Þetta gerðist á bak við tjöldin – Áfengi fyrir fjórar milljónir og þúsund smokkar – DV birtir dagbók þátttakanda
Um aldamótin síðustu varð byltingarkennd hreyfing í sjónvarpsefni. Mannlegt eðli var orðið skotspónninn og framleiðendur um allan heim sáu sér leik á borði að nýta þetta mögulega form, einfeldnin væri kannski best og það þyrfti ekkert handrit. Minni kostnaður, meiri gróði.
Íslensk sjónvarpsframleiðsla blómstraði í kjölfarið. Allt í einu var komið ódýrt en vinsælt form af áhorfsefni og hver sjónvarpsstöðin á fætur annarri spratt upp og engin vildi vera eftirbátur hinna. Djúpa laugin, Idol, Bachelor-inn. Eðlislæg hnýsni manneskjunnar gerði það að verkum að allt fékk þetta byr undir báða vængi en hvað svo?
Árið er 2005. Ríflega 500 ungmenni sóttu um þátttöku á Ástafleyinu og framleiðendur ítrekuðu að lokahópurinn yrði valinn af sálfræðilegri kostgæfni, hvað sem það nákvæmlega þýðir. Haukur Valdimar Pálsson var ekki eitt af þeim ungmennum sem var valinn í lokahópinn, enda sótti hann einfaldlega aldrei um. En hvernig æxlaðist það að hann endaði við strendur tyrknesku riveríunnar á seglskútu með fjórtán ókunnugum einstaklingum, 25 kössum af Egils Lite og Valdimar Flygenring sem skipstjóra?
„Ég var nemi á þessum tíma í Kvikmyndaskólanum, sem var þá á hálfgerðu tilraunastigi, og við nemendurnir vorum sendir í starfsnám hjá kvikmyndafyrirtækjum,“ segir Haukur. „Ég fór ásamt bekkjarsystkinum, Hauki nafna mínum og Maríu, á vegum framleiðslufyrirtækisins Storm til Tyrklands að aðstoða við Ástarfleyið. Sem nemar vorum við auðvitað ekki á launum og fljótlega tókum við Haukarnir eftir því að stelpurnar sem voru að taka þátt voru farnar að daðra við okkur, jafnvel meira en við þátttakendurna. Ég hafði heyrt af því í svona þáttum að stundum hafi stúlkurnar allt í einu meiri áhuga á tökumönnunum, kannski því þeir fá ekki færi á að gera sig að fíflum eins og þeir sem eru að taka þátt. En við vorum sem sagt settir í það að vera aðstoðartökumenn á meðan María var á hótelinu að sjá um þá keppendur sem reknir voru frá borði.“
Þannig að þið voruð bara í því að taka upp þættina?
,,Nei, við vorum settir í að taka upp meira svona aukaefni. Það var mikil bjartsýni í gangi og þetta var akkúrat að detta í hápunkt góðærisins. Það var gert ráð fyrir að þetta myndi slá í gegn og það þyrfti að hafa aukaefni fyrir DVD-diskinn eða ef þetta yrði kannski selt til erlendra sjónvarpsstöðva. Það voru miklir peningar settir í þetta og einhvers staðar sá ég að okkur hafi tekist að drekka áfengi fyrir heilar fjórar milljónir, en þetta var líka mikið keyrt á sponsi. Einhverjir 25 kassar af Egils Lite voru teknir með út, en þá var hann nýkominn á markað. Svo drakk maður kannski lókal bjórinn Efes mest þar til vélarnar fóru í gang og þá var það bara beint í Lite bjórinn. Svo vorum við send út með einhverja 1.000 smokka.“
Þúsund smokka fyrir 14 manns í tvær vikur?
,,Já, eins og ég sagði, það var mikil bjartsýni í gangi,“ svarar Haukur. „En já, svo var aukaefnið sem við tókum bara notað í þáttinn. Fyrst um sinn gistum við hinn Haukur í annarri skútu sem fylgdi fast á hæla Fleysins. Við kölluðum hann Runkdallinn. Við drukkum samt stíft með þátttakendunum og fljótlega var félagi minn kominn á séns með einni af stúlkunum. Hún náði svo einhvern veginn að fá hann í þáttinn og yfir á sjálft Ástarfleyið. Ég húkti einn áfram á Runkdallinum í nokkra daga til viðbótar en það átti eftir að breytast.“
Leikreglurnar voru nokkurn veginn á þá leið að fólk ætti að reyna að finna sér förunaut, annars hefði það á hættu að vera kosið burt og sent heim.
