fbpx
Laugardagur 25.janúar 2025
Fókus

Óskarsverðlaunahafinn í Vesturbænum

Fæddist undir járnhæl – Ruglingur á Óskarssviði – Ástfangin á Íslandi – Opna upptökuver

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 16. febrúar 2018 20:00

Marketa Irglova

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Marketa Irglova er tékkneskur tónlistarmaður sem hlaut Óskarsverðlaun árið 2008 fyrir lag í írskri kvikmynd. Þá var hún aðeins 19 ára gömul og yngsti einstaklingurinn sem hlotið hefur styttuna eftirsóttu ef utan eru skildir leiklistarflokkarnir. Marketa, sem einnig lék annað aðalhlutverkið í myndinni og hefur flutt tónlist sína um allan heim, hefur búið á Íslandi í sex ár með manni sínum Sturlu Míó Þórissyni upptökustjóra. Eiga þau tvö börn og það þriðja er á leiðinni auk dóttur sem Sturla átti fyrir. Kristinn heimsótti Marketu í upptökuver þeirra á Seltjarnarnesi og ræddi um æskuna, kvikmynda- og tónlistarferilinn og umskiptin við að flytja til Íslands.

Tékkar ekki enn gert upp kommúnismann

Marketa fæddist árið 1988 í smábænum Valasske Mezirici í landi sem hét þá Tékkóslóvakía en skiptist upp í tvö ríki, Tékkland og Slóvakíu, þegar kommúnisminn riðaði til falls fjórum árum síðar. Foreldrar Marketu eru blaðamenn, búa enn í bænum og gefa saman út bæjarblað sem dreift er frítt. Þau eiga tvær dætur og er Marketa sú eldri.

Hvernig var að alast upp í landi sem var að brjótast undan kommúnisma?

„Foreldrar mínir tala um þetta sem erfiðan tíma.“
Fædd í Tékkóslóvakíu „Foreldrar mínir tala um þetta sem erfiðan tíma.“

Mynd: Sigtryggur Ari

„Ég fann mjög lítið fyrir því sjálf. En foreldrar mínir tala um þetta sem erfiðan tíma. Þau voru í háskólanum þegar þetta var að gerast og höfðu ekkert ferðafrelsi. Margar bækur og tónlistarplötur voru bannaðar og því þurfti að smygla þeim inn til landsins sem var hættulegt. Þau gerðu þetta nokkrum sinnum og ef einhver hefði komist að því hefðu þau verið rekin úr skólanum. En þegar ég var tveggja ára var allt farið að breytast.“

Fyrsta árið eftir að Marketa fæddist þurfti móðir hennar að sjá um hana ein. Allt til ársins 2004 var herskylda í landinu og faðir hennar var kvaddur í herskóla langt frá Valasske Mezirici . Á árunum eftir það var þröngt í búi hjá fjölskyldunni en Marketa segir að foreldrar hennar hafi verið duglegir í að reyna að koma fjölskyldunni úr þeim kröggum sem flestir landsmenn voru í. Töluverð fátækt var í landinu og fá tækifæri fyrir ungt fólk. „Ég held að þjóðin hafi ekki enn náð að gera upp tíma kommúnismans og jafnað sig almennilega á honum.“

Skorti sjálfstraustið

Þegar Marketa var yngri lék hún sér mikið einsömul og átti ekki marga vini. Það voru helst frænkur hennar sem hún lék sér með. „Ég var svolítið í mínum eigin heimi þegar ég var krakki. Ég elskaði tónlist, teiknaði mikið og föndraði en ég var afskaplega feimin. Ég sé hvað dóttir mín, sem er fjögurra ára í dag, er öðruvísi. Hún hefur sjálfstraustið sem mig skorti.“

Hvernig var í skólanum?

„Ég var svolítið í mínum eigin heimi þegar ég var krakki“

„Mér fannst ég mjög út undan í skólanum. Ekki af því að einhver væri að gera það viljandi heldur fann ég mig ekki alveg með öðrum. Ég veit ekki alveg af hverju mér leið þannig. Það var ekki fyrr en miklu seinna að mér var farið að líða betur innan um fólk og fannst það skilja mig.“

Ávallt var mikil tónlist á heimilinu og faðir hennar var sífellt að setja plötur á fóninn. Foreldrar hennar spiluðu sjálf ekki á neitt hljóðfæri en þegar Marketa var sjö ára hóf hún að læra á píanó. „Það var draumur fyrir mömmu. Hana hafði alltaf langað til að spila á píanó en foreldrar hennar höfðu ekki efni á því að kaupa píanó fyrir hana.“ Skömmu síðar hóf hún að læra á gítar og selló og einnig söng hún mikið. Píanó er þó hennar aðalhljóðfæri í dag.

