fbpx
Laugardagur 30.nóvember 2024
Fókus

„Ég skynjaði bara doða hjá bændum“

Oddný Steina Valsdóttir er formaður Landssamtaka sauðfjárbænda – Lækkun á afurðaverði grafalvarleg – Bændur gætu orðið launalausir að óbreyttu

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 3. september 2017 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Verði ekkert að gert stendur fjöldi sauðfjárbænda frammi fyrir því að verða launlaus fyrir störf sín á komandi hausti. Boðuð verðlækkun afurðastöðva í landinu, allt upp í 36 prósenta lækkun frá fyrra ári, þýðir 56 prósenta tekjuskerðingu fyrir bændur og ekki er af neinu að taka öðru en launum bænda sem þegar hafa lagt út fyrir öðrum þáttum. Bændur hafa átt í samræðum við stjórnvöld í allt sumar og reynt að benda á alvarleika málsins en hafa, að því er þeim sjálfum finnst, talað fyrir daufum eyrum. Nú eru haustverk að skella á, bændur eru þegar farnir að senda lömb í slátrun og tími til að grípa til aðgerða er verulega naumur. Veruleg hætta er á að fjöldi sauðfjárbænda bregði búi, mismikið tilneyddir, sem leiða mun af sér tilheyrandi byggðaröskun og hættu á að heilu samfélögin fari á hliðina.

Í auga stormsins stendur Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda og sauðfjárbóndi í Butru í Fljótshlíð. Oddný Steina var kjörin formaður landssamtakanna, fyrst kvenna, í mars á þessu ári og hefur sannarlega haft vindinn í fangið síðan.

Búskapurinn togaði

Oddný Steina er fædd árið 1980 og ólst upp í Úthlíð í Skaftártungu, þar sem foreldrar hennar bjuggu blönduðu búi með kindur og kýr. Líkt og venjan er gekk hún til allra verka með foreldrum sínum frá því hún hafði aldur til. Hún er ein fimm systkina og stunda systur hennar tvær einnig búskap á Suðurlandi en bræðurnir tveir búa í Reykjavík. Hún segir að strax hafi blundað í sér bóndi, eins og í svo mörgum börnum sem alin eru upp í sveit. „Já, ég hafði svo sem áhuga á mörgu og það hefði ýmislegt annað komið til greina en þetta einhvern veginn togar alltaf.“

„Það er vissulega von á einhverjum tillögum frá ráðherra en ég sé mjög eftir þeim tíma sem verið hefur sóað.“

Oddný sótti framhaldsskóla á Skógum fyrstu tvö árin sín en kláraði síðan stúdentspróf frá Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi og fór strax sumarið eftir í verknám á Fagranesi í Aðaldal áður en hún hóf nám í bændadeild á Hvanneyri. Hún kláraði síðan kandídatsnám í búvísindum frá sama skóla. Þar kynntist hún manni sínum, Ágústi Jenssyni, bóndasyni frá Teigi í Fljótshlíð. Þegar þau voru á lokametrunum í náminu bauðst þeim tækifæri til að hefja búskap og stukku á það. „Nágranni Ágústs í Fljótshlíðinni bauð okkur að taka við búskap í Butru. Við slógum til, enda var þetta það sem við vildum gera. Við tókum síðan við búinu áramótin 2004–2005. Þá voru þar eitthvað um 150 kindur á vetrarfóðrum. Við tókum við og fórum strax að huga að því að byggja upp, hægt og rólega þó. Við höfum síðan fjölgað fénu jafnt og þétt og erum nú með um 500 kindur á fóðrum. Við fórum líka strax út í nautaeldi og innréttuðum gamalt fjós til þess. Það var húsakostur á jörðinni sem hægt var að nýta í eitt og annað og við gerðum það. Við höfum síðan byggt upp fjárhús, hófumst handa við það 2013 og það tók okkur tvö ár að klára það en það hafðist allt. Við höfum líka aukið ræktunarlandið.“

Félagshyggja í verki

Þið eruð 24 og 25 ára, komið beint úr skóla og hellið ykkur út í þennan atvinnurekstur með öllu tilheyrandi. Það er nú meira en að segja það, eða hvað?
„Já, það er það svo sem en við vorum svo fram úr hófi bjartsýn að við kýldum bara á þetta. Við fengum jörðina leigða og það hjálpaði auðvitað að þurfa bara að kaupa reksturinn. Þetta gekk bara vel, við helltum okkur ekki út í stórar skuldir og gerðum það sem gera þurfti hægt og bítandi, mikið sjálf. Þannig að það gekk bara vel en þetta var auðvitað alveg botnlaus vinna. Við gerðum þetta skynsamlega og vorum ekkert að velta fyrir okkur erfiðleikum. Þegar maður fer út í búskap og þá er maður ekkert að spá í að það sé mikil vinna, sjálfsagt er það eins og þegar fólk fer í annan fyrirtækjarekstur. Þú ert kannski ekkert að bera þig saman við allt og alla í kringum þig.“

