Nichole Leigh Mosty er ein þeirra kvenna sem kjörnar voru á þing í síðustu alþingiskosningum. Hún er innflytjandi frá Bandaríkjunum og hefur lagt mikla vinnu í að greiða veginn fyrir þann mikla fjölda fólks sem hefur kosið að gera Ísland að heimalandi sínu. Þó svo að þingmannsstarfið sé gefandi segir Nicole það lýjandi að vinna í karlaveldi þar sem baktal og illskeyttar gagnrýnisraddir eru daglegt brauð. Blaðamaður DV hitti Nichole á skrifstofu hennar við Aðalstræti í vikunni þar sem rætt var um lífið á þinginu í bland við pólitík og persónulegri mál.
Nichole fæddist árið 1972 og ólst upp í Suðvestur-Michigan í Bandaríkjunum. Hún er gift Garðari Gunnarssyni en þau kynntust í Boston fyrir tuttugu árum. Fyrstu hjúskaparárin bjuggu Nichole og Garðar í stórborginni en svo lá leiðin til Íslands þar sem Garðar vildi ljúka námi hér heima. Í upphafi ætluðu þau aðeins að búa á Íslandi í nokkur ár en dvölin lengdist. Nichole þykir þó gott að komast til Michigan og reyna hjónin, ásamt börnunum þeirra tveimur, Tómas Jamie og Leah Karin, að fara reglulega þangað í frí.
Í desembermánuði, skömmu fyrir aldamótin 2000 flutti Nichole til Íslands. Fyrstu mánuðina á Íslandi skildi hún ekkert í tungumálinu, fann fyrir fordómum í samfélaginu og eina starfið sem henni bauðst var við ræstingar á kvöldin. Lífið á Íslandi var í upphafi ekki auðvelt en með ákveðni og áræðni að vopni hefur hún yfirstigið hverja áskorunina á fætur annarri. Nichole segir hugarfarið, að hafa trú á sjálfum sér og því sem maður stendur fyrir, skipta langmestu máli þegar kemur að því að takast á við ný tækifæri. Nichole þekkir, frá fyrstu hendi, hvernig það er að flytja frá heimalandinu og aðlagast íslensku samfélagi. Jómfrúrræða hennar á Alþingi vakti mikla athygli en þar sagði hún, meðal annars, að hún vonaðist til að fá tækifæri til að greiða leið fyrir fleiri innflytjendur til að taka virkan þátt í íslensku samfélagi. Nichole segir lykilatriði að innflytjendur tileinki sér tungumálið svo kraftar þeirra nýtist sem best.
Þegar Nichole flutti til Íslands hafði hún heimsótt landið einu sinni áður. Líkt og svo margir heillaðist hún af náttúrufegurðinni og viðmóti Íslendinga á ferðalaginu. Það að flytja til Íslands var þó allt önnur upplifun og töluvert erfiðara en hún hafði gert sér í hugarlund.
„Við komum til Íslands rétt fyrir jólin árið 1999. Þá var ég nýorðin 27 ára. Eins og þú veist þá er frábært að vera á Íslandi á þessum tíma. Allt er upplýst, allir upp á sitt besta, glaðir og skemmtilegir. Eftir áramótin tók alvaran við og ég funkeraði engan veginn. Mér fannst myrkrið yfirþyrmandi, ég skildi ekki orð í tungumálinu og var mjög einmana. Besta vinkona mín á þessum tíma var 16 ára mágkona mín. Eina starfið sem mér bauðst, af því að ég talaði ekki tungumálið, var að þrífa skrifstofur á kvöldin. Ég hitti engan og var, satt best að segja, orðin svolítið þunglynd.“
Nichole minnist þess hvað allt hafi verið dýrt á Íslandi miðað við í heimalandinu. Nichole var boðin hálf staða á leikskóla sem skilaði einungis 40 þúsund krónum á mánuði í laun. „Leikskólastjórinn ákvað að gefa mér tækifæri, þrátt fyrir að ég talaði ekki íslensku. Fyrir það verð ég henni ævinlega þakklát. Í vinnunni hafði ég aðgang að barnabókum og mörg þeirra barna, sem ég starfaði með, voru að læra að tala. Þarna fann ég hinn fullkomna vettvang til að læra íslensku. Ekki skemmdi fyrir hvað ég heillaðist af starfinu.“
Þá rifjar Nichole upp fyrsta skiptið sem hún tók strætó á Íslandi og bað um skiptimiða, á íslensku. „Maðurinn minn var búinn að kenna mér hvernig ég ætti að segja „má ég fá skiptimiða“. Ég skrifaði það á miða og á leiðinni út í strætóskýli æfði ég mig aftur og aftur. Þegar vagninn kom og bílstjórinn opnaði dyrnar var viðmót hans svo ruddalegt að ég þorði ekki að biðja um skiptimiða heldur rétti honum peninginn, fékk miða og gekk inn. Konan sem keyrði mig til baka var hins vegar mjög glaðlynd og þá þorði ég að segja þetta upphátt.“
