti alla aðstoð við foreldra sem eiga í tímabundnum erfiðleikum. Dóttir hans var sett í fóstur án nokkurrar aðlögunar og telur hann hana glíma við aðlögunarkvíða í dag og segir hana gráta stöðugt þegar hún er tekin frá honum eftir umgengni.

„Mér er bönnuð öll sönnunarbyrði. Í mínu máli þá eru Barnavernd og fósturforeldrar að vinna saman, með sama lögfræðing. Kona frá Barnavernd kemur þegar mér er afhent barnið af því ég gæti nú verið hættulegur og þau eru með vitni ef eitthvað skyldi gerast. Ég má ekki taka upp á myndband afhendingu eða neitt, mér er bannað það.“ Eigi að síður skrifaði Hugi nýlega stöðufærslu á Facebook, þar sem hann gagnrýndi vinnubrögð Barnaverndarnefndar og deildi myndböndum frá því þegar dóttir hans fór frá honum eftir umgengni, umgengni sem í dag er tvær klukkustundir í senn á þriggja mánaða fresti.

„Vilji dóttur minnar er fullkomlega hundsaður, sem er auðsjáanlegur þeim sem vilja sjá það á annað borð – að hún vill vera hjá mér, en ekki fara yfir til þeirra,“ segir Hugi, sem sjálfur var settur í fóstur hálfs árs gamall. Hann hitti föður sinn fyrst þegar hann var 25 ára. Hugi á níu hálfsystkini, en ólst upp einn hjá fósturforeldrum. Hann þekkir því vel sjálfur hvernig er að vera fósturbarn og finnst hann hafa misst af miklu við að eiga engin tengsl við fjölskyldu sína á uppvaxtarárunum.

Varð allt í einu ofbeldismaður þegar hún kom aftur til Íslands

„Það var engu ofbeldi logið upp á mig í Finnlandi fyrir dómstólum þar eða sýslumanni,“ segir Huginn Þór aðspurður um hans mál og ásakanir um ofbeldi sem barnsmóðir hans hefur borið á hann. „Svo kemur hún hingað til lands og fær nýjan lögfræðing hjá Kvennaathvarfinu og allt í einu er ég orðinn ofbeldismaður á öllum sviðum, það er líkamlegt, andlegt og kynferðisofbeldi og samt neitar hún því hjá lækni. Hún er líka margsaga.“

Huginn Þór og barnsmóðir hans voru saman frá 2014 til byrjun árs 2017. „Hún byrjar að eiga mjög erfitt andlega og fer að hata dóttur mína, stjúpdóttur sína. Síðan fer hún að hóta mér, sambandið fer að ganga illa og hún fer með son okkar til Finnlands og þá liggja fyrir fyrstu skriflegu hótanirnar frá henni um að hún ætli ekki að koma til baka með son okkar. Þarna erum við ennþá saman. Hún á flugmiða heim en kemur ekki. Og hún er búin að viðurkenna þessi brot. Á þessum tíma segir hún að ég muni aldrei sjá barnið aftur nema ég skrifi undir einhliða skilmála hennar. Þetta eru þvinganir og níðingsgangur og hún er dæmd fyrir að halda barninu, meðan þetta gekk á erum við samt að virða jafna umgengni, ekkert vesen og engar tilkynningar.

Eftir dóminn verður hún reið og segir að hún muni gera hvað sem er til að taka af mér forsjána. Þegar hún kemur hingað heim segir hún á samfélagsmiðlum að hún hafi þurft að flýja í Kvennaathvarfið vegna mín. Hún kemur upp um sig í öðrum gögnum, þar sem kemur fram að hún var búin að ákveða að fara í Kvennaathvarfið áður en hún kom heim. Ásakanir hennar tengjast allar árinu 2015 og ég á skrifleg gögn um að hún viðurkenni þá að hún sé veik og sé að hóta mér.

Allt í einu þegar hún kemur til Íslands er ég orðinn ofbeldismaður og ég sé ekki son minn í þrjár vikur og veit ekki hvar hann er. Hún kemur til Íslands og heldur brotunum áfram. Ég er neyddur til að skrifa undir samning um umgengni þar sem ég má hitta hann þrjá daga í viku og hluta úr degi.

