fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fókus

Inga ætlaði í 10 daga til Kýpur: Rekur nú elsta og þekktasta grænmetisstað á Kýpur

Féll fyrir ungum Kýpverja – „Mömmu leist ekkert á þetta í byrjun“ – Íslendingur inn að beini

Kristján Guðjónsson
Miðvikudaginn 28. febrúar 2018 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tuttugu ára gömul fer Inga Karlsdóttir, ung stelpa úr Njarðvík, í stutt frí til Kýpur. Meira en 30 árum síðar er hún ennþá búsett á Miðjarðarhafseyjunni, er gift með fjögur fullorðin börn, og rekur elsta og þekktasta grænmetisveitingastað eyjarinnar: Inga’s Veggie Heaven. Kristján Guðjónsson heimsótti veitingastaðinn, bragðaði á himneskum grænmetismatnum og forvitnaðist um sögu Ingu.


Það heimsækja ekki sérstaklega margir ferðamenn til Níkósíu, höfuðborg Kýpur. Hún er staðsett inni í miðju landi – langt frá hvítu ströndunum sem ferðamenn sækja helst í þegar þeir mæta á Miðjarðarhafseyjuna. Gamli miðbærinn er innan fornra borgarmúra og í gegnum hann liggja landamæri ríkjanna tveggja sem deila eyjunni: Lýðveldisins Kýpur – þar sem grískumælandi Kýpverjar eru í meirihluta – og Norður-Kýpur – ríkis sem er aðeins viðurkennt af Tyrklandi. Ef maður að ætlar að rölta um bæinn er betra að hafa vegabréfið með til að sýna landamæravörðunum.

Í litlu hvítu steinhúsi með bláum gluggum, við fáfarna götu í rólegu nýuppgerðu hverfi í gríska hlutanum – þónokkurn spöl frá helstu verslunargötum og lífæðum borgarinnar – er veitingastaðurinn Inga’s Veggie Heaven. Staðurinn er hluti af húsaþyrpingu þar sem lista- og handverksfólk er með vinnustofur og sölurými: leirmunir, skartgripir og ýmislegt fleira er í boði.

Bak við afgreiðsluborðið standa tvær ungar dökkhærðar konur, Kristjana og Elísa, en í eldhúsinu, með svuntu og hárnet, er móðir þeirra Inga Karlsdóttir, sólbrún með stutt grátt hár og stórt bros, hlýleg og hláturmild – þegar hún kemst að því að Íslendingar séu mættir á staðinn hennar hlær hún og faðmar þá innilega.

Mynd: TripAdvisor

Hermaðurinn á diskótekinu

Við setjumst út á pall í sólina með kaffi og eplaköku og ég fæ Ingu til að segja sína sögu – hvernig kom það til að þessi Suðurnesjastelpa opnaði grænmetisstað á Kýpur.

Hún byrjar á að segja mér að hún sé fædd árið 1959 og alin upp í Njarðvík hjá einstæðri móður með fjögur börn, en faðir hennar féll ungur frá. Að lokinni grunnskólagöngu byrjaði hún að vinna fyrir sér. „Það var aldrei nein neyð á heimilinu en mamma þurfti alltaf að vinna afskaplega mikið til að eiga í okkur og á. Kannski þess vegna var maður ekkert að hugsa um að fara í nám – maður vildi bara byrja að vinna til að eignast einhvern pening,“ segir hún.

Rétt um tvítugt dró ævintýraþráin hana til Svíþjóðar. Hún vildi sjá heiminn og sá sér leik á borði og fékk vinnu í bílaverksmiðju Volvo. Það var þar, við færibandið, sem hún tók þá afdrifaríku ákvörðun að skella sér með finnskri vinkonu í 10 daga vetrarfrí til Kýpur, sem var þá þegar ódýr og vinsæll sumarleyfisstaður. Inga segist ekki hafa heillast sérstaklega af eynni í upphafi. Hins vegar kolféll hún fyrir ungum Kýpverja sem hún kynntist á einu diskótekinu í strandbænum Larnaka, en þar bjó hann á meðan hann sinnti herskyldu.

Inga sneri aftur um sumarið og ílengdist á eynni næstu mánuði. Ungi hermaðurinn, Demetris Hadjipanayi, hjálpaði henni að fá tímabundið landvistarleyfi og hún starfaði á diskótekum þar sem hún gat fengið greitt svart. „Ég var svona „bar-woman“,“ segir Inga og hlær innilega.