Hún segir þetta atvik, hafa kennt sér hvað gott viðmót fólks til innflytjenda sé gríðarlega mikilvægt. „Við þurfum að gefa þessum hópi tækifæri til að læra tungumálið og komast inn í samfélagið. Það er hægara sagt en gert fyrir innflytjendur að taka fyrstu skrefin í nýju tungumáli. Það sem ég hefði auðvitað átt að gera var að fara í íslenskukennslu en við höfðum ekki efni á því. Námskeiðin voru svo hrikalega dýr. Það eitt og sér var mjög sorglegt. Tungumálið er lykilatriði í því að fólk aðlagist. Við verðum að gera allt til auðvelda innflytjendum að læra íslensku.“
Eftir að Nichole byrjaði að vinna á leikskólanum lærði hún, smátt og smátt, meira í tungumálinu. Eftir þrjú ár í fullu starfi hóf hún svo nám í leikskólakennarafræðum við Kennaraháskóla Íslands samhliða fullri vinnu en námið var kennt í fjarnámi. Reykjavíkurborg kostaði námið, og gaf launað leyfi, með því skilyrði að þeir sem nýttu sér þennan möguleika myndu starfa hjá borginni í að minnsta kosti eitt ár eftir útskrift. „Auðvitað stökk ég á tækifærið. Ég var búin að finna draumastarfið og það er jákvætt fyrir alla að mér hafi boðist tækifæri til að mennta mig í fræðunum,“ segir Nichole en næstu fjögur árin starfaði hún á leikskólanum og var í fullu námi auk þess sem hún skúraði á kvöldin til að ná endum saman.
Þrátt fyrir að námið hafi mestmegnis farið fram á íslensku, sem hún var búin að ná ágætum tökum á, lauk Nichole B.Ed-prófinu á fjórum árum, eða árið 2007. Árið 2013 útskrifaðist hún svo með M.Ed.-próf frá Háskóla Íslands í náms- og kennslufræði. Síðustu ár, áður en Nichole var kjörin inn á þing, starfaði hún sem leikskólastjóri. Þrátt fyrir að vera ánægð með að njóta trausts almennings til að gegna þessu ábyrgðarmikla starfi þá saknar hún þess að starfa á leikskóla. „Ég fékk svo mikinn innblástur á leikskólanum. Það var hægt að vera frumkvöðull. Börn eru svo gefandi og að vinna með þeim er dásamlegt.“
Nichole finnst gríðarlega mikilvægt, í ljósi yfirvofandi kennaraskorts, að borgin hvetji ómenntað starfsfólk í grunn- og leikskólum, til að sækja sér menntunar í fræðunum. „Við eigum að finna leiðir til að efla fólk. Það að fara í háskólanám er gríðarlega stórt skref fyrir marga. Þess vegna eigum við að bjóða upp á hvetjandi umhverfi. Til dæmis með launuðu leyfi, niðurgreiðslu skólagjalda og ákjósanlegum atvinnumöguleikum að námi loknu.“
Aðspurð af hverju hún telji að svo fáir leitist við að verða leik- og grunnskólakennarar segir Nichole svarið vera margþætt. Fyrsta skrefið sé að viðurkenna að ímyndin af starfinu sé ekki jákvæð. „Þetta er frábær vinna en fólk helst ekki í henni. Við verðum að hækka laun og finna leiðir til að breyta vinnuaðstöðunni. Það þarf að hlusta á fólk sem segist vera að bugast undan álagi. Það er ekki börnunum að kenna að starfsfólk helst ekki í starfinu, en eitthvað í vinnuumhverfinu veldur því.“
Árið 2014 tók Nichole fyrsta skrefið inn í heim stjórnmálanna. Þá komu fulltrúar tveggja stjórnmálaflokka að máli við hana, fyrir borgarstjórnarkosningarnar, og buðu henni að ganga til liðs við sig. „Fyrst fór ég á fund hjá Samfylkingunni. Mér fannst þetta hljóma svolítið yfirþyrmandi. Ég var á þeim tímapunkti heldur ekki tilbúin að fara fram af fullum krafti. Því varð ekkert úr samstarfi við Samfylkinguna. Stuttu síðar leitaði Björt framtíð til mín. Flokkurinn var töluvert smærri í sniðum og þarna fann ég einhverja grasrótartilfinningu, sem náði vel til mín. Ég þáði boðið og var vel tekið innan flokksins. Mín málefni fengu mikinn meðbyr og ég lærði heilmikið í leiðinni.“
Björt framtíð fékk þó ekki góða kosningu í borginni í það skipti. Engu að síður var Nichole kjörin formaður Hverfisráðs Breiðholts og varamaður í skóla- og frístundaráði Reykjavíkur þar sem hún sat í tvö ár, samhliða því að vera leikskólastjóri, eða þar til hún hóf störf á Alþingi í fyrravetur.