Hverjir voru áhrifavaldarnir?

„Ég hlustaði mikið á söngvara sem sungu róleg og falleg lög eins og til dæmis Simon og Garfunkel, Joni Mitchell, Kate Bush og Leonard Cohen. Sterkar melódíur og flottir textar var það sem ég var alltaf að leita að, ég tengdi við það. Ég hafði einnig mjög gaman að því að dansa við alls kyns tónlist en hlustaði aldrei mikið á rokk eða slíkt.“

Hún segir tónlist hafa mjög mikil áhrif á skap hennar og hvernig henni líður. Stundum þarf hún að stöðva tónlistina ef hún rímar ekki við tilfinningar hennar á þeim tíma. „Þegar ég eignaðist börn kom að þeim tímapunkti að mér fannst oft erfitt að hlusta á tónlist og vildi fremur hafa hljóð. Ég get ekki haft tónlist í bakgrunninum, til dæmis í bíl. Ég lít á tónlist eins og ferðalag.“

17 ára til Írlands

Árið 2001, þegar Marketa var þrettán ára gömul, kynntist hún írska söngvaranum Glen Hansard úr hljómsveitinni The Frames. Faðir hennar þekkti fólk sem aðstoðaði hljómsveitina við að halda tónleika í Tékklandi, þar á meðal í Valasske Mezirici. „Glen heimsótti okkur og við urðum mjög góðir vinir. Það voru mörg hljóðfæri á heimilinu og við spiluðum saman. Hann kynnti mér það frelsi að semja eigin tónlist og hvatti mig áfram.“

Hljómsveitin fór margsinnis til Tékklands eftir þetta og Marketa kom fram með henni á tónleikum. „Glen hafði trú á mér og það byggði upp mitt eigið sjálfstraust. Allt í einu fór ég að trúa að ég gæti starfað við tónlist.“

Einn fyrrverandi meðlimur The Frames, John Carny, gerðist kvikmyndaleikstjóri og ákvað að gera mynd um írskan tónlistarmann og tónlistarkonu frá Austur-Evrópu. „Á þessum tíma voru miklar samfélagsbreytingar í gangi á Írlandi. Áður fluttu Írar út en nú voru innflytjendur farnir að koma til landsins. Hann vildi gera kvikmynd um þetta viðfangsefni.“

John spurði Glen hvort hann þekkti einhverja konu á fertugsaldri frá Austur-Evrópu sem spilaði á píanó og gæti tekið að sér hlutverkið. Glen stakk upp á Marketu sem var þá aðeins sautján ára. Hún flaug út og John sá að það var einhver orka í þeim tveimur. Úr varð að Glen og Marketa léku aðalhlutverkin í kvikmyndinni Once sem kom út árið 2007. Hún var tekin upp á þremur vikum og kostaði aðeins 150 þúsund dollara en vakti strax athygli, sérstaklega fyrir tónlistina sem Glen og Marketa sömdu og fluttu.

Hvernig leið þér fyrir framan myndavélina?

„Það var svolítið skrítið í byrjun en ég var fljót að venjast því. Þetta verður ekkert mál ef maður hættir að hugsa um hvernig maður lítur út og hvað maður gerir. Maður hættir að taka eftir myndavélunum. John notaði þá aðferð að taka skotin langt frá til að trufla ekki.“

Tilnefningin kom ekki af sjálfri sér

Þann 22. janúar árið 2008 voru Óskarstilnefningar kynntar og lagið „Falling Slowly“ úr Once var þar á meðal. Marketa segir að að það hafi komið á óvart en ekki gerst af sjálfu sér. Að fá tilnefningu var eitthvað sem Glen og Marketa höfðu unnið hörðum höndum að.

„Við byrjuðum á því að kynna myndina á Sundance-kvikmyndahátíðinni í Salt Lake City. Stanslaust vorum við að spila tónlistina, veita viðtöl, mættum á sýningar til að svara spurningum áhorfenda. Þegar Fox Searchlight ákvað að dreifa myndinni fyrir okkur gerðum við samning um að ferðast um Bandaríkin og kynna myndina í mánuð. Það sem skipti mestu máli var það umtal sem myndin fékk og við vorum andlit hennar. Ef við hefðum ekki gert þetta hefðum við aldrei fengið tilnefninguna.“

Verkefnið vatt stöðugt upp á sig og sífellt fleira fólk fór að tala um myndina. Marketa segist hafa heyrt alls kyns sögur sem henni þykir mjög vænt um í dag. „Til dæmis af fólki sem ákvað að gifta sig á tónleikunum okkar. Ástarsögur af fólki sem fannst það eiga hluta af kvikmyndinni, sögunni og tónlistinni.“

Voruð þið Glen par?

