Brautryðjandi í lyftingum – Fæddist fjórar merkur – Upp á land eftir gos – Gagnrýndur fyrir ræðu
Skúli Óskarsson var nýverið tekinn inn í heiðurshöll ÍSÍ fyrir árangur sinn sem kraftlyftingamaður á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Hann var þá með þekktustu mönnum landsins, ekki aðeins fyrir fítonskraftinn heldur einnig litríkan persónuleika. Skúli dró sig í hlé og hleypti kraftajötnum á borð við Jón Pál Sigmarsson og Magnús Ver Magnússon inn í sviðsljósið en í heimi lyftinga er Skúli talinn brautryðjandi. Kristinn Haukur hitti Skúla í Salalauginni í Kópavogi þar sem hann æfir daglega og ræddi við hann um æskuna, lyftingaferilinn og erfitt mál sem kom upp eftir þakkarræðuna hjá ÍSÍ.
„Ég kem hingað og æfi á hverjum degi að fyrirskipun læknisins. Sem er gott því staðurinn er eins og félagsheimili. Hingað mætum við eldri mennirnir og grobbum okkur.“ Fyrir þremur árum fékk Skúli alvarlegt heilablóðfall og hjartaáfall sem olli því að hann á erfitt með sjón og að halda jafnvægi. Hann var virkilega hætt kominn en sem betur fer var hann á Landspítalanum þegar hann fékk áfallið. „Ég var á réttum stað. Annars væri ég ekki hér,“ segir Skúli. „Ég segi söguna þannig að ég hafi ætlað að skreppa yfir og hitta Jón Pál. En þá sá ég Jesú og þennan svarta með hornin sem ætluðu að ná mér en ég var svo fljótur og hljóp hingað til baka aftur.“
Skúli er hættur að vinna, keyrir ekki og á erfitt með heimilisverk en hann hefur ekki tapað gleðinni eða kímnigáfunni. Hann er enn sama persónan og Íslendingar kynntust í Sjónvarpinu hjá Hemma Gunn og Ómari Ragnarssyni. Eldra fólkið í Salalaug heilsar upp á hann, óskar honum gleðilegs nýs árs og til hamingju með nýja heiðurinn.
Þú varst frægur maður á Íslandi?
„Ég var nokkuð vel þekktur. Nú er ég aðallega frægur á elliheimilunum,“ segir Skúli og hlær.
Skúli er Austfirðingur og hálfur Færeyingur, fæddur á Fáskrúðsfirði árið 1948. Móðir hans kom hingað ung frá Færeyjum og starfaði sem húsmóðir en faðir hans fiskmatsmaður.
Hvað áttu mörg systkini?
„Þau eru svo mörg að ég man ekki töluna, átta eða níu, en ég og Sigurþór erum tvíburar.“ Fæstir myndu þó trúa því vegna þess að þeir eru eins og nótt og dagur að sögn Skúla. „Ég fæddist fjórar merkur en hann þrettán. Þetta var vegna þess að ég lá bak við fylgjuna, hélt í tána á Sigurþóri – hlýtur að vera, og dróst með. Hann át allt frá mér.“
Var þetta hættuleg fæðing?
„Nei, þetta var góð fæðing. Það átti samt ábyggilega að henda mér með fylgjunni en það sást einhver öldugangur sem reyndist vera ég.“ Skúli hefur alltaf verið lágvaxinn og tók út vöxt seinna en jafnaldrar hans.
Hvernig barn varst þú?
„Ég hlýt að hafa verið óþægur. En þegar ég var mjög lítill var ég þægur því ég var með svo óþroskuð lungu að ég blánaði þegar ég ætlaði að fara að rífa mig. Ég var ári á eftir með allt vegna smæðarinnar. En ég var snöggur að hlaupa.“
„Í dag væri þetta kallað einelti. En þá var þetta kallað stríðni og maður átti bara að höndla það sem ég gerði“
Var þér strítt í skóla?
