Dæturnar alsælar með „Elsukjóla“
Það er freistandi að henda gömlu fötunum (setja þau í Rauða krossgáminn) þegar þú ert orðinn leið/ur á þeim, en Stephanie Miller, fjögurra barna móðir og listakennari í Utah í Bandaríkjunum, fann góða leið til að endurnýta skyrtur eiginmannsins.
„Við bjuggum í pínulítilli íbúð og ég gat ekki málað þar, bæði vegna plássleysis og vegna þess að lyktin af olíulitunum var ekki góð fyrir börnin okkar,“ segir Miller. Einn daginn kom eiginmaðurinn færandi hendi heim með saumavél og segir Miller að saumavélin hafi meðal annars hjálpað henni að vinna úr fæðingarþunglyndi. Hún lærði fyrst að búa til tuskudýr og lærði síðan að sauma kjóla með því að horfa á myndbönd á Youtube. „Maðurinn minn ætlaði svo að henda gömlum fötum af sér og efst í bunkanum var skyrta sem ég var nýbúin að gefa honum í jólagjöf. Ég varð hundfúl út í hann, en skyrtan var bara orðin of lítil. Ég hélt henni og fleiri skyrtum og fór svo að fikra mig áfram í að breyta þeim í kjóla fyrir dætur okkar.“
Dæturnar hafa tekið ástfóstri við kjólana og sú yngsta, þriggja ára, kallar þá „Elsukjóla.“ Staðan í dag er sú að skyrtur eiginmannsins eru í eilífri hættu og segir Miller að dæturnar komi með þær og biðji hana um að breyta þeim í kjóla. Sem betur fer fyrir fataskáp eiginmannsins þá hafa vinir og nágrannar fært henni notaðar skyrtur að gjöf, þannig að eiginmaðurinn ætti ekki að verða fatalaus alveg strax. Miller er með Instagram-síðu, þar sem skoða má fleiri myndir af skyrtukjólum hennar.