Jake LaMotta, boxarinn harðsnúni sem Robert De Niro túlkaði eftirminnilega í myndinni Raging Bull, er látinn, 95 ára að aldri. LaMotta var á hátindi ferils síns á fimmta og sjötta áratug liðinnar aldar en í 106 bardögum sínum vann hann 83, þar af 30 með rothöggi.
Frægir eru bardagar hans og Sugar Ray Robinson, en þeir börðust alls sex sinnum yfir nokkurra ára tímabil og hafði LaMotta aðeins einn sigur. Hann er þó af mörgum talinn einn besti boxari sögunnar í sínum þyngdarflokki og árið 1990 var hann tekinn inn í frægðarhöll boxins.
Robert DeNiro túlkaði LaMotta í myndinni Raging Bull sem kom út árið 1980 en myndin var byggð á ævisögu kappans. Fyrir hlutverk sitt fékk DeNiro Óskarsverðlaunin fyrir besta leik í aðalhlutverki.