Tengdaforeldrarnir vildu hins vegar ekki að sonurinn kvæntist útlendingi og þegar landvistarleyfið var útrunnið ákvað Inga að halda heim. Demetris elti Ingu hins vegar til Íslands og árið 1983 gengu þau í hnapphelduna þar í óþökk foreldra hans. „Þegar hann fór sagði pabbi hans að ef hann gengi í hjónaband á Íslandi væri hann ekki velkominn aftur heim.“

Það var því hentugt að á svipuðum tíma var Demitris boðin vinna í Sádi-Arabíu og síðan Persaflóaríkinu Óman, en þar bjuggu ungu hjónin í eitt og hálft ár.

Vildi ekki sjá eftir neinu

Þegar fjölskyldan hafði jafnað sig og tekið íslensku tengdadótturina í sátt héldu þau aftur til Kýpur þar sem eiginmaðurinn fékk vinnu sem rafmagnsverkfræðingur hjá bílaframleiðandanum Mercedez-Benz. Þau settust að í höfuðborginni Níkósíu þar sem fjölskylda Demitris var búsett.

Fjölskylda hans kemur upphaflega frá norðurhluta Kýpur sem var tekinn með hervaldi árið 1974 og tilheyrir nú tyrkneska lýðveldinu Norður-Kýpur, smáríki sem er aðeins viðurkennt af stóra frændríkinu Tyrklandi. Inga segir frá því að Demitris hefði aðeins einu sinni snúið aftur á heimaslóðirnar eftir að landamærin voru opnuð – en það sé sársaukafullt, og því sé hann eins og flóttamaður í eigin landi.

Samfélög hinna grískumælandi og tyrkneskumælandi Kýpverja geta verið stirð og þau blóðugu átök sem áttu sér stað í kjölfar innrásarinnar sitja í mörgum, þótt það hafi reyndar batnað mikið á undanförnum árum að sögn Ingu. „Ég kom fyrst til Kýpur í desember 1981, sjö árum eftir að innrásin átti sér stað. Það voru ennþá hermenn á götunum, það var mikil fátækt og engin uppbygging – ekkert eins og í dag. Fólk var afar fordómafullt og leist ekkert vel á útlendingana. Þeir töluðu um alla útlendinga sem „Englendinga“ – og höfðu ekki mikið álit á þeim,“ segir hún – en Kýpur hafði verið hluti af breska heimsveldinu frá lokum 19. aldar og þar til eyjan hlaut sjálfstæði á sjötta áratugnum.

Fannst þér þú mæta fordómum vegna þess að þú varst útlendingur?

„Já, ég gerði það. Það var auðvitað sérstaklega erfitt að vita til þess að tengdaforeldrarnir vildu ekkert með mig hafa – þeir voru eiginlega bara að gera okkur greiða með því að leyfa mér að vera með. En það breyttist náttúrlega með tímanum. Tengdapabbi var sérstaklega fljótur að taka mig í sátt, en það tók aðeins lengri tíma með tengdamömmu – henni fannst sonur sinn hafa kvænst niður fyrir sig,“ segir hún og hlær. „Maður lét þetta bara fara inn um annað og út um hitt. Þetta var bara eitthvert þjóðarstolt og svoleiðis.“

En hvað með fjölskylduna heima, leist fólki þar eitthvað á þennan ráðahag?

„Mömmu leist ekkert á þetta í byrjun, en hún studdi mig og sagði að ég gæti bara komið heim ef þetta gengi ekki. Ég vildi láta á þetta reyna, ég vildi ekki hugsa til baka seinna og sjá eftir því að hafa ekki þorað.“

Enn ævintýraþrá

Árið 1985 eignuðust Inga og Demetris sitt fyrsta barn, soninn Yiannis, og svo komu þau eitt af öðru: Elias, Elisa og Kristjana. Strax frá upphafi ákvað Inga að vera heima og sjá um börnin. „Mér fannst þetta svo mikil ábyrgð. Vá! Ég hafði aldrei haft svo mikla þolinmæði eða þannig. En ég hugsaði að ef ég færi út að vinna, hverjum ætti ég þá að kenna um ef eitthvað færi úrskeiðis? Við lifðum bara á hans launum. Við höfðum það ekkert verra en aðrir, en vorum virkilega sparsöm.“

Draumurinn um að gera eitthvað meira utan heimilisins blundaði þó alltaf í Ingu – ævintýraþráin ekki alveg slokknuð. Hún segist hafa haft gaman af því að elda og búa til alls konar í eldhúsinu og hún hafði ásamt danskri vinkonu lengi látið sig dreyma um að opna veitingastað. Þær höfðu sérstakan augastað á fallegu hefðbundnu kýpversku kaffihúsi sem háöldruð kona rak í húsnæði í eigu borgarinnar.