,,Ég fékk mitt helsta kúltúrsjokk þegar ég vaknaði í rúmi um borð í fleyinu en ekki í Runkdallinum, minnislaus uppi í rúmi með tveimur þátttakendum og horfði í linsu eftirlitsmyndavélar sem ég hafði sjálfur tengt í káetuhorninu,“ segir Haukur þegar hann rifjar upp tímann um borð.
En hvernig var stemningin um borð í Ástarfleyinu?
,,Það er nokkuð furðulegt hve mikil spenna myndaðist og hálfgert keppnisskap þrátt fyrir að enginn vissi hvert lokatakmarkið var. Sá fyrsti sem var rekinn frá borði táraðist en það sem verra var er að allir hinir keppendurnir hágrenjuðu með honum. Kannski ekki skrýtið eftir þrjá daga af stanslausri drykkju.“
Sá sem fyrst var sendur frá borði hafði verið með stúlku í káetu sem Haukur hafði haft augastað á.
,,Þetta voru frekar sérstakar aðstæður, ég var frekar hrifnæmur, ráðvilltur og á viðkvæmu stigi tilfinningalega þegar ég sá hana fyrst. Mig grunaði þó að eitthvað myndi gerast milli okkar, hvort sem það yrði þá bara bak við tjöldin, sem svo gerðist. Framleiðendurna var líklegast farið að gruna það svo ég var sendur í land að sjá um þá sem höfðu verið kosnir í burtu með Maríu. Svo við næstu kosningu tilkynnir Flygenring að nú væru fjögur laus pláss í bátnum og því ættu strákarnir að kjósa tvær stelpur og allar stelpurnar að kjósa tvo stráka inn. Það mátti velja alla sem höfðu verið í þættinum og báða Haukana. Allt í einu var ég orðinn þátttakandi án þess að vita af því,“ segir Haukur.
Haukur var þá kosinn um borð ásamt Kíu, Tinnu og Daða. En hvernig fór þetta allt?
,,Lokaþátturinn var svo haldinn í stúdíói Stöðvar Tvö. Þar voru þátttakendur mættir ásamt kapteininum og mikil spenna lá í loftinu, ekki bara af því þeir vissu ekki til hvers var að vinna, heldur var stemningin milli okkar keppendanna orðin smá vandræðaleg. Við horfðum alltaf á þættina saman fyrst en svo fór það að tvístrast eftir að á leið. Þá sáum við loksins allt sem gerðist bak við tjöldin og sumir voru kannski líka farnir að sjá eftir þátttökunni. Þá urðu hlutirnir aðeins stirðari. Við vorum held ég samt öll frekar spennt að sjá hvað væri í verðlaun. Ég reyndi samt þarna að sannfæra Kíu um að við þættumst vera saman en svo kom í ljós að það voru fleiri með sömu hugmyndir. Það var flett ofan af einhverju slíku og myndaðist slæm stemning í salnum.“
Að lokum var eitt par valið sem endanlegur sigurvegari og kom þá loks stundin sem allir höfðu beðið eftir.
,,Svo bauð kapteinn Flygenring parinu sem virtist enn vera saman vinninginn sem var ekkert annað en trúlofunarhringar frá einhverjum gullsmið. Við dóum öll úr vandræðalegheitum, flestir höfðu vonast eftir utanlandsferð eða jafnvel peningum. Kapteinninn gleymdi að spyrja okkur út í ástamálin og ætlaði að kveðja en annar skipverji sem hafði verið með minni vinkonu áður en hann var kosinn frá borði kom spurningunni að okkur í bláendann rétt áður en kreditlistinn rúllaði. Það var fátt um svör.“
En ertu í einhverjum samskiptum við hana í dag? Eða einhverja aðra úr þáttunum?