„Já, auðvitað var manni strítt. Þessi áratugur var fullur af fordómum. Í dag væri þetta kallað einelti. En þá var þetta kallað stríðni og maður átti bara að höndla það sem ég gerði. Þei r gerðu grín að mér fyrir smæðina og tóku mig í gegn. En ég var svo fljótur að ég gat yfirleitt hlaupið í burtu.“
Skólagöngunni lauk eftir barnaskólann og þá tók heimur hins vinnandi manns við. „Ég var sendur í sveit, það var ekki hægt að nota mig í annað. Sigurþór fór á sjóinn af því að hann var svo stór og sterkur en það vildi mig enginn. Ég prófaði tvisvar sinnum að fara á sjóinn en ég gafst strax upp. Ég var sjóveikur og ældi eins og múkki.“ Skúli var vinnumaður á bænum Litlu Breiðuvík við Reyðarfjörð.
Hvernig var sú vist?
„Hún var fín. Ég lærði þar að vinna, sem ég gat notað seinna.“
Eftir það var Skúli á vertíðum og bjó um tíma hjá Sigurþóri bróður sínum í Vestmannaeyjum. Hann var í Eyjum í janúar árið 1973 þegar gosið hófst. Hann minnist þess með skelfingu. „Þetta var alveg hræðilegt. Ef bátarnir hefðu ekki verið inni vegna brælu þá held ég að geðsjúkrahúsin væru ábyggilega full af fólki og ég með því. Fólk var að missa heimili sín og sjá ævistarf sitt fara undir hraun. Það á enginn að sjá svona lagað. Ég hef aldrei upplifað stríð en þetta var sennilega eitthvað nálægt því.“
Hann fór í land en kom strax aftur og tók þátt í björgunaraðgerðunum. Þá sá hann ótrúlega en jafnframt ógnvænlega sjón. „Ég man sérstaklega eftir einu atviki þar sem steinn kom fljúgandi úr loftinu, glóandi eins og stjarna, og lenti á höfðinu á manni en sem betur fer var hann með hjálm því annars hefði farið verr. Ég vann þarna eitt kvöld og á það enn inni. En ég ætla ekki að rukka það.“ Eftir gosið flutti Skúli alfarinn upp á land en þá var hann kominn á fullt í lyftingarnar.
Skúli segist hafa farið að grípa í lóð árið 1968 eða 1969. „Þá sá ég brautryðjendur í lyftingum í sjónvarpinu og féll fyrir þessu; Guðmund Sigurðsson, Svavar Carlsen og Björn Ingvarsson, kallaðan Bubba kóng. Þegar ég fann að ég gat eitthvað þá efldist áhuginn til muna. Ég fann að fólk var að fylgjast með mér og það nægði mér.“ Hann segir að á þessum árum hafi foreldrar ekki hvatt börnin sín áfram til íþróttaiðkunar. „Maður átti að vera að vinna en ekki að leika sér, en þetta var enginn leikur.“
Alla tíð vann hann samhliða lyftingunum, í frystihúsum, síldarplönum og víðar. Hann keppti á sínu fyrsta alvöru móti í ólympískum lyftingum árið 1970 og byrjaði strax að setja Íslandsmet. Seinna meiddist hann á öxl í slysi og skipti þá yfir í kraftlyftingar.
Var samkeppnin hörð?
„Já, hún var mjög hörð. Ég man eftir strákum sem komu að æfa sem voru svo öflugir að það lá við að liði yfir mig við að sjá þá, agaleg tröll. En það segir ekki allt, því þó að líkaminn hafi verið í lagi þá var peran í hausnum bara ekki nógu björt og þeir heltust úr lestinni. Maður verður að hafa viljann og ánægjuna af þessu og gera þetta af heilum hug.“
Veistu hvað þú settir mörg Íslandsmet?