Þegar börnin voru orðin stálpuð lést gamla konan og þar með losnaði húsnæðið – og Inga var staðráðin í að fá húsnæðið. „Eftir að konan dó var mér sagt að þetta yrði auglýst í blöðunum. En þar sem ég las ekki blöðin þá hringdi ég í hverri viku upp á bæjarskrifstofuna og spurði hvort það væri búið að auglýsa.“

Þegar loksins kom að því að senda inn umsóknina kom babb í bátinn. Eiginmenn þeirra vinkvennanna höfðu báðir verið svartsýnir og neikvæðir varðandi veitingahúsdraumana, og vinkonan guggnaði. Inga lét karlinn sinn hins vegar bara heyra það. „Ég sagði við hann að ég myndi ekki biðja hann um að neina hjálp, ég myndi bara biðja um einn einfaldan hlut: Ekki röfla! Ég þoli það ekki! Hann hafði enga trú á því að ég myndi fá húsnæðið svo hann sagði ekkert en svo fékk ég að heyra það þegar ég var að byrja. Honum fannst vonlaust að ég myndi bara vera á veitingastaðnum allan daginn og svo framvegis,“ rifjar Inga upp og hlær.

Þegar það var tilkynnt að Inga, af fjölda umsækjenda, fengi rekstrarleyfi í húsinu voru einhverjir ósáttir.
Sonur einhvers skrifaði í blöðin og sagði það fyrir neðan allar hellur að þessi „enska kerling“ skyldi fá leyfi til að nota húsnæðið en ekki hann – sonur hermanns sem hefði látið lífið fyrir landið í stríðinu. En umsóknin hafði verið valin með einróma áliti borgarráðs og tekið var til varna fyrir Ingu í blöðunum, hér var starfað á jafnréttisgrundvelli, allir höfðu sama möguleika.

Sviðsskrekkur og rekstrarerfiðleikar

Inga grínast með að hún vilji helst ekki rifja upp hvernig veitingareksturinn gekk í byrjun. Þegar fyrsti viðskiptavinurinn gekk inn um dyrnar fékk hún svakalegan sviðsskrekk: „Ég hugsaði bara: Guð minn góður, ekki koma hér inn!“ segir hún og hlær. Þrátt fyrir að sviðsskrekkurinn hafi fljótlega horfið gekk reksturinn samt brösuglega til að byrja með.
Staðurinn er nokkuð frá mannfjöldanum sem flæðir um aðalgötuna Leida og nærliggjandi götur. „Ég sá mjög fljótt að þetta gekk ekki. Þetta var svo mikið úr alfaraleið að ég yrði að hafa eitthvað til að draga fólk inn.“

Rekstrarörðugleikarnir kveiktu heiftarlega heimþrá og Inga ákvað að loka staðnum í mánuð og hugsa málin á Íslandi – hún segist hafa verið eins Scarlett O’Hara í Gone with the wind sem fór alltaf „Home to Tara“ þegar hún þurfti að hugsa. Á Íslandi fékk hún uppljómunina sem hún þurfti. Hún hafði heimsótt veitingastaðinn Grænan kost og sannfærst um að hennar staður skyldi verða grænmetisstaður og þannig að laða til sín fólk.

Það þótti óðs manns æði að opna grænmetisveitingastað í Níkósíu. „Það var ekki einn einasti veitingastaður á Kýpur sem var einungis með grænmetismat,“ segir Inga, enda álíta Kýpverjar grænmeti fyrst og fremst vera meðlæti með grillaða kjötinu og kjötréttunum sem þeir eru svo þekktir fyrir: kebab, keftedes, sheftalia, loukaniko, og svo framvegis.

Frá upphafi var hins vegar ljóst að þetta var gæfuspor: „Það var allt í blóma í byrjun,“ segir Inga. Fastakúnnar fóru að mæta, mælt var með staðnum í ferðahandbókinni Lonely Planet og reksturinn gekk vel. Hún segir að flestir réttirnir hafi upphaflega komið úr grænmetisréttabók Sollu Eiríks, Grænn kostur Hagkaupa, sem hún þróaði svo áfram með kýpverskum snúningi. Þannig eru vinsælustu og sígildustu réttirnir á staðnum grænmetislasanja, kjötlaust mússaka, og ýmiss konar grænmetis- og baunaborgarar. Hún vinnur allt hráefnið á staðnum, bakar brauðið sjálf og notar ferskt hráefni. Hún býður líka upp á kökur sem eru miklu heilsusamlegri en þær bragðið gefur til kynna.

