Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sendi starfsfólki Landspítalans kveðju í gegnum SMS þann 27. Desember síðastliðinn, sama dag og fjöldi fólks var fluttur þangað vegna alvarlegs rútuslyss skammt frá Kirkjubæjarklaustri.
Frá þessu greinir Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans, í Morgunblaðinu í dag. Í samtali við blaðið segist Anna ekki reka minni til þess að forseti hafi áður send starfsfólki spítalans svona kveðju. Bætir hún við að Guðni hafi sýnt spítalanum áhuga og velvild síðan hann tók við embætti forseta.
Skilaboðin sem Guðni sendi voru svohljóðandi:
„Sæl Anna Sigrún. Bið þig að koma til skila kærum þökkum til allra sem nú reynir á og standa sig svo vel undir miklu álagi. Bestu kveðjur, Guðni (forseti).“
Anna Sigrún segir að SMS-skeytið hafi verið lesið upp fyrir starfsfólk á jólaboði spítalans. „Þessu var afskaplega vel tekið og allir mjög glaðir með þetta.“