Naut ekki velþóknunar í Bandaríkjunum á sínum tíma
Kvikmyndin Bonnie and Clyde fagnar hálfrar aldar afmæli nú um stundir. Myndin, sem skartar Warren Beatty og Faye Dunaway í aðalhlutverkum og var í leikstjórn Arthurs Penn, fékk ekki góða dóma í Bandaríkjunum á sínum tíma og flestir gagnrýnendur viðhöfðu um hana hörð orð, meðal annars fyrir það ofbeldi sem sýnt var í myndinni og margir töldu fara yfir strikið. Engu að síður var myndin tilnefnd til tíu Óskarsverðlauna.
Annað var uppi á teningnum austan Atlantsála, á Englandi nánar til tekið. Þar var myndinni tekið með kostum og kynjum og þess var skammt að bíða að velgengni hennar á Englandi smitaðist yfir til Bandaríkjanna.
Nú nýtur sú skoðun hylli að myndin hafi skekið stoðir Hollywood og leikið stórt hlutverki í að beina kvikmyndaiðnaðinum í Bandaríkjunum inn á nýjar spennandi brautir.
Einnig ku myndin hafa lagt línurnar í nýrra og frjálslyndara flokkunarkerfi bandaríska kvikmyndaeftirlitsins.
Um afdrif söguhetjanna, Bonnie og Clyde, í bíómyndinni þarf ekki að fjölyrða. Þau létu lífið í kúlnaregni af umfangi sem aldrei áður hafði sést á hvíta tjaldinu og ruddi brautina fyrir það sem síðar kom.