„Já, í smá stund. En við vorum miklu betri vinir en par.“

Óskarsverðlaunahátíðin eins og brúðkaup vinafólks

Marketa og Glen voru einnig tilnefnd til Grammy-verðlauna fyrir lagið en Marketa segir að sú upplifun hafi valdið vonbrigðum. „Sú verðlaunaafhending er gerð fyrir sjónvarp. Þarna var hálftómur salur, með plasthúsgögnum og einhverjum skreytingum. Það var skrítin stemning í húsinu og okkur leið ekki eins og við værum hluti af einhverjum hópi þar. Ég tók þá reynslu með mér á Óskarinn og hafði ekki mjög miklar væntingar.“

Þann 24. febrúar gengu Marketa og Glen inn í Kodak-höllina í Hollywood inn á sjálfa Óskarsverðlaunahátíðina. Hún segir það hafa verið ótrúlega reynslu og allt annað andrúmsloft en á Grammy-hátíðinni. „Það var allt svo fínt og svo mikill klassi yfir öllu. Allir voru líka í góðu skapi, stórstjörnur og aðrir. Þetta var eins og að fara í brúðkaupsveislu hjá góðum vini. Ég var svo spennt þegar ég gekk rauða dregilinn að ég þurfti að passa upp á andardráttinn og að halda fótunum á jörðinni.“

Fyrir hátíðina var farið með þau á „leynistað“ þar sem þau völdu sér klæðnað fyrir hátíðina. „Þarna var hægt að fá alls konar kjóla og skartgripi úr demöntum sem við hefðum aldrei getað keypt. Við skrifuðum bara undir skjal um að fá þetta lánað og litum svo út eins og konungborið fólk þegar við gengum í salinn.“

Kölluð aftur á svið

Lag Marketu og Glens keppti við fjögur önnur lög, þar á meðal þrjú úr Disney-myndinni Enchanted. Það var John Travolta sem opnað umslagið og las upp „And the Oscar goes to …“

Hvernig var tilfinningin að heyra nöfn ykkar?

„Eins og flugeldasýning. Það voru alls konar tilfinningar sem hrísluðust um mann. Líkaminn býr til seratónín og allt þetta góða fer af stað. Svo fer maður að anda grunnt, titra og getur varla talað.“

Marketa og Glen gengu á sviðið og tóku við styttunum sínum og Glen flutti stutt ávarp. Þegar Marketa fór að hljóðnemanum og byrjaði að tala hófst tónlistin og þau gengu af sviðinu. Seinna í útsendingunni kallaði Jon Stewart kynnir Marketu eina á svið til að ljúka ræðunni.

„Svo var ýtt á bakið á mér og ég gekk inn á sviðið en var ekki með neitt undirbúið.“
Kölluð aftur upp á svið „Svo var ýtt á bakið á mér og ég gekk inn á sviðið en var ekki með neitt undirbúið.“

Mynd: Sigtryggur Ari

Hvað gerðist eiginlega?

„Áður en við fórum á hátíðina fengum við undirbúnings DVD-disk þar sem Tom Hanks segir: Til hamingju, þú hefur verið tilnefndur … og hvað nú? Þar kom fram að ef þú vinnur hefur þú aðeins eina mínútu frá því að nafnið þitt er lesið upp þar til tónlistin byrjar og þú verður að koma þér af sviðinu. Þegar við komum á sviðið voru um 30 sekúndur eftir. Við Glen vorum búin að ræða að ef við myndum vinna myndi hann halda ræðuna þar sem hann syngur meira á tónleikum okkar. Ég ætlaði aðeins að segja takk kærlega.“

Þegar af sviðinu var komið fengu þau freyðivín og svo farið beint í myndatöku. En þá kom maður með hljóðnema á höfðinu og sagði við Marketu að Jon Stewart vildi ræða við hana stuttlega.