„Aldrei hefði mér dottið til hugar að ég yrði alþingismaður. Ég var ofarlega á lista hjá flokknum en hugsaði það alltaf þannig að ég væri að lána flokknum mína rödd. Það væri mikilvægt að koma okkar áherslum á framfæri og Óttari og Björt á þing. Á kosninganótt, þegar ég sá að ég var komin inn, varð ég, og reyndar Garðar líka, hálf dofin og alls konar tilfinningar helltust yfir okkur. Ég hugsaði, aftur og aftur, „Guð minn góður hvað er ég búin að koma mér í.“ Þótt ég væri í jöfnunarsæti þá var augljóst að ég var ekkert á leiðinni út aftur.“
Nichole bætir við að hún hafi lítið sofið þá helgi og á mánudeginum, þegar hún mætti til vinnu, fannst henni hún þurfa að biðja alla afsökunar. „Ég skreið til yfirmanna minna og spurði hvernig við ættum að leysa þetta mál. Ég var með svo mikið samviskubit yfir að þurfa að yfirgefa leikskólann á sama tíma og mikill skortur var á leikskólakennurum. Auðvitað tóku allir fréttunum vel. Það var bara ég sem þurfti smá tíma til að lenda,“ segir hún brosandi út í annað.
Þingstörfin eru margvísleg en Nichole er formaður velferðarnefndar, varaformaður allsherjar- og menntanefndar auk þess sem hún situr í þróunar- og samvinnunefnd. Þá er hún fjórði varaforseti Alþingis og talsmaður barna. „Þetta eru allt stór og mikilvæg hlutverk. Launin er töluvert hærri en í mínum fyrri störfum en að sama skapi er það gríðarlega krefjandi og vinnudagarnir langir. Ég tek öllum mínum verkefnum mjög alvarlega. Oftar en ekki vinn ég fram á nótt og er mætt aftur á skrifstofuna fyrir allar aldir. Hluti af starfinu er að vera áberandi í samfélaginu og maður þarf að taka því.“
Þrátt fyrir að konur séu nú tæpur helmingur kjörinna alþingismanna segir Nichole að Alþingi sé enn mikið karlasamfélag. „Ég vinn á Alþingi sem var sniðið að karlmönnum. Ég vil alls ekki að fólk taki þessu sem væli en þannig er þetta bara. Þingstörf, hérna áður fyrr, voru sniðin að því að karlmenn voru útivinnandi á meðan konurnar voru heima með börnin. Sem betur fer hefur það breyst en það þýðir ekki að fólk eigi að vinna sólarhringum saman, myrkranna á milli, án þess að hitta fjölskyldu sína.“
Þá kveðst Nichole aldrei hafa upplifað eins mikla gagnrýni á persónur fólks, heyrt jafn mikið talað niður til þess og snúið út úr orðum þess eins og eftir að hún hóf störf á Alþingi. „Ég naut miklu meiri virðingar í samfélaginu sem leikskólastjóri en ég geri í dag sem þingmaður. Ég heyri líka, aftur og aftur, að það sé mikilvægt í þessu starfi að hafa harðan skráp. Þetta er leiðinlegur fylgifiskur þess að vera í pólitík. Það hefur verið erfitt að venjast því að vera alltaf í skotlínunni, enda er ég mikil tilfinningamanneskja. Ég hef fengið mína skelli og gagnrýni en ólíkt mörgum sem ég starfa með þá hika ég ekki við að viðurkenna mistök. Það mættu fleiri gera.“
Nichole segir jafnframt að „skrápurinn“ svokallaði, geri þingmönnum betur kleift að baktala og skjóta skoðanir annarra þingmanna í kaf þar sem þeir feli sig á bak við þennan ósýnilega verndarvegg. „En fyrir hverju erum við að eiginlega vernda okkur? Við erum bara venjulegt fólk. Ég bý í Efra-Breiðholti, borga af lánum og við erum á einum bíl. Ég á sömu nágrannana og ekkert hefur breyst í okkar samskiptum. Ég fer reglulega út að hjóla með börnunum mínum og stoppa hjá reykingafólkinu, sem stendur fyrir framan hverfispöbbinn, til að spjalla. Ég ætla ekki að láta starfið breyta því sem ég er.“
