Mark Salling svipti sig lífi
Lík bandaríska leikarans Mark Salling, sem svipti sig lífi í vikunni, fannst í skóglendi skammt frá Los Angeles á þriðjudag.
Tilviljun réði því að yfirvöld fundu líkið en lögregla var á svæðinu í öðrum erindagjörðum. Eftir að hafa slegið bílnúmeri á svæðinu upp í gagnagrunni lögreglu kom í ljós að eigandi bifreiðarinnar var Salling, en lögregla hafði lýst eftir honum skömmu síðar eftir að aðstandendur fóru að óttast um hann.
Þegar lögregla fór að grennslast um á svæðinu fundu þau lík Salling sem hafði hengt sig í tré skammt frá.
Salling, sem var 35 ára, er einna best þekktur fyrir leik sinn í þáttunum Glee sem nutu mikilla vinsælda fyrir nokkrum árum. Hann átti yfir höfði sér fangelsisdóm eftir að myndefni, sem sýndi börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt, fannst í tölvu hans.
Salling var ákærður í kjölfarið og átti að kveða upp dóm í málinu í mars næstkomandi. Hann hafði játað sök og átti yfir höfði sér fjögurra til sjö ára fangelsisdóm. Þá hefði hann þurft að vera á skrá fyrir dæmda kynferðisbrotamenn næstu tuttugu árin.