Bandaríska leikritaskáldið, leikarinn, rithöfundurinn og leikstjórinn Sam Shepard er látinn 73 ára gamall. Hann hlaut Pulitzer-verðlaunin árið 1979 fyrir leikrit sitt Buried Child og var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir leik í kvikmyndinni The Right Stuff árið 1983.
Shepard skrifaði um fimmtíu leikrit, auk smásagna og greina. New York Times sagði hann eitt sinn vera fremsta leikritaskáld sinnar kynslóðar. Hann lék í rúmlega fimmtíu kvikmyndum á ferlinum og í fjölda sjónvarpsþátta. Meðal þekktustu mynda hans eru The Right Stuff, Days of Heaven og Steel Magnolias. Á hvíta tjaldinu hafði Shepard áberandi sterkan og heillandi persónuleika.
Fyrri kona Shepard var leikkonan O-Lan Jones og með henni eignaðist hann son. Á hjónabandsárum sínum átti Shepard í stuttu ástarsambandi við söngkonuna Patti Smith. Þegar hann lék í kvikmyndinni Francis varð hann ástfangin af leikkonunni Jessicu Lange sem fór með aðalhlutverk myndarinnar. Þau hófu búskap árið 1983 og voru saman í nær þrjátíu ár en skildu árið 2009. Saman eignuðust þau tvö börn. Nokkrum vikum fyrir andlát Shepards sagði Lange í viðtali: „Ég myndi ekki segja að Sammy væri auðveldur í umgengni og skemmtilegur, en allir eiga sínar dökku hliðar og hann tekur á því með húmor.“
Shepard hafði í nokkurn tíma þjáðst af taugahrörnunarsjúkdómi sem að lokum dró hann til dauða. Hann lést á heimili sínu umkringdur börnum sínum og systrum.