Fylgi Bjartrar framtíðar, líkt og ríkisstjórnarinnar, hefur dalað töluvert frá kosningum. Nichole undrar sig á mikilli gagnrýni frá almenningi sem segir Bjarta framtíð, nú þegar, hafa svikið hin ýmsu kosningaloforð. „Við erum bara venjulegt fólk. Ég hefði haldið að fólk myndi sýna okkur meiri skilning. Við erum ekki tengd neinum hagsmunaöflum og ætlum að láta verkin tala í stað þess að segja alls konar hluti til að ná fylginu upp. Við erum búin að vera við völd í aðeins sex mánuði. Það er ekki raunhæft að leysa allt á svona stuttum tíma. En þetta kemur, ég hef fulla trú á því.“
Ólíkt mörgum Íslendingum sem sleiktu sólina og nutu lífsins í sumar varði Nichole sínu fríi fjarri fjölskyldu og vinum. Hún dvaldi í mánuð á Grikklandi þar sem hún kynnti sér aðbúnað hælisleitenda. Þessi mikla lífsreynsla er Nichole ofarlega í huga en í framtíðinni langar hana að tala fyrir málstað hælisleitenda. „Ástæðan fyrir því að ég fór til Grikklands er sú að umræðan um hælisleitendur er yfirleitt bundin skoðun annarra og því sem ratað hefur í fjölmiðla. Ég vildi fara út og mynda mér mína eigin skoðun á málefnum hælisleitenda. Á sama tíma fannst mér mikilvægt að leggja mitt af mörkum til að auðvelda fólki lífið við þessar hörmulegu aðstæður.“
Nichole fór á vegum alþjóðlegs neyðarstarfs SOS Barnaþorpanna. Upplifunin hafði djúpstæð áhrif á Nichole sem tók þátt í starfi á leikskóla og á heimilum fyrir fylgdarlaus börn. „Það er svo dýrmætt að geta sett sig í spor annarra. Á meðan ég var með fólkinu hélt ég andliti en þegar ég var komin upp á hótel, eða sat ein úti að borða, byrjuðu tárin að streyma. Og gera það enn. Það mikilvægasta er að muna að við erum öll manneskjur. Hvar sem við fæðumst á jörðinni.“
Nichole er að lokum spurð um mál ungu stúlknanna Haniye og Mary og fjölskyldna þeirra sem mjög hefur verið í umræðunni undanfarið. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur sagt að flokkurinn hygðist leggja fram frumvarp um íslenskan ríkisborgararétt til handa stúlkunum og foreldrum þeirra.
„Ég vonast enn til að farsæl lausn finnist á máli fjölskyldnanna,“ segir Nichole. „Ég er með tilbúið frumvarp með sama markmiði og frumvarpið sem er hér til umræðu, með tilliti til áhrifa á stöðu stúlknanna. Frumvarpið nær til allra í sömu stöðu, ekki bara þessara tilvika. Auk þess felast í því varanlegar úrbætur og jafnræðis er gætt. Á miðvikudagskvöld lýsti dómsmálaráðherra því yfir að hann vildi „taka á móti öllum tillögum þingmanna hvað varðar lagabreytingar“. Ég trúi ekki öðru en að unnið verði að lagabreytingum sem eru í frumvarpinu okkar í samstarfi með ráðuneytinu.
Mér finnst erfitt að taka tvö mál fram fyrir öll önnur sem bíða afgreiðslu. Ég veit að fleiri, sem eru jafnvel verr sett, hafa fengið synjun en þyrftu líka svona meðferð. Mál margra fara ekki hátt, þau eru rekin í hljóði. Ég ætla ekki að vera meðal meðflytjenda í frumvarpi Loga Einarssonar. Ég hef jafnframt sagt að ef okkar frumvarp og vinna nær ekki að aðstoða þessa einstaklinga sem við í Bjartri framtíð ætlumst til að það geri, þá muni ég styðja frumvarp um ríkisborgararétt í atkvæðagreiðslu.
Svo finnst mér mikilvægt að þverpólitísk nefnd starfi að því að tryggja að framkvæmd nýju laganna um málefni útlendinga verði fylgt eftir og að lögin nái því markmiði sem ætlast var til. Það stóð alltaf til að slík nefnd starfaði samhliða innleiðingu laganna. Ef slík nefnd hefði verið starfandi þá trúi ég því að tillögur að breytingum á lögum hefðu verið lagðar fram fyrir löngu. Þá værum við ekki að ræða neyðarúrræði, sem veiting ríkisborgararéttar til fimm einstaklinga umfram aðra er svo sannarlega.“