Er ekki óþægilegt að eiga ekki jörðina sem þið búið á, að eiga ekki framleiðslutækin?
„Almennt getur það verið óþægileg staða fyrir fólk að vera leiguliðar. Tilvera þín veltur dálítið mikið á geðþótta landeiganda hverju sinni. Í okkar tilliti var landeigandinn fullorðinn maður sem var þeirrar skoðunar að þyki mönnum vænt um sína sveit þá hljóti þeir að vilja að í henni sé rekinn búskapur. Hann bauð okkur því að kaupa reksturinn og hefur reynst okkur mjög vel. Þetta er félagshyggja í verki.“

Greinin verður að standa undir sér

Ungt fólk sem er að fara út í sauðfjárbúskap virðist í miklum mæli vera að koma inn í greinina af einhverri hugsjón, af áhuga og vilja en stundum nærri því gegn betri vitund því afkoman úr greininni hefur ekki verið merkileg, þótt staðan nú sé auðvitað sérlega slæm. Getur þetta gengið til lengdar, getur það gengið að það sé af hugsjón sem fólk fer í sauðfjárbúskap en þarf svo að kljúfa fjárhagslegu hliðina með botnlausri aukavinnu?
„Í okkar tilfelli komum við inn í greinina á nokkuð góðum tíma, hún var að rísa þá. En nei, þetta gengur ekki til lengdar. Greinin þarf að standa undir sér sem slík, fólk verður að geta borgað sér laun og lifað á rekstrinum. Hins vegar er maður kannski til í að leggja eilítið meira á sig til að vera í skemmtilegri vinnu. En maður verður auðvitað að geta borgað skuldir sínar, átt fyrir salti í grautinn og svo framvegis. Ég held að nútímafólk vilji fá meiri frítíma en var, kannski erum við bændur eilítið gamaldags að því leyti. En ég finn það nú eftir því sem börnin eldast þá verður maður að geta leyft þeim slíkt líka. Það verður hins vegar að hugsa sauðfjárræktina sem alvöru atvinnugrein sem gefur mannsæmandi tekjur.“

Er þá komið að þeim tímapunkti núna að það verði að gera eitthvað til að svo geti orðið?
„Það þarf að fara mjög vandlega yfir það hvernig hið opinbera ætlar að horfa til þessara hluta. Ég er sannfærð um að það hefði verið hægt að grípa inn í og koma í veg fyrir það mikla tjón sem staðan nú veldur, það hefði verði hægt. En það var ekkert gert og enginn skilningur mætti okkur í stjórnkerfinu. Alls staðar í löndunum í kringum okkur hefði verið brugðist við. Sauðfjárræktin hefur færst frá því að vera mjög miðstýrð yfir í að vera mjög markaðsvædd. Þess vegna þykir mér rosalega hart að ríkisvaldið sé ekki tilbúið að grípa inn í þegar ytri aðstæður valda því að forsendubrestur verður í atvinnugreininni. Þegar markaðir lokast, Rússland og Noregur, og þegar krónan stendur jafn sterk og raun ber vitni, þá eru það auðvitað aðstæður sem við höfum engin tök á að stýra eða hafa áhrif á. Við getum ekki farið til Pútíns og skipað honum að virða mannréttindi og hætta að hernema landsvæði.“

Vilja að ríkið grípi inn í

En hvað hefði hið opinbera þá átt að gera?
„Við fórum fram á ákveðin inngrip í markaðinn. Við fórum fram á að sett yrði á útflutningsskylda, að afurðastöðvarnar yrðu skyldaðar til að flytja út ákveðið magn af kjöti. Í löndunum í kringum okkur eru til ákveðin sveiflujöfnunartæki og þetta er bara eitt slíkt og hefði ekki kostað ríkið neitt. Önnur leið hefði verið að kaupa upp afurðir á markaði og það hefði til dæmis örugglega verið gert í Evrópusambandinu og í Bandaríkjunum, um slíkt eru mörg dæmi. Mér þótti útflutningsskyldan raunhæfari leið en því miður þá gerðist bara ekki neitt. Mér finnst þetta hart, við erum með mörg lítil fjölskyldufyrirtæki um allt land sem byggja á sauðfjárræktinni en á sama tíma byggja landið.“

