Helga Möller söngkona og Einar Bárðarson samskiptastjóri Hafnarfjarðar leggja land undir fót í ár og taka þátt í Eurovision, Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.
Þau ætla þó ekki að taka þátt sem keppendur, heldur munu þau taka þátt í lokakvöldi þýsku forkeppninnar og velja framlag Þýskalands fyrir lokakeppnina í Portúgal. Það er 20 manna alþjóðleg dómnefnd víðs vegar að úr Evrópu sem velur framlag Þýskalands.
Þau eru Eurovision aðdáendum góðkunn, en Helga Möller tók þátt árið 1986 þegar ísland var með í fyrsta sinn og söng Gleðibankann ásamt Eiríki Haukssyni og Pálma Gunnarssyni. Tríóið kallaði sig ICY. Einar Bárðarson samdi framlag Íslands árið 2001, Two tricky í flutningi Angel, sem skipað var Gunnari Ólasyni og Kristjáni Gíslasyni.
„Það verður ekki leiðinlegt að sinna þessu verkefni, hitta allt þetta fagfólk, taka þátt í þessari útsendingu og hjálpa 80 milljón manna þjóð að finna Eurovision framlagið sitt,“ segir Helga á færslu á Facebook.
Keppnin í Þýskalandi ber nafnið Unser Lied für Lissabon eða Okkar lag fyrir Lissabon og sex keppendur taka þátt: Xavier Darcy, Ivy Quainoo, Ryk, Michael Schulte, Natia Todua og hljómsveitin voXXclub.
Undankeppnir Eurovision fara fram 8. og 10. maí næstkomandi og lokakeppnin þann 12. maí.