„Mér fannst þetta skrítið en var eiginlega ekki í ástandi til að hugsa mikið um þetta. Svo var mér sagt að ég myndi fara aftur á svið en ég skyldi ekki alveg hvað var í gangi. Svo var ýtt á bakið á mér og ég gekk inn á sviðið en var ekki með neitt undirbúið. En ég lét vaða og talaði frá hjartanu um að allt mannfólk væri eitt og að lagið okkar byggði brýr milli fólks.“

Ágengni ljósmyndara og aðdáenda

„Ég er löngu hætt að hugsa um hvort þetta hafi verið draumur eða ævintýri. Þetta gerðist bara. Ég trúi á galdra og að hlutir gerist fyrir einhverja krafta sem við skiljum ekki. Ég trúi líka á engla, álfa og guð í alls konar myndum. Einhvern æðri mátt sem stýrir.“

Fékkstu tilboð um að leika í Hollywood eftir þetta?

„Já, en það voru aðeins smáhlutverk og ekkert sem ég tengdi neitt sérstaklega við. Svo er það heldur ekki þannig að hlutverkin komi á silfurfati. Jafnvel þekktir leikarar þurfa að fara í áheyrnarprufur og taka upp kynningarmyndbönd. Mér fannst ég ekki vera það góður leikari. En ég gat leikið þetta hlutverk sem ég tengdi mjög vel við.“

Marketa segir að þessu hafi einnig fylgt skuggahliðar, þá sérstaklega varðandi ágenga blaðamenn í heimalandi hennar og paparazzi -ljósmyndara sem eltu hana og seldu myndir í slúðurblöð. Allt í einu var hún orðin stórstjarna í Tékklandi og það gat reynst lýjandi að sinna öllum aðdáendunum. „Mér fannst allir vilja eitthvað frá mér. Ég var farin að missa röddina vegna þess að ég var talandi allan daginn. Ég reyndi að sinna fólki eins vel og ég gat en ég var orðin dauðþreytt.“ Hún segir þó að heilt yfir hafi þessi reynsla verið jákvæð og með tíð og tíma lærði hún að takast á við frægðina.

Leitaði að guði

Samstarf Marketu og Glens var ekki bundið við kvikmyndina Once. Þau spiluðu saman í hljómsveitinni The Swell Season ásamt öðrum hljómsveitarmeðlimum úr The Frames. Marketa flutti til Dublin þar sem sveitin hafði bækistöð en annars voru þau á stöðugu tónleikaferðalagi um heiminn. Óskarinn opnaði ýmsar dyr fyrir þau. Þau komu fram í The Simpsons og áttu lög í ýmsum kvikmyndum og þáttum. Einnig var settur upp Broadway-söngleikur byggður á Once.

Eftir tvö ár var vildi Glen taka árs hlé frá The Swell Season og Marketa vissi þá að hljómsveitin myndi ekki koma saman aftur. Hún varð þá að ákveða hvort hún ætlaði að halda áfram í tónlistargeiranum. Hún flutti til New York og ákvað að skapa sína eigin tónlist en í samvinnu við Aida Shahghasemi, slagverksleikara frá Íran, og úr varð platan Anar.

Tónlist þín er svolítið trúarleg.

„Foreldrar mínir eru ekki trúaðir og ég fékk ekki trúarlegt uppeldi. Þegar ég var lítil fann ég samt þörf fyrir eitthvað slíkt. Ég sá söngleikinn Jesus Christ Superstar í sjónvarpinu og varð algerlega hugfanginn af honum. Mér fannst þessi hippi sem lék Jesú svo fallegur og ég þóttist oft vera María Magðalena. Ég vissi ekkert um kristna trú en ég heyrði trúfestuna í tónlistinni. Þegar ég flutti til Írlands var ég mjög leitandi í trúmálum og las mikið um þessi mál. Ég fann að ég trúði á guð en ekki þann guð sem aðrir voru að tala um. Ég hef gaman af því að skilja þetta ekki allt saman en held alltaf áfram að leita. Þessi leit hefur mikil áhrif á textana mína.“

„Eftir viku sá ég að ég var pottþétt orðin ástfangin af honum“

Mætti ekki í flugið heim

The Swell Season lauk sínu hinsta tónleikaferðalagi með tónleikum á NASA í október árið 2010. Marketa segir að landið hafi strax haft einhver áhrif á sig, að það væri öðruvísi en aðrir staðir á tónleikaferðalaginu. Hún hugsaði strax um að reyna að komast aftur til Íslands og taka upp plötu. Þegar þýskur vinur hennar stakk upp á upptökuverinu Gróðurhúsinu til að taka upp sá hún þetta sem merki og stökk á tækifærið. Hér tók hún upp plötuna Muna með upptökustjóranum Sturlu Míó Þórissyni, verðandi eiginmanni hennar.