Útflutningsskyldu já, en á hvaða markaði? Er það ekki vandamálið að ekki eru til staðar markaðir erlendis sem eru opnir fyrir íslenskar sauðfjárafurðir? Hvert eiga sláturleyfishafar að afsetja þá? Er þetta ekki svolítið ódýrt tal?
„Þótt vandamál sauðfjárræktarinnar sé tengt forsendubresti á útflutningsmörkuðum þá höfum við samt sem áður komið okkur fyrir á mörkuðum sem greiða vel, þrátt fyrir óhagstætt gengi og almenn verðfall. Við þurfum að stækka hlutdeild okkar í slíkum mörkuðum og fjölga þeim. Slík markaðssetning er þolinmæðisverk. Afurðastöðvarnar hefðu þurft að finna út úr því. Þetta hefði ekki tekið af okkur allt höggið, það er ljóst, en ástandið eins og það er núna er að þrýsta öllu verði niður fyrir það sem við getum staðið undir í framleiðslukostnaði, átökin á milli afurðastöðvanna á markaði eru slík. Verð er komið niður fyrir allt vitrænt.“

Oddný Steina segir að það þurfi að draga saman í sauðfjárræktinni.
Þarf að draga saman í greininni Oddný Steina segir að það þurfi að draga saman í sauðfjárræktinni.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Framleiðslan er of mikil

Þótt sauðfjárræktin sé orðin mjög markaðsvædd og ekki miklar hömlur á framleiðslunni þá lifa sauðfjárbændur og greinin auðvitað líka á ríkisstuðningi. Er þetta kerfi sjálfbært, að bændur kaupi sér greiðslumark til að fá ríkisstyrk en sá stuðningur hafi samt sáralítil áhrif á hvernig framleiðslunni er háttað?
„Sjálfbær og ekki sjálfbær, ég veit það ekki alveg. Sauðfjárræktin hefur á síðustu árum þróast yfir í að vera mjög samkeppnishæf á mörkuðum erlendis, en nú erum við að bíta úr nálinni með það að við höfum of mikið treyst á að koma afurðum út á svona afsetningarmarkaði. Þeir markaðir þar sem við höfum verið að koma gæðavörunni okkar út á standa hins vegar sterkir, þeir eru að skila ágætri framlegð í dag. Allt of stór hluti er hins vegar að fara á afsetningarmarkaði sem síðan bregðast og það getur ekki gengið.“

Er ekki staðan sú að hryggir séu nálega búnir á landinu, lítið að verða eftir af lærum og það sem er til í birgðum er fyrst og fremst frampartar og síður. Það er ekki vara sem Íslendingar sækja mikið í eða kaupa dýrum dómum?
„Nei, staðan er sú að það eru kannski ekki óskaplega miklar birgðir í landinu, en staðreyndin er að allt of mikið magn hefur verið selt með tapi og meðal annars þessar vörur.“

En er þetta ekki ósköp einfalt; framleiðslan er einfaldlega of mikil?
„Jú, í þessu ástandi, þegar þessir markaðir lokast. Þegar þeir voru opnir stóðu þeir undir þessari framleiðslu og verð var ásættanlegt. Þegar þeir lokast þá er framleiðslan auðvitað of mikil.“

En þarf ekki að draga saman í framleiðslunni til langframa?
„Jú, og við höfum sagt að svo sé. Við viljum fara í aðgerðir til þess að gefa bændum útleið samhliða því að tekið verði á stöðunni á markaði og hann réttur af. Hinn frjálsi markaður er ágætur en svona gegndarlaus frjálshyggja, að það megi ekki grípa inn í þegar svona kemur upp á, mér finnst það ekki sanngjarnt.“

Hrun hefði áhrif á landsbyggðina alla

Ef hrun yrði í greininni, þá hefði það ekki bara áhrif á sauðfjárbændur heldur á heilu byggðirnar um land allt, ekki satt?
„Jú, og við höfum bent á að það eru mörg samfélög sem treysta á sauðfjárræktina sem atvinnugrein. Á meira en öðru hverju lögbýli sem eru í byggð er stunduð sauðfjárrækt, mismikil auðvitað og það eru ekki allir sem hafa þetta að fullri atvinnu, en þetta er ofboðslega mikilvægur partur af atvinnu í dreifbýli og mikilvægur partur af samfélögum. Í sumum sveitum er það þannig að fari ein eða tvær fjölskyldur þá getur það haft dómínóáhrif. En við vonum auðvitað að svo fari ekki og ég hef mikla trú á bændum, að þeir standi af sér þrengingar. Við hefðum bara viljað ná fram meiri skilningi á því hvernig ástandið er, við höfum verið að benda á það í allt sumar. Það er vissulega von á einhverjum tillögum frá ráðherra en ég sé mjög eftir þeim tíma sem verið hefur sóað.“