„Nei, en ég man að ég setti fimmtán Norðurlandamet. Einu minna en einn Norðmaður sem ég var að kljást við.“ Skúli keppti í fyrsta skipti erlendis árið 1975, í Birmingham í Englandi. „Þetta virkar eins og grobb en þetta er bara staðreynd. Ég var fyrstur kraftlyftingamanna til að koma okkur á blað.“
„Þetta virkar eins og grobb en þetta er bara staðreynd. Ég var fyrstur kraftlyftingamanna til að koma okkur á blað“
Er verðlaunaskápurinn þá ekki bólginn?
„Nei, en hann er ágætur. Reglunum var breytt þegar ég hætti og þá verðlaunað fyrir hverja grein. Áður þurfti maður að vinna allar þrjár greinarnar til að fá verðlaun en nú getur maður fengið fern verðlaun í hverri keppni. Ég ætti þá ábyggilega aðra íbúð fulla af verðlaunum, nóg að þurrka af. Ég nenni því ekki.“
Árið 1980 komst hann í sögubækurnar þegar hann varð fyrstur Íslendinga til að setja heimsmet í almennt viðurkenndri íþróttagrein. Þá lyfti hann 315,15 kílógrömmum í réttstöðu. Skúli segist reyndar áður hafa sett heimsmet í hnébeygjum en var það dæmt ógilt. „Það skildi enginn af hverju. Mér var sagt að kæra þetta en ég vildi hafa dómarana með mér.“
Hafðir þú alltaf trú á að þú gætir sett heimsmet?
„Nei, ekki fyrr en ég fór að nálgast það.“
Skúli var þekktur fyrir hnyttin tilsvör og líflega framkomu bæði í viðtölum og á mótum. Hikaði hann þá ekki við að hrópa til áhorfenda og gantast við þá. „Mér þótti mjög vænt um það þegar Ómar Ragnarsson sagði að ég hefði breytt ímynd kraftamanna með kímni og léttleika. En hinir væru svo þungir, eins og þeir væru að fara að grafa félaga sinn.“ Sagt var að framkoma og árangur Skúla hafi hrundið af stað kraftaíþróttabylgju hér á landi.
Hefur þú alltaf verið svona hress?
„Já. En eins og einhver skrifaði um daginn: Verst hvað hann er helvíti stríðinn. Það hefur bara aukist með árunum, allavega ekki minnkað.“ Skúli segist þó aldrei vera illgjarn eða rætinn. Allt sé þetta í góðu glensi. „Ég átti það til að koma með yfirlýsingar sem vöktu athygli en ég stóð alltaf við þær. Til dæmis á Norðurlandamótinu 1969 þegar ég sagði að mótherji minn yrði blár áður en hann næði að vinna mig. Hann varð blár en ég vann náttúrlega.“
Var þetta sálfræðihernaður?
„Nei, þetta bara kom.“
Í myndbandsupptökum af heimsmetinu sést Skúli stökkva byltu aftur á bak. „Allt sem ég gerði og sagði kom bara, það var enginn leikaraskapur. Ég réð ekkert við þetta. En stökkið mislukkaðist aðeins hjá mér vegna axlarinnar. Annars hefði þetta orðið flottara.“
Kom þetta einhvern tímann í bakið á þér?
„Eins og aðrir þekktir var ég mikið á milli tannanna á fólki og ég heyrði ýmsa hluti um mig, bæði góða og slæma. Ef ég heyrði slæma hluti um mig þá setti ég upp grímu.“
Á þessum tíma voru lyftingar hrein áhugamennska og litlir sem engir peningar í spilinu. En æfingar og ferðalög til Indlands og víðar kostuðu sitt.
Hvernig fjármagnaðir þú þetta?
„Ég get ekki verið svo mikill dóni að segja að mér hafi aldrei verið hjálpað og safnað fyrir mig, en yfirleitt kom þetta úr eigin vasa. Menn endast lengur í kraftasporti í dag vegna þess að þeir fá greitt fyrir. Á áttunda og níunda áratugnum gátu menn hætt hvenær sem var vegna þess að það voru engir peningar, þetta skipti ekki jafn miklu máli.“
Skúli telur að margir úr lyftingunum hafi farið yfir í keppnir á borð við Sterkasta mann heims vegna þeirra peningaverðlauna sem þar voru í boði. „En svo held ég að sumir hafi farið þegar þeir sáu sæng sína útbreidda í kraftlyftingum.“
Er það ekki jafn mikil íþrótt?
