Uppgjör Adolfs Inga – Sigraði RÚV fyrir dómstólum
Adolf Ingi Erlingsson er flestum kunnur fyrir störf hans sem íþróttafréttamaður og var þekktur fyrir líflegar lýsingar og ýmis frumleg uppátæki í leik og starfi. Í huga flestra var Adolf alltaf brosandi, alltaf hress og alltaf til í fíflagang og grín. Síðustu ár í lífi Adolfs hafa hins vegar ekki verið neitt grín. Sigurvin Ólafsson bauð Adolf í kaffisopa og rakti úr honum garnirnar.
Þegar ég sæki Adolf er hann nýkominn í borgina eftir hringferð um landið. Hann stoppar þó stutt við því degi síðar heldur hann af stað í aðra þriggja daga ferð, en Adolf starfar sem leiðsögumaður hjá Arctic Adventures. Við sammælumst um að ég bjóði honum í kaffi og við keyrum af stað. Adolf er brúnn og sællegur, enda mikið úti í náttúrunni, með sólgleraugu og í bol merktum hljómsveitinni Ham. Á leiðinni fær hann símtal og ég heyri að viðmælandinn óskar Adolf til hamingju með sigurinn í dómsmáli hans gegn Ríkisútvarpinu á dögunum. Væntanlega er það eitt símtal af mörgum síðustu daga. Aðalástæða þess að DV leitaði eftir viðtali við Adolf er einmitt niðurstaða umrædds dómsmáls, þar sem RÚV var dæmt til að greiða honum skaða- og miskabætur fyrir einelti og ólögmæta uppsögn. Við Adolf ræðum þó margt annað enda hefur ýmislegt fleira gengið á í hans lífi síðustu árin.
Við víkjum tali okkar að dómnum sem féll 5. júlí síðastliðinn, þar sem héraðsdómur dæmdi Ríkisútvarpið til að greiða Adolf skaða- og miskabætur vegna eineltis og ólögmætrar uppsagnar. Ég velti því upp við Adolf hvort það hafi ekki verið erfið ákvörðun að leggja í málssókn gegn atvinnurekanda sínum til 22 ára. „Jú. En eitt kvöldið eftir uppsögnina sátum við í stofunni ég og konan, og ég horfði á hana og sagði, veistu ég fer í mál. Ég ætla ekki að láta þetta yfir mig ganga. Hún sagði fínt og var ánægð að sjá í mér baráttuanda í fyrsta skipti í langan tíma. Þannig að ég ákvað að gera þetta. Stuttu seinna varð reyndar breyting innanhúss hjá RÚV, Páll Magnússon hætti sem útvarpsstjóri og Magnús Geir var ráðinn í staðinn. Þá ákvað ég að gefa þessu séns, athuga hvort einhver vilji væri til sátta. Magnús tók strax mjög vel í það en sagði að hann þyrfi að koma sér inn í ýmis mál fyrst og það liðu nokkrir mánuðir. Svo áttum við fundi og áfram lýsti hann miklum vilja til sátta en þegar til kom reyndist engin innistæða fyrir því.“
Var þér ekki svarað eða var þínum tillögum hafnað? „Þeim var bara hafnað. Ég sagði að það sem ég myndi líta á sem sátt væri endurráðning, í gamla starfið. Þá var mér sagt að það væri ekki mögulegt, þetta var eins og einhver sagði pólitískur ómöguleiki. Síðan, nokkrum mánuðum seinna, var Þorkell félagi minn endurráðinn, en honum hafði verið sagt upp um leið og mér. Þannig að það var möguleiki í tilviki Þorkels. Þá ákvað ég að fara alla leið í þessu. Því það er takmarkað hvað maður lætur sparka mikið í sig áður en maður svarar fyrir sig.“