,,Jú, ég og Kía erum vinir í dag, ég talaði við hana í gær. Svo hitti ég Hauk síðast í haust, hann er eins og ég hvað þetta varðar, finnst þetta bara fyndið og skammast sín ekkert. Enda þjónar það engum tilgangi og gerir þetta allt bara vandræðalegra en það þarf að vera.“
En hvað um kapteininn sjálfan, Valdimar Örn Flygenring? Hefur þú verið í einhverjum samskiptum við hann?
,,Já, heyrðu, ég nýtti mér þessa lífsreynslu í verkefni sem ég gerði í LHÍ og fékk hann til að aðstoða mig. Hann var alveg til í það. Við ætluðum að reyna að halda tíu ára endurfundi árið 2015 en það gekk nú ekki alveg upp. Haukur, félagi minn, var sá eini sem var til í það, ég var samt frekar stressaður að spyrja hina.“
Hvað kom þér mest að óvart?
,,Hversu lítið þarf í raun að leikstýra fólki miðað við það sem mætti halda þegar maður horfir á þætti sem fylgja svona formi; það þarf aðeins að setja fólk í aðstæður með einhverjum óljósum markmiðum um samkeppni, að finna ástina og hamingjuna og gefa því nóg af víni og þá skapast drama sem hægt er að klippa saman í áhugavert efni.“
Þegar allt kom til alls var reglulegt áhorf ekki mikið en umtal um keppendurna meira.
Dagbækur:
08.08.2005
Við vorum að passa upp á strákana, að þeir sæju ekki stelpurnar, samt vorum við öll í sama fluginu. Furðulegt, eins og fermingarfræðsluferð nema við erum með tuttuguogfimm kassa af áfengi og þúsund smokka, allt frá styrktaraðilum. Þessi þáttur er ákveðið menningarsjokk fyrir alla viðkomandi, tökuliðið veit ekki alveg hvað við erum að fara út í. Það er biblía um borð sem segir okkur hvað á að gera. Love Boat-biblían eftir Mark Burnett, framleiðanda Survivor og þessara helstu veruleikaþátta. Leikstjórinn og framleiðandinn lesa hana og fletta upp ef eitthvað kemur upp á. Kött, skoðum biblíuna, höldum áfram. Við vorum að leggja úr höfn Marmaris á Runkdallinum svokallaða, eftirbáti Ástarfleysins. Lentum í Tyrkjaveldi í fyrrinótt, græjuðum fleyið í gær. Runkdallurinn er ekki jafn íburðarmikill og Ástarfleyið enda engar ástir hér, aðeins sjónvarpsmenn, allir á föstu nema við Haukur og kafteinninn Flygenring en góð stemmning og dýr knörr engu að síður.
10.10. 2005
Ég var dreginn á bar fleysins og drakk þar fimm tekílastaup á einni mínútu af því ég var alltaf of fljótur að staupa. Kía var líka dugleg að staupa og við lögðumst með krökkunum á bakborða fleysins eftir sólsetrið. Haukur og Gréta voru einhvers staðar inni en hann á langt í land með að öðlast viðurkenningu krakkanna eftir að Snorra var varpað frá borði, en þau eru þó að meðtaka siðleysið betur með hverjum bjór. Að lokum vorum við Kía, Halli, Ellý, Kristín og Úlli eftir undir feldi og skipstjórinn, sem var mjög fágaður Tyrki með kapteinslega hárgreiðslu, slökkti ljósin á bakborðanum. Við Kía töluðum við hann í myrkrinu en hann er ósáttur að vera alltaf með túristafarm, langar að stýra flutningaskipi. Hann sefur víst alltaf þar sem við lágum, rétt við stýrið því báturinn er ekki með sjálfstýringu. Hann spurði mig í gær hvort ég vildi gefa honum bol sem ég á þar sem á stendur „Fuck me, fuck you, fuck tv, fuck playstation, fuck the east, fuck the west!“ og allur bolurinn er út í fuck einhverju. Ég sagði já en í dag spurði Kía mig líka og ég sagði líka já við henni og er kominn í þá aðstöðu að bregðast öðru hvoru þeirra.
Hreiðar leikstjóri fór eitthvað að gruna þegar hann sá mig hvergi og spurði yfir hópinn í myrkrinu hver væri þar.
