Fjölmargir viðburðir gerast í tónlistarsögunni alla daga, sumt þó eftirminnilegra en annað. Hér eru nokkrir viðburðir sem gerðust í erlendri tónlistarsögu þann 4. ágúst.
1901 Söngvarinn og trompetleikarinn Louis Armstrong fæddist í Queens í New York. Armstrong átti marga smelli, sem eru vel þekktir í dag, eins og: Hello Dolly!, What A Wonderful World, When The Saints Go Marching In’, Ain't Misbehavin’, og We Have All the Time in the World. Armstrong lést 6. Júlí 1971.
1958 Bandaríski Billboard topplistinn, The Hot 100 Singles Chart, hóf göngu sína. Ricky Nelson var í fyrsta sæti með lagið Poor Little Fool.
1963 Bítlarnir komu fram í Queen's Theatre í Blackpool Englandi. Aðdáendur þeirra þyrptust í kringum leikhúsið og lokuðu öllum inngöngum. Brugðið var á það ráð að Bítlarnir fóru í gegnum nærliggjandi byggingarsvæði, upp á og yfir vinnupalla, og þaðan yfir á þak leikhússins þar sem þeir voru látnir síga inn í húsið í gegnum fellihurð á þakinu.
Mynd: Copyright (c) 1965 Rex Features. No use without permission.
1967 Kvenaðdáandi Monkees faldi sig um borð í flugvél sveitarinnar, en vélin var að fljúga milli Minneapolis og St. Louis, þar sem sveitin var með tónleika. Faðir stúlkunnar hótaði að kæra sveitina fyrir flutning á einstaklingi undir lögaldri á milli fylkja.
1967 Fyrsta plata Pink Floyd, The Piper At the Gates of Dawn, kom út. Platan var tekin upp í Abbey Road stúdíóinu, á sama tíma og Bítlarnir voru þar að taka upp plötuna Sgt. Pepper. Plata Pink Floyd, sem fór hæst í sjötta sæti breska listans, en náði ekki sæti á lista í Bandaríkjunum, hefur af mörgum gagnrýnendum verið viðurkennd sem ein áhrifamesta sýrurokkplata sjöunda áratugarins og fengið fjórar stjörnur af fimm mögulegum.
1975 Robert Plant, söngvari Led Zeppelin, og eiginkona hans, slösuðust bæði alvarlega þegar Plant keyrði bílaleigubíl þeirra út af vegi í fríi þeirra á grísku eyjunni Rhodes. Plant braut báða ökkla og annan olnbogann og var því hætt við áætlaðan Ameríkutúr sveitarinnar.
1984 Prince hóf 24 vikna setu á bandaríska plötulistanum með Purple Rain. Platan, sem var sjötta stúdíóplata hans, innihélt meðal annars smellina When Doves Cry og Let´s Go Crazy, auk titillags plötunnar, hefur selst í meira en 20 milljón eintökum á heimsvísu og er í dag sjöunda mest selda plata allra tíma.
1990 Þrír vopnaðir ræningjar stálu um 27 milljónum króna á tónleikum hljómsveitarinnar New Kids On The Block í Montreal í Kanada. Um var að ræða innkomu vegna sölu á ýmsum varningi merktum sveitinni.
1996 Rótari Oasis, James Hunter, lést á tónleikum sveitarinnar í Balloch Castle Country Park í Loch Lomand í Skotlandi þar sem sveitin lék á tvennum uppseldum tvónleikum. Hunter lenti á milli lyftara og vörubíls og kramdist til bana.
2000 : Craig David kom öðru lagi sínu, 7 days, í fyrsta sæti breska listans. Aðeins 19 ára að aldri, varð hann því yngsti karlsöngvarinn til að koma tveimur lögum í fyrsta sæti listans, frá því að Donny Osmond varð sá fyrsti til þess árið 1973.
2001 Dave Stewart giftist tískuljósmyndaranum Anouska Fisz á einkaströnd á Frönsku rivíerunni. Á meðal gesta voru Elton John, Mick Jagger, bræðurnir Liam og Noel Gallagher úr Oasis og Annie Lennox, sem skipaði hljómsveitina Eurythmics, ásamt Stewart.