fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fókus

„Frá næsta mánudegi verð ég bara mamma, ég get ekki fokking beðið“

Síðustu tónleikar Adele haldnir í heimabænum London

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 29. júní 2017 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hún er aðeins 29 ára, en löngu orðin stórstjarna í augum milljóna aðdáenda sinna og í gær mættu um 100 þúsund þeirra á Wembley leikvanginn í London. Tónleikarnir voru þeir fyrstu af fjórum tónleikum Adele í heimaborginni London núna um mánaðamótin júní, júlí, og binda þeir endahnút á fyrsta heimstónleikaferðalag hennar, sem ber heitið Adele the Finale. Og að öllum líkindum það síðasta líka, því Adele hefur haldið því fram í nokkurn tíma að hún ætli að taka sér frí frá tónlistinni og hætta alfarið tónleikaferðum.

Hún hefur reyndar áður tekið sér frí frá tónlistinni, önnur plata hennar 21 kom út árið 2011 og því næst liðu fjögur ár þar til sú næsta, 25, kom út árið 2015. Á þeim fjórum árum sem liðu á milli þeirra platna kynntist Adele unnusta sínum og núverandi eiginmanni og 2012 eignuðust þau son. Sagði hún á tónleikunum í gær að hún gæti ekki beðið eftir að ljúka tónleikaferðalaginu, fara í frí og vera bara mamma. Eða eins og Adele segir það „frá næsta mánudegi verð ég bara mamma, ég get ekki fokking beðið.“

Svona lítur sviðið út í upphafi.
Fyrir tónleika Svona lítur sviðið út í upphafi.

Persónulegir tónleikar

Á risatónleikum á stórum leikvangi þá þarf að vera sýning og tónleikar Adele voru svo sannarlega flottir fyrir augað. Það voru flugeldar, ljósa „show“, reykur og glimmer sem rigndi yfir tónleikagesti. En tónleikarnir voru líka persónulegir því þrátt fyrir að syngja á risastórum leikvelli fyrir hundrað þúsund áhorfendur nær Adele á persónulegan hátt til fjöldans sem mættur var. Sjarmi hennar, útgeislun, cockney mállýskan sem þarf að leggja eyrun við til að skilja ef maður er ekki Breti, smitandi hláturinn og persónulegu brandararnir sem hún reytir af sér eins og enginn sé morgundagurinn fá mann bara til að elska Adele meira. „Hér fyrir framan mig er strákur sem var á fyrstu tónleikunum mínum í þessum túr og hann er mættur aftur, ótrúlegt,“ sagði Adele og hló. Hún rúllaði að sjálfsögðu yfir öll vinsælustu lög hennar, um tuttugu talsins og sagði sögur þess á milli, hló og veifaði til áhorfenda. Myndir af henni frá yngri árum rúlluðu yfir skjáina í einu laginu, Adele lýsti kjólaraunum sínum, en kjólinn skrapp eitthvað saman frá því hún notaði hann síðast og nokkur tími fór í spjall um hvað hún væri stressuð að koma fram, þrátt fyrir að vottaði ekkert fyrir sviðsskrekk.

Að sögn Adele þurfti hún að troða sér í kjólinn þar sem að hann hafði minnkað eitthvað síðan síðast.
Kjólinn minnkaði Að sögn Adele þurfti hún að troða sér í kjólinn þar sem að hann hafði minnkað eitthvað síðan síðast.

Adele bað síðan fólk sitjandi í efstu röð um að leita að umslagi sem skilið hafði verið þar eftir og nokkur tími fór í að fá ljósamanninn til að skilja hennar hægri hlið og láta sviðsljósið finna hinn heppna. Stúlkan sú var sérlega lukkuleg með umslag sem innihélt handskrifað bréf og „selfie“ mynd frá Adele.

Adele æfði sig líka í skotfimi og skaut nokkrum bolum út í loftið og var nokkur handagangur í öskjunni meðal tónleikagesta að grípa bolina. Glimmersprengjurnar sem rigndu svo yfir gesti í einu laginu reyndust innihalda persónuleg skilaboð og textabrot úr lögunum hennar.

Með tónleikunum í gær var slegið met á Wembley, en 98 þúsund gestir mættu á tónleikana.

Hvatti tónleikagesti til að styrkja íbúa Grenfell Tower

„Það er hlutverk okkar sem manneskjur að sýna öðrum samkennd,“ sagði Adele með grátstafinn í kverkunum þegar hún sagði frá brunanum í Grenfell Tower. Hvatti Adele tónleikagesti til að gefa í söfnun fyrir íbúana og á risaskjáunum birtist númer sem hægt var að senda sms í og gefa 5 pund. „Styrkið um 5 pund, Í stað þess að kaupa enn einn drykk á barnum, verða blindfull og muna ekki eftir tónleikunum,“sagði Adele. Stórbruni varð í Grenfell Tower, íbúðablokk í Norður-Kensington þann 14. júní síðastliðinn, þar sem minnst 80 létust, fjöldi íbúa slasaðist og fólk missti eigur sínar og heimili. Lofaði Adele því að strax á mánudag myndi hún sjálf fara á staðinn og aðstoða fórnarlömb brunans, en sólarhring eftir brunann var hún mætt á svæðið, þar sem hún gekk um, ræddi við og faðmaði fólk, auk þess sem hún bankaði upp á á slökkvistöðinni í Chelsea og færði slökkviliðsmönnum þar kökur í þakklætisskyni fyrir störf þeirra.

Tónleikagestir gátu sent sms og styrkt þannig um 5 pund.
Söfnun fyrir íbúa Glenfell Tower Tónleikagestir gátu sent sms og styrkt þannig um 5 pund.
Adele boðaði ekki komu sína, heldur bankaði bara upp á með kökur.
Chelsea slökkviliðsmenn Adele boðaði ekki komu sína, heldur bankaði bara upp á með kökur.

„