Hreiðar leikstjóri bað mig um að eiga eitt orð við sig og við fórum til hliðar. Hann sagði mér að ég væri að fara í land að fylgjast með landkröbbunum á hótelinu og María færi á fleyið í minn stað, ekki af því að ég hefði gert eitthvað vitlaust, hann var virkilega sáttur, heldur til að María fengi líka að sigla eitthvað og svoleiðis. Ég var bara sáttur sjálfur, enda dauðþreyttur og timbraður og gjörsamlega til í að sofa aðeins út og bjóst við því að vera farinn í frí. En enginn veit sinn næturstað í þessari ferð. Mér var hvort eð er farið að líða eins og fiski á þurru landi, vissi ekki hvoru megin ég var staddur í þættinum, hvort ég væri að þessu fyrir sjálfan mig eða sjónvarpið, hvort ég væri að spila með Kíu, hún með mig, við með þáttinn eða þátturinn með okkur. Ég hlakkaði bara til að hitta hana án þess að það kæmi í sjónvarpinu mánuði seinna.
Ég fór í sturtu og pakkaði niður. Mér líður eins og síðasta vika hafi verið sjö ár og veit ekki hvað ég heiti.
Ég held að ég sé að klúðra þessu. Ég var nú svo sem eitthvað bjartsýnn að halda að ég myndi finna hamingjuna í einhverjum sjónvarpsþætti á fylliríi en bjartsýnin hefur haldið mannkyninu gangandi í þúsundir ára…
Já ég var farinn að hafa áhyggjur af því að atburðarás þáttanna væri orðin of róleg miðað við fyrri hneykslin en það kom nú annað á daginn. Um kvöldið fórum við út að borða á einhvers konar veitingastað í þessum tíu manna bæ, hann var upplýstur með ljósaseríum og samanstóð af langborði við hliðina á litlu húsi, mjög krúttleg kvöldmáltíð. Við Sumarliði drukkum endalaust raki, hið tyrkneska snaps, sem bragðast eins og lakkrís og landi, en fengum einnig nóg af borðvíni með matnum. Svo ég reki nú söguþráðinn eftir alla drykkjuna þá var ég lítið með Kíu þegar hér var komið sögu, hún talaði lítið við mig í dag . Svo kom að því að Hulda átti að velja einhvern með sér í brúðarsvítuna og hún vildi fá Kíu … ég hló bara að þessu enda fáránlega fullur. Ég stakk upp á því að við Sumarliði yrðum þá saman í herbergi og það leit á tímabili út fyrir að allt stefndi í það, við þóttumst kyssast og Kía virtist halda að ég væri til í að vera í káetu með honum en í rauninni hefði ég alveg eins viljað segja bæ og fara í land eða að minnsta kosti aftur í Runkdallinn frekar en að vera búinn að elta Kíu í Ástarfleyið og enda svo sem sífullur kokkálaður lagsmaður annars háseta einum degi seinna. Sumarliði og Hulda enduðu samt saman í brúðarsvítunni en ekki sátt, við erum ójafnarma ástarferhyrningur og raki er algjör óþverri.
18.10. Flogið heim
Loks var tekið upp þegar við stauluðumst timbruð niður landganginn í síðasta sinn og horfðum sorgmædd á fleyið okkar fagra. Við föðmuðum alla í áhöfninni, jafnvel feita kokkinn sem við köllum Þ-ið því hann er eins og Þ í laginu. Elsku litli öfugugginn, guð blessi þig og takk fyrir mig, verði okkur að góðu. Ég gaf kafteininum FUCK – bolinn minn sem ég hafði einnig lofað Kíu og gaf Tolka rauða Hawaii-skyrtu sem hann langaði í og ég keypti á hljómsveitarferðalagi í Þýskalandi í fyrra með dauða-rokkssveit minni, Andláti. Ég missti svo næstum af rútunni því ég hljóp á klósett á veitingastað, gat ekki haldið ólgandi meltingunni kyrri þangað til á fjarlægum flugvellinum. Ég ákvað að drekka ekki í dag flestum til undrunar og var það stórundarleg tilfinning.