Í vikunni var tilkynnt, með pompi og prakt, að Vigdís Hauksdóttir yrði borgarstjóraefni Miðflokksins í komandi sveitarstjórnarkosningum. Fréttunum var misjafnlega tekið, eins og von var, enda er engin lognmolla í kringum Vigdísi. Hún hefur ekki beint lagt það í vana sinn að standa í vinahjali við pólitíska andstæðinga sína. Einn slíkur pólitískur andstæðingur er náfrændi Vigdísar. Það er Vilhjálmur Þorsteinsson, fjárfestir og fyrrverandi gjaldkeri Samfylkingarinnar. Vilhjálmur sagði af sér sem gjaldkeri í kjölfar fréttaflutnings í kringum Panama-skjölin í mars 2016 en þá kom í ljós að hann átti eignir í aflandsfélögum. Hann er þó enn áhrifamaður innan flokksins og mun vafalaust láta til sín taka í borgarstjórnarkosningunum sem framundan eru.
Faðir Vilhjálms er Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor emeritus við HÍ. Móðir Þorsteins, Kristín María Gísladóttir, og faðir Vigdísar, Haukur Gíslason, voru systkin.