Kanadíski stórleikarinn Ryan Gosling hefur farið þess á leit að hann fái hlutverk í nýrri mynd um ævintýramanninn Indiana Jones. Frá þessu greindi Gosling í viðtali við E! News.
Disney, sem á réttinn að þessum vinsælu myndum, er með nýja mynd í undirbúningi en verkefnið er á algjöru frumstigi. Alls hafa fjórar myndir komið út; 1981, 1984, 1989 og 2008 og hefur Harrison Ford farið með hlutverk Indy, Indiana Jones, í þeim öllum.
Í viðtali við E! News sagðist Gosling vera að vinna í því að fá hlutverk í myndinni en alls óvíst er hvert það hlutverk verður. Í myndinni The Kingdom of the Crystal Skull lék Shia LaBeouf son Indiana Jones, Henry, og gæti Gosling mögulega hentað í það hlutverk.
Þess má að lokum geta að Ford og Gosling leika báðir í myndinni Blade Runner 2049 sem verður frumsýnd innan nokkurra daga í kvikmyndahúsum.