Neistaði strax á milli ykkar?

„Já, en ég hef fundið það áður, að slík tilfinning getur komið upp þegar maður er að skapa eitthvað með öðrum. Það er eins og sálirnar geti eitthvað af sér í einhvers konar dansi sköpunar og þær tilfinningar eru mjög líkar ást. Þegar ég og Míó vorum að búa til plötuna hélt ég að þær tilfinningar sem ég fann væru aðeins þetta.“

En þegar upptökum var lokið vildi hún ekki fara aftur heim til New York. Sturla Míó bauð henni að vera lengur, kynnast landinu aðeins betur og syngja inn á aðra plötu sem hann var að taka upp.

„Mér fannst frábært að hafa ástæðu til að vera lengur og mætti ekki í flugið mitt. Eftir viku sá ég að ég var pottþétt orðin ástfangin af honum.“

„Ef ég fæ allt í einu hugmynd um miðja nótt sem mig langar að útfæra get ég komið strax hingað.“
Opnuðu upptökuver „Ef ég fæ allt í einu hugmynd um miðja nótt sem mig langar að útfæra get ég komið strax hingað.“

Mynd: Sigtryggur Ari

Líður ekki eins og útlendingi

Marketa er nú með sitt þriðja barn undir belti og er einnig að vinna að nýrri plötu með Sturlu Míó. Hún segir að sú plata fjalli um ástina en ekki í hefðbundnum skilningi þess orðs. „Þegar söngvarar syngja um ástina fara þeir ekki nógu djúpt ofan í hugtakið fyrir mig. Þegar ég hef upplifað ást hefur hún breytt mér sem persónu og eflt. Ég kemst innan í kjarnann og verð betri útgáfa af sjálfri mér.“

Er aldrei erfitt að vinna svo náið með maka sínum?

„Nei, ekki með honum. Hann er ekki bara tæknilega mjög góður upptökustjóri heldur hefur hann mikla næmni á hvað mig vantar og er oft búinn að laga hluti áður en ég næ að biðja um þá. Hann er alltaf að fylgjast með. En við þurfum að hugsa um að gefa hvort öðru pláss líka.“

Marketa og Míó opnuðu upptökuver sitt, Masterkey Studios, 6. janúar 2018. Þau höfðu þá unnið hörðum höndum að byggingu þess í yfir tvö ár en á sama tíma unnið saman að tónlist fyrir hljómplötur annarra tónlistarmanna, kvikmyndir og stuttmyndir.

Þau höfðu stefnt að því að eignast sitt eigið upptökuver í þrjú ár áður en þau fundu loks hið fullkomna hús á Seltjarnarnesi. „Þetta gefur okkur mikið frelsi til að skapa í afslöppuðu umhverfi. Ef ég fæ allt í einu hugmynd um miðja nótt sem mig langar að útfæra get ég komið strax hingað.“ Auk þess að vinna að plötunni er Marketa að vinna að tónlist fyrir leikrit í Þjóðleikhúsinu og í New York. „Það er nóg að gera og svo gaman að mæta í vinnuna.“

Er íslenska fjölskyldulífið ekki mikil viðbrigði frá Hollywood og tónleikaferðalögum um heiminn?

„Jú, en ég er mjög ánægð með líf mitt núna. Í Hollywood þarf maður sífellt að berjast við að halda sér sýnilegum og álagið er mikið. Ég er búin að festa rætur og er á þeim stað sem ég vil vera. Ég hef einhverja tengingu við Ísland og líður ekki eins og ég sé útlendingur. Kannski bjó ég hér í fyrra lífi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Gísla Martein hafa gert ósmekklegt grín að konunni sem steig fram í síðustu viku

Segir Gísla Martein hafa gert ósmekklegt grín að konunni sem steig fram í síðustu viku
Fókus
Fyrir 2 dögum

Móðir hundskammaði son sinn og dró hann úr röðinni fyrir kynlífsmaraþon Bonnie Blue

Móðir hundskammaði son sinn og dró hann úr röðinni fyrir kynlífsmaraþon Bonnie Blue
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ótrúleg breyting á leikaranum: „Ég er á hápunktinum núna“ – Svona lítur hann út í dag

Ótrúleg breyting á leikaranum: „Ég er á hápunktinum núna“ – Svona lítur hann út í dag
Fókus
Fyrir 4 dögum

Svona kúkar maður á Suðurskautslandinu

Svona kúkar maður á Suðurskautslandinu