Fjölmiðlafólk rifjar upp erfið og furðuleg mál
Fjölmiðlafólk á Íslandi starfar á fjölbreyttum vettvangi og enginn dagur er eins. Málin sem tekin eru til umfjöllunar eru jafn mismunandi og þau eru mörg og snerta allt litróf mannlífsins. Á sama tíma þrengir stöðugt að starfsumhverfi fjölmiðla á Íslandi, starfsöryggið er lítið sem ekkert, samkeppnin yfirdrifin og vinnutíminn allt annað en fjölskylduvænn. Persónuárásir og hótanir um málsóknir eru daglegt brauð. Það er því óhætt að fullyrða að flestir þeir sem kjósa að starfa á vettvangi fjölmiðla eru fyrst og fremst drifnir áfram af hugsjón.
Í seinasta tölublaði DV voru nokkrir af þekktustu lögfræðingum landsins beðnir um að rifja upp eftirminnilegar sögur af ferlinum. Í þetta sinn leitaði DV til valinkunnra einstaklinga úr fjölmiðlastétt og kennir þar ýmissa grasa.
Erfiðasta/átakanlegasta málið sem þú hefur fjallað um?
„Þegar ég gerði úttekt á Guðmundar og Geirfinnsmálunum árið 2011. Ég varð hreinlega heltekin. Það sem var erfiðast í þessu öllu saman var að skynja allan þennan sársauka og sorg. Ég held að þú þyrftir að vera ómennskur til að taka þetta ekki inn á þig og réttlætiskenndinni var illilega misboðið. Þetta er auðvitað ekkert annað en mannlegur harmleikur. Seinasta haust, þegar ég síðan gerði sjónvarpsþátt um rangar sakargiftir Erlu Bolladóttur, þá upplifði ég þetta aftur. Þetta mál snýst um svo miklu meira en þessi tvö mannshvörf.“
Manstu eftir einhverri eftirminnilegri/vandræðalegri/furðulegri uppákomu sem þú hefur lent í, til dæmis í beinni útsendingu eða á vettvangi fréttaflutnings?
„Ójá! Fyrsta sumarið mitt í fréttamennsku fékk ég það verkefni að skrifa frétt úr Morgunblaðinu sem ég átti síðan að flytja í síðdegisfréttatímanum á laugardegi. Ég náði ekki að klára að skrifa fréttina, hafði aldrei verið blaðlaus í beinni og ætlaði að reyna að klóra mig fram úr þessu með því að semja fréttina í útsendingunni. Þegar ég var komin inn í hljóðverið þá gjörsamlega fraus ég. Ég vissi ekkert hvað ég átti að segja heldur stundi og blés eins og búrhvalur. Í beinni útsendingu! Þetta er án efa eitt hræðilegasta augnablikið sem ég man eftir og ég var gjörsamlega eyðilögð. Ég þakka bara fyrir að þetta fór ekki á flug á netinu, sem betur fer var þetta fyrir þann tíma. En samt þykir mér svolítið vænt um þetta móment þegar ég horfi til baka þar sem þetta kenndi mér að það er nú bara eðlilegt að gera mistök.“