Síðan byrjar hún að bera upp á mig ofbeldi á samfélagsmiðlum og víðar. Á sama tíma og hún er að fá vitnisburð gegn mér frá fólki sem ég þekki ekkert, fer hún og kærir mig fyrir kynferðisbrot gegn sér. Það eru til gögn um það, fyrir og eftir þessi brot, þar sem hún segist ætla að nauðga mér. Hún er búin að skrifa bók og annar hver kafli fjallar um konur sem nauðga litlum börnum eða mönnum. Manneskja með slíka hugmyndafræði er bara ekki heil.

Nú er hún búin að birta á Facebook hvernig eigi að þekkja og forðast ofbeldismenn. Og „when daddy hurts mommy.“ Ég hef aldrei snert hár á höfði hennar. Þetta er bara kómískur fáránleiki,“ segir Huginn Þór.

„Hún er búin að drepa mannorð mitt“

„Hún heldur syni mínum frá lögheimili hans, ég er með lögheimilið og get ekkert gert þar sem sýslumaður braut lög. Ég sé hann af og til, aðra hverja viku er hann veikur, en aðra hverja viku kemur hún með hann til að sýna smá lit fyrir dómsmálið. Hún er samt að rjúfa samband okkar. Það er verið að rífa hann frá mér og systur hans.

Sýslumaður er að bjóða upp á þessi brot, með því að sleppa sáttameðferð og úrskurði um umgengni þá kemst hún upp með að halda barninu frá mér. Þeir gefa engin svör, nema að hún vilji ekki taka þátt í sáttameðferð, en það stendur í lögum að foreldrar geti ekki sleppt sáttameðferð,“ segir Huginn Þór. „Hún er búin að drepa mannorð mitt með þessum yfirlýsingum og ég mun leggja fram kæru með sönnunargögnum um að hún fari með rangt mál.“

Huginn Þór skilur ekki að barnsmóðir hans geti komið dæmd hingað til lands og haldið lögbrotunum áfram. „Það er fordómalaust og hefur ekki gerst áður að einstaklingur sem hefur haldið barni ólöglega erlendis, að viðkomandi fái að fara aftur með það. Það er fráleitt að hún fái dóm og geti áfram haldið barninu frá mér. Kerfið er að klikka, sýslumaður með lögbrotum sínum og dómari með að vísa málinu ekki frá, meðvirknin er á öllum stigum. Eftir viku verður kveðinn upp bráðabirgðaúrskurður um umgengni og það verður réttarskandall ef dómsúrskurður fellur henni í hag.“

„Við sem feður megum ekki sýna tilfinningar“

„Við erum reiðir feður, en Ísland verður að segja: „Fjölskyldan er smæsta eining samfélagsins og það verður að hlúa að henni,“ segir Friðgeir Örn Gunnarsson, sem situr í stjórn Foreldrajafnréttis. Hann á tvær dætur með tveimur konum og hefur barist fyrir umgengni við þær báðar, án árangurs hingað til.

„Ef við verðum reiðir þá er það áttunda höfuðsyndin,“ segir nafni hans, Friðgeir Sveinsson, en saga hans hefur verið nokkuð áberandi í fjölmiðlum síðustu ár. Hann á dóttur, sem nú er orðin tíu ára og hann hefur ekki séð í átta ár. „Pabbar mega ekki verða reiðir, við megum ekki sýna tilfinningar. Ef þú ert reiður eða hefur skoðanir eða ert ósáttur við að mega ekki hitta barnið þitt, þá er það óeðlileg tilfinning.“

Þeir segja kerfið ekki ráða við þennan mikla fjölda mála og líftíma starfsmanna í barnaverndarnefndum vera stuttan, starfsfólk þar einfaldlega brenni út undan álagi. „Heimir Hilmarsson, sem situr í stjórn Foreldrajafnréttis og er jafnframt starfsmaður Barnaverndar, segir þann líftíma vera um þrjú ár,“ segir Friðgeir Örn.