56 prósenta tekjuskerðing

Hvað þýðir staðan sem uppi er fyrir venjulegan sauðfjárbónda?
„Staðan er sú að sauðfjárbændur sjá fram á 56 prósenta tekjuskerðingu á þessu ári. Þeir eru búnir að leggja út allan kostnað fyrir löngu, lömbin eru á fjalli og fara í slátrun á næstu vikum, og þessi tekjuskerðing verður hvergi brúuð nema af launaliðnum. Stór hluti bænda verður því launalaus ef ekkert verður að gert. En ekki nóg með það, framleiðsla næsta hausts er hafin. Bændur hafa borið á áburð og aflað heyja fyrir næsta vetur nú þegar og því er búið að leggja út fyrir meginhluta kostnaðarins fyrir haustið 2018. Framleiðsluferlarnir eru langir og það er ekki hægt að skrúfa fyrir eða frá eins og með krana í þessum efnum. Þar að auki ert menn með heimilið, jörðina og oftast kennitöluna undir, auk þess sem þetta hefur áhrif á samfélögin. Svæðið frá Eyjafjöllum, austur um og raunar allt í Þingeyjarsýslur, víða á Norðvesturlandi og Vestfjörðum, þar byggist búskapur fyrst og fremst upp á sauðfjárbúskap.“

„Það verður hins vegar að hugsa sauðfjárræktina sem alvöru atvinnugrein sem gefur mannsæmandi tekjur.“

Mjög þungt í fólki

Þegar afurðastöðvarnar birtu afurðaverð fyrir haustið, allt að 36 prósenta lækkun, hver urðu viðbrögðin? Bjuggust menn ekki við að lækkunin yrði svona gríðarlega skörp?
„Nei, þetta var gríðarlegt áfall og ég skynjaði bara doða hjá bændum fyrsta kastið. Þetta er bara skelfilegt og það er mjög þungt hljóð í fólki.“

Það hefur heyrst að öflugir bændur hyggist slátra öllu sínu fé og hætta. Er það tilfellið, eru bændur að fara að bregða búi í unnvörpum?
„Ég er ekki með heildaryfirsýn yfir það og ég held nú að menn séu að meta stöðuna og vilji sjá hvað komi út úr viðræðum við ríkisvaldið. En það er auðvitað búið að bíða þess lengi.“

En er einhver tími? Bændur eru þegar farnir að slátra og taka ákvarðanir, haustverk eru að hellast yfir. Næst þetta?
„Þetta er auðvitað orðið allt of seint, svo ergilegt sem það er. Stjórnvöld voru, og eru, eini aðilinn sem gat komið að málinu og gripið inn í þetta. Við hefðum auðvitað viljað sjá afurðastöðvarnar taka meiri hluta af högginu á sig en þar á bæ halda menn því fram að þeir séu komnir á endastöð, þær hafi verið reknar með tapi undanfarin ár. Mér finnst samt einhvern veginn að þær ættu, í það minnsta sumar hverjar, að sýna svona aðeins meiri samfélagslega ábyrgð.“

Afurðastöðvar eiga að sýna samfélagslega ábyrgð

Það eru afurðastöðvar starfandi hér á landi sem eru hluti af miklu stærri fyrirtækjarekstri. SS er til að mynda stórt innflutningsfyrirtæki og heildsala, og samvinnufélagið Kaupfélag Skagfirðinga er eitt stærsta fyrirtæki landsins, með sjávarútveg undir, verslun og þjónustu auk slátrunar, kjötvinnslu og sölu. Er eitthvað óeðlilegt við að slík fyrirtæki færi tímabundið fjármuni milli rekstrareininga til að milda svona högg?
„Það þykir mér einmitt ekki, það er bara svoleiðis. Sauðfjárslátrun hefur áður skilað þeim tekjum og mér finnst að til þess beri að líta. Þetta eru fyrirtæki sem skipta samfélög miklu máli, og bændur skipta þau miklu máli á móti. Það má vera að þau hafi gert þetta í einhverjum mæli, ég veit það ekki, en mér þætti mjög eðlilegt að þau tækju ábyrgð í þessari stöðu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Varpa ljósi á síðustu augnablik Liam Payne – Pantaði vændiskonur og fíkniefni

Varpa ljósi á síðustu augnablik Liam Payne – Pantaði vændiskonur og fíkniefni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segist vera hársbreidd frá því að hefja kynferðislegt samband með systur sinni

Segist vera hársbreidd frá því að hefja kynferðislegt samband með systur sinni
Fókus
Fyrir 3 dögum

Fór að leita að norðurljósum á Íslandi en fann nokkuð enn sjaldséðara

Fór að leita að norðurljósum á Íslandi en fann nokkuð enn sjaldséðara
Fókus
Fyrir 3 dögum

Opinbera kyn fyrsta barnabarns auðkýfingsins Róberts Wessman

Opinbera kyn fyrsta barnabarns auðkýfingsins Róberts Wessman