„Jú, þetta er heilmikil íþrótt og ég hafði gaman af því að horfa á þetta. En þetta er ekki fyrir litla menn og ég vissi að ég hefði ekkert í þetta að gera.“
Hvað borðuðu lyftingamenn á þessum tíma?
„Allt sem hreyfðist. Mataræðið var ekki eins útpælt og það er í dag og ég held að það hafi verið rétt. Sjáðu þetta ofurfæði í dag. Menn eru að hrapa steindauðir niður kornungir, feitir eða mjóir. En gömlu brýnin hanga uppi í allri sinni óhollustu.“
Voru sterar þá komnir til sögunnar?
„Fyrstu íslensku íþróttamennirnir notuðu stera árið 1950, í frjálsum íþróttum. Svo kom þetta auðvitað í lyftingarnar hérlendis líkt og annars staðar. Í dag eru mjög margir af þeim bestu í þessu. Bilið milli íþróttamanna hefur minnkað vegna þessara efna.“
Skúli segir mikla hræsni í gangi í umræðunni um steranotkun. „Við erum að banna Rússum að vera með vegna lyfjanotkunar en eru Bandaríkjamenn eitthvað betri? Þeir eru bara með betri lækna. Það er hræðilegt að horfa upp á þetta. Það átti bara að leyfa þetta át og svo réðu menn hvort þeir drápu sig á þessu eða ekki. Fyrir nokkrum árum mátti ekki tala um þetta en það vita þetta allir í dag. Ef maður myndi neita einhverju svona þá yrði maður uppvís að lygi. Ég nenni ekki að fá svoleiðis í andlitið.“
Sjálfur segist Skúli hafa verið þeim hæfileikum gæddur að geta gert sig vel æstan fyrir keppni. „Ég gat tínt mig rosalega saman til að ná adrenalíninu upp. Þetta virkaði eins og maður væri búinn að taka inn amfetamín. Ég varð allur stærri og tárin runnu. En mér leið vel og gat yfirleitt lyft því sem ég reyndi við. Þá sagði einhver að norðan: Það á ekki að hleypa þessu dópaða kvikindi inn í Sjónvarpið.“
Heimildamyndin Reynir sterki eftir Baldvin Z var frumsýnd á þessu ári og sáu margir Íslendingar hana í Ríkissjónvarpinu um jólin. Myndin fjallar um Reyni Örn Leósson sem var hafði óútskýrðan fítonskraft, komst í heimsmetabækur og lést langt fyrir aldur fram árið 1982. Skúli segist ekki hafa þekkt Reyni en setið með honum í bíl einu sinni.
Veistu hvernig hann gat lyft vörubifreiðum, slitið handjárn og keðjur?
„Ég held að það hafi verið einhver andlegur kraftur þarna að baki eins og hann sagði sjálfur. Því ég veit að hann sjálfur var ekki sterkur en hann gerði þessa hluti, það er ekki hægt að neita því. Ég horfi öðruvísi á þetta í dag en ég gerði þegar ég var yngri. Þá fannst mér þetta vera eintómt blöff. En hann keppti aldrei. Hann sagðist hafa hitt Jesú sem hafi sagt honum að hann mætti ekki keppa við dauðlega menn.“
Ert þú trúaður?
„Það er að byrja. Ég er búinn að sjá svo margt og heyra að ég ætla að hafa það sem varnagla. Ég var trúaður þegar ég var yngri en ekki síðustu ár.“
Hefði hann sigrað ykkur lyftingamennina í keppni?
