Sigrún Lilja Guðjónsdóttir, eigandi hönnunarmerkisins Gyðja Collection, hefur getið sér gott orð fyrir vörur sínar, bæði hér heima og erlendis. Í vikunni setti hún nýjustu vöru sína í sölu og þá hefur hún einnig boðið upp á ferðir fyrir konur til Balí og Karíbahafsins sem bjóða upp á sjálfstyrkingu og leiðir til að láta draumana rætast.
„Litla systir“ Sigrúnar Lilju er Dóra Björt, 2. varaþingmaður Pírata í Suðvesturkjördæmi og stjórnarkona í Solaris, hjálparsamtökum fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi. Dóra Björt er heimspekingur og alþjóðafræðingur og stundar núna nám á meistarastigi í alþjóðasamskiptum. Í fyrra bjó hún í Brussel þar sem hún var í starfsnámsstöðu hjá Evrópuþingmanni Pírata, Juliu Reda, á Evrópuþinginu.
Systurnar hafa valið sér gjörólíkan starfsvettvang í lífinu, sem báðir eru þó þess eðlis að þær hafa mikil samskipti við aðra einstaklinga og koma reglulega fram í fjölmiðlum. En þrátt fyrir ólíkan starfsvettvang og sjö ára aldursmun eru þær einstaklega samrýndar og leita oft ráða hjá hvor annarri.