Einlægur og fallegur flutningur – Gift í hartnær 60 ár
Hermann Ragnarsson ákvað á dögunum að koma Sjöfn Bergmann, eiginkonu sinni til 57 ára, rækilega á óvart. Afraksturinn má sjá í meðfylgjandi myndskeiði sem mun án efa snerta hug og hjörtu ótalmarga. Hér er á ferð lýsandi dæmi þess að ástin vex og dafnar með aldrinum.
Í tilefni af áttræðisafmæli Sjafnar á dögunum ákvað Hermann að syngja fyrir hana lagið „Ég vil fá mér kærustu“ sem margir þekkja í útgáfu hljómsveitarinnar Hjálma. Voru það barnabörn þeirra hjóna sem birtu myndskeiðið á Youtube í byrjun mánaðarins en fram kemur í lýsingu á síðunni að þau Hermann og Sjöfn hafi gengið í hnapphelduna árið 1960 og „fetað æviveginn síðan.“
Fram kemur að sem ungur maður hafi Hermann heyrt lagið í leiksýningunni Ævintýri á gönguför og varð hann þá staðráðinn í að eignast svona kostum prýdda kærustu.
„Hann fann, ótrúlegt en satt eina slíka, yngismeyna Sjöfn Bergmann, sem passaði svona glimrandi vel við lýsinguna og það sem meira var þá náði hann að vinna hug hennar og hjarta.“
Hægt er að horfa á einlægan flutning Hermann hér að neðan.
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=czRgqAC7DAE&w=600&h=400]