„Miðað við þetta. En hann gat greinilega ekki notað kraftinn í það. Hann var kallaður sterkasti maður í heimi en var ekki nema 75 kílóa tittur, svipaður og ég. Ég skildi ekki hvað lá þarna að baki. Eins og til dæmis þegar sitt hvor höndin var toguð með krók, þetta virtist svo heimskulegt. Hann var hlekkur og hinir að tosa á móti hvor öðrum. Sjónvarpsmaður sagði mér að þegar slökkt var á myndavélunum hafi hann farið í venjulegan krók við einn og verið dreginn út um allt herbergið því þá hafði hann ekki mótstöðu. En þetta var stórmerkilegur maður, hann lét bara plata sig og var ekki nógu skynsamur með þetta.“
Skúli var tvívegis kjörinn íþróttamaður ársins, árin 1978 og eftir heimsmetið 1980. Er hann eini lyftingamaðurinn sem hefur unnið þann titil fyrir utan Jón Pál sem vann árið 1981.
Var titillinn jafn mikið þrætuepli í samfélaginu þá og hann er nú?
„Það hefur alltaf verið rifist um þennan titil og allt í lagi að fólk hafi sínar skoðanir á þessu.“ Sjálfur segist hann mjög ánægður með að hafa unnið sína titla, ekki aðeins fyrir sig sjálfan heldur greinina alla.
„Ég var ekki að gera lítið úr fötluðu fólki og ég meinti þetta vel. Sjálfur er ég orðinn fatlaður“
Sjálfur hefur Skúli skoðanir á framkvæmd kjörsins og viðraði þær í þakkarræðu hjá ÍSÍ á dögunum þegar hann var tekinn inn í heiðurshöllina. Þá sagði hann sína skoðun á því að fatlaðir íþróttamenn ættu ekki að vera í því kjöri og uppskar reiði sumra. „Ég gerði skissu að koma ekki með neinar röksemdir fyrir þessu í ræðunni. Fatlaðir hafa aldrei unnið titilinn þrátt fyrir frábæran árangur og það gerði mig reiðan. Þeir setja heimsmet og vinna titla í sínum flokkum. En það eru til svo margir fötlunarflokkar að ógerningur er að dæma um hver sé bestur. Því ættu þeir að hafa sín eigin verðlaun.“
Hann segist hafa fengið á baukinn fyrir þetta, meðal annars frá nokkrum fötluðum íþróttamönnum. „Einn þeirra sagðist hafa misst álit á mér. Annar að ég ætti ekki að fara upp í ræðupúlt heldur halda mig við lóðin. Mér var sagt að biðja fatlað fólk afsökunar en ég ætla ekkert að gera það. Ég var ekki að gera lítið úr fötluðu fólki og ég meinti þetta vel. Sjálfur er ég orðinn fatlaður. Ég vil ekki eignast neinn óvin en held að ég hafi nú eignast nokkra.“
Finnst þér vera skoðanakúgun hér á landi?
„Já, hún er töluverð. Enginn má segja neitt, þá er hann tekinn í nefið. Fólk getur látið út úr sér alveg hroðalega hluti á netinu. Til dæmis eftir að Geir Þorsteinsson lýsti skoðun sinni á valinu á íþróttamanni ársins. Það á enginn að hafa leyfi til þess að kalla einhvern drullusokk þótt hann lýsi skoðunum sínum.“ Við lok viðtalsins rekumst við Skúli einmitt á téðan Geir sem óskar Skúla til hamingju með heiðurinn.
Skúli lagði lóðin á hilluna árið 1982 og þá tók fjölskyldulífið við. Hann vann sem næturvörður hjá Hagkaupum og sem húsvörður hjá Landsbankanum. Hann kynntist eiginkonu sinni, Hrönn Ingibergsdóttur, árið 1980 og á hann eina ættleidda dóttur og tvær stjúpdætur. Ættleidda dóttir hans er þekktur kjólahönnuður, Sara María Skúladóttir, og maður hennar er Úlfur Eldjárn tónlistarmaður. „Ég var heppinn, bæði með sportið og fjölskylduna. Ég á góða konu, góð börn og barnabörn. Þetta er allt í þessu fína lagi og ekkert vesen. Með góðan feril og orðuveitingar að baki. Getur maður beðið um eitthvað meira? Það held ég ekki.“