Þegar kreppan dundi yfir Kýpur eftir bankahrun landsins árið 2012 þyngdist reksturinn umtalsvert: „Manni fannst allt líf einfaldlega stoppa. Um leið og það kemur kreppa þá er það fyrsta sem fólk gerir að hætta að fara út að borða. Þú eldar heima hjá þér og eyðir bara í það nauðsynlegasta. Ég var stundum alveg að gefast upp,“ segir Inga, en tekur fram að nú séu Kýpverjar smám saman að rétta úr kútnum – hún finni fyrir því að það sé meiri friður, ekki jafn mikil ólga og óöryggi í þjóðarsálinni.

Veganismi og grænmetisát er að verða algengara meðal ungs fólks á Kýpur eins og víðar á Vesturlöndum, en Inga segir þó enn vera nokkuð afmarkaðan hóp sem er grænmetisætur á eynni, fólk sem stundi jóga og fari alla leið með hinn heilsusamlega lífsstíl. En með fjölguninni hafi samkeppnin líka aukist. „Í dag eru komnir nokkrir aðrir grænmetisstaðir í borginni. Margir sem voru viðskiptavinir hjá mér í upphafi eru nú búnir að opna sína eigin staði. Fólk þarf að gera sér sérstaka ferð til að koma hingað til mín, þannig að ég skil ósköp vel að fólk nenni ekki að koma oft.“

Hún hefur því íhugað að koma sér enn meira miðsvæðis til að ná til fleiri, en segir að það muni krefjast lengri opnunartíma og meiri vinnu – og það vilji hún ekki. Í þokkabót er erillinn við aðalgötuna, við hliðina á McDonald’s og Starbucks, sé eitthvað sem hugnast henni ekki.

Fjölskyldan skiptir mestu máli

Þó að Inga hafi nú búið meirihluta ævinnar á Kýpur og tali grísku reiprennandi – en tungumálið lærði hún í gegnum börnin sín fjögur – segist hún enn tengja við gamla heimalandið. „Ég er Íslendingur alveg inn að beini en tileinka mér samt allt það góða sem er gert hér.“

Hún kemur nokkuð reglulega til Íslands en fjarlægðin gefur henni glöggt gestsauga á þróun samfélagsins undanfarna áratugi. Hún nefnir sérstaklega að með árunum verði Íslendingar mun uppteknari af sjálfum sér og veiti jafnvel börnum sínum ekki nauðsynlega athygli eða aga. Þetta sé ólíkt því sem hún upplifi á Kýpur sem sé meira fjölskyldusamfélag.

„Heima eru allir svo uppteknir af sjálfum sér að það hefur enginn tíma til að ala börnin upp. Það finnst mér voðalega leiðinlegt því ég er hrædd um að næsta kynslóð muni ekki hafa neina stjórn eða aga. Á Íslandi mega börn bara gera hvað sem er, og ég held að krakkarnir finni fyrir þessu seinna meir. Þó það sé reyndar líka að breytast hér er samt haldið miklu meira utan um fjölskylduna á Kýpur. Það er að minnsta kosti reynt að hafa einhvern smá móral,“ segir Inga.

Hún segir það líka hafa slegið hana í síðustu heimsóknum hversu algengt þunglyndi er orðið, ofvirkni og hinar ýmsu læknisfræðilegu greiningar sem fólk noti til að útskýra eigin vandamál. „Það er eins og það sé eitthvað að hjá öllum. Það eru allir að tala um að þeir þurfi að vinna úr sínum málum – eru allir að komast að því þeir séu með ADHD eða eitthvað álíka? Ég held að þetta sé vegna þess að fólk er svo mikið eitt.“

Það er augljóst að Inga leggur áherslu á fjölskylduna og má sjá merki þess á veitingastaðnum. Veggirnir eru skreyttir með listaverkum eftir elsta soninn Yiannis, sem er graffitílistamaður búsettur í Aþenu, og nýlega var ákveðið að dæturnar, Elísa og Kristjana, skyldu taka þátt í rekstri veitingahússins með móður sinni. Þær vinna bak við afgreiðsluborðið en eru ekki farnar að taka þátt í sjálfri eldamennskunni: „En þær eru alltaf að koma með ofsalega góðar hugmyndir,“ segir Inga og glottir. Það er því björt framtíð sem blasir við grænmetishimnaríki Ingu, elsta og þekktasta grænmetisveitingastað á Kýpur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu
Fókus
Í gær

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Getur verið að úrslitum í handbolta sé viljandi hagrætt?

Getur verið að úrslitum í handbolta sé viljandi hagrætt?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Nökkvi Fjalar er kominn til baka – „Gerum það ómögulega mögulegt saman“

Nökkvi Fjalar er kominn til baka – „Gerum það ómögulega mögulegt saman“