„Fyrir nokkrum árum fóru starfsmenn sýslumanns í verkfall sem þýddi að verkefni hlóðust upp og það var leyfð aukafjárveiting til að „spóla“ ofan af samningum sem töfðust í þinglýsingu,“ segir Friðgeir. „Hins vegar var ekki sett króna í sifjadeildina, sem var þegar með allt eftir á.“

„Ég upplifði missi sem ég hefði ekki getað ímyndað mér“

„Ég missti mitt fyrsta barn,“ segir Friðgeir Örn, en fyrsta barn hans var fætt andvana: „og tel ég það grundvöll þess að tálmun byrjar, þar sem móðirin var illa stödd í kjölfarið. Ég upplifði missi sem ég hefði ekki getað ímyndað mér, þarna voru ólýsanleg andleg tengsl, þetta kom svo aftan að mér. Þetta var mitt fyrsta barn, ég var ekki farinn að átta mig á að þetta væri raunveruleiki.“ Friðgeir Örn og barnsmóðir hans eignuðust síðan annað barn saman, en hann segir að svo virðist sem einlægur brotavilji hafi verið af hennar hálfu þegar tálmun hófst.

„Af hverju er Barnavernd að eyða tekjum sínum í launagreiðslur til fósturforeldra þegar heilbrigðara væri að hlúa að fólki sem þarf á aðstoð að halda?“ spyrja þeir. „Eina sem við þurftum var aðstoð; fjölskyldu sem gæti tekið dóttur okkar helgi og helgi,“ segir Hugi.

„Ég sem skattborgari sé alveg fyrir mér að ung kona, sem er einstæð með barn og missir fótanna, fái 300 þúsund króna greiðslu úr ríkissjóði til að koma undir sig fótunum aftur, mennta sig og verða þegn. Það á ekki að taka af henni barnið,“ segir Friðgeir.

„Það á ekki að vera hægt að rjúfa tengsl barns við föður, á engum forsendum,“ segir Huginn Þór. „Ef þú elskar einhvern nógu mikið þá sleppirðu honum,“ segir Friðgeir Örn: „við feðgar höfum verið beðnir um að yfirgefa barn til að vernda það.“

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna

  1. gr.
  2. Aðildarríki skulu tryggja að barn sé ekki skilið frá foreldrum sínum gegn vilja þeirra, nema þegar lögbær stjórnvöld ákveða samkvæmt viðeigandi lögum og reglum um málsmeðferð að aðskilnaður sé nauðsynlegur með tilliti til hagsmuna barnsins enda sé sú ákvörðun háð endurskoðun dómstóla. Slík ákvörðun kann að vera nauðsynleg í ákveðnum tilvikum, svo sem ef barn sætir misnotkun eða er vanrækt af foreldrum sínum, eða þegar foreldrar búa ekki saman og ákveða verður hver skuli vera dvalarstaður þess.
  3. Við alla málsmeðferð samkvæmt 1. tölul. þessarar greinar skal veita öllum aðilum sem hagsmuna hafa að gæta kost á að taka þátt í málsmeðferð og að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum.
  4. Aðildarríki skulu virða rétt barns sem skilið hefur verið frá foreldri eða foreldrum sínum til að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við þau bæði með reglubundnum hætti, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess.

Löngu kominn tími á úrbætur

„Þessi endalausu dæmi allt í kringum mann sýna manni að það er löngu kominn tími til að laga þessi mál, það eru lítil börn sem gjalda fyrir þetta. Þetta er ofbeldi sem varir í lengri tíma, í ár og áratugi, og snertir alla, börn, foreldra, afa og ömmur, og það verður að taka á þessu. Það verður að leggja mikla áherslu á að gripið sé strax inn í,“ segir Huginn Þór.

„Það væri strax til bóta ef stjórnsýslan tæki sér jafn mikinn tíma í að vinna eftir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, eins og þeir taka sér í að hundsa hann, þá strax yrði hér allt frábært,“ segir Friðgeir.

„Við erum að beina athygli að stærsta vandamálinu, sem er hvernig feður eru útilokaðir. En við hvetjum alla sem vilja tryggja réttindi barna til beggja foreldra til að slást með okkur í hópinn í #daddytoo,“ segir Huginn Þór.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Christina Aguilera fækkaði fötum fyrir 44 ára afmælið

Christina Aguilera fækkaði fötum fyrir 44 ára afmælið
Fókus
Fyrir 3 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólaflug Play sló í gegn – „Þetta var mikil vinna en allt þess virði“

Jólaflug Play sló í gegn – „Þetta var mikil vinna en allt þess virði“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Bogi kaupir á Brúnastöðum

Bogi kaupir á Brúnastöðum