Júlía Stefánsdóttir er einkar framtakssöm 10 ára stúlka og í sumar hyggst hún fara á fullt í að framleiða og selja leikslím. Ágóðinn af sölunni mun síðan renna til ungs fólks í krabbameinsmeðferð en Júlía þekkir það sjálf að vera aðstandandi krabbameinsveikra.
Faðir Júlíu, Stefán Karl Stefánsson leikari, greindist með sjaldgæft krabbamein árið 2016 og gekkst í kjölfarið undir aðgerð auk lyfja- og geislameðferðar. Greint er frá þessu frábæra framtaki Júlíu á Facebook-síðu Krafts stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur
„Júlía Stefánsdóttir, 10 ára í Vesturbæjaskóla. Hún ætlar að selja slím í sumar til styrktar Krafti af fullum krafti. Hún segist vilja styrkja félagið svo að ungt fólk geti fengið aðstoð við krabbameinmeðferðir ef það fær ekki stuðning annars staðar frá.“
Afi Júlíu lést úr krabbameini árið 2012 auk þess sem tveir frænkur hennar hafa greinst með brjóstakrabbamein.
„Júlía þekkir því hvað það getur verið erfitt að greinast með krabbamein verandi aðstandandi og hafandi krabbamein svo nálægt sér alla daga.“
segir í færslu Krafts um leið og fólk er hvatt til að styrkja Júlíu í slímsölunni. „SLÍMIÐ ER NÚNA!“
Kraftur stuðningsfélag var stofnað 1. október 1999 en félagið hefur það að leiðarljósi að beita sameinuðum kröftum sínum til að aðstoða þá sem þurfa á stuðningi að halda. Leitast er við að aðstoða þá ungu einstaklinga sem greinast með krabbamein og aðstandendur og miðla upplýsingum sem auðvelda þeim að takast á við sjúkdóminn. Félagið er fyrir fólk á aldrinum 18 – 40 ára en þar sem félagið er einnig fyrir aðstandendur er fólk á öllum aldri í félaginu.