Jakkinn hefur komið ríkulega við sögu í lífi Almars
Almar Atlason, sem varð þjóðþekktur fyrir tveimur árum þegar hann varði viku nakinn í kassa, leitar logandi ljósi að leðurjakkanum sínum. Hann segir á Facebook-síðu sinni að jakkanum hafi verið stolið á skemmtistaðnum Húrra um miðjan mánuð. Almar og jakkinn, sem er svartur mótorhjólajakki, eiga sér saman langa sögu og vonar hann að þeirri sögu ljúki ekki nú.
„Þessi jakki hefur fylgt mér nánast hálfa ævina. Ég var í þessum jakka þegar mamma hjólaði fram hjá mér 13 ára að spreyja anarkistamerki á rafmagnskassa í Elliðaárdalnum (þar lauk graffiti-ferli mínum sama dag og hann byrjaði). Ég var í þessum jakka þegar ég fór fyrst heim með stelpu. Ég var í þessum jakka þegar ég fattaði að AC DC hefði aldrei hætt að vera uppáhalds hljómsveitin mín og ég var í þessum jakka þegar Sigurgeir skildi við eiginkonuna mína. Ég var í þessum jakka þegar Bubbi Morthens sagði mér að fara í meðferð á Ísafirði og ég var í þessum jakka þegar ég fór í meðferð 3 árum seinna,“ segir Almar.
Almar segir að hafi einhver tekið jakkann í misgripum þá væri hann mjög þakklátur ef viðkomandi skilaði honum. Hafi einhver stolið jakkanum þá er sverði hans að mæta. „Ef þið tókuð hann í misgripum er það ekkert stress en væri yndislegt að fá hann aftur. Ef þið tókuð hann af því hann er geggjað töff er það heldur ekkert mál ef ég má fá hann aftur. En ef ég sé ykkur að sporta uppáhalds leðurjakkanum mínum á götum Reykjavíkur samviskubitslaust, þá er spurning hvort maður dragi fram sverðið, poti létt í öxlina á viðkomandi og segi: „hey, ég held þú sért í jakkanum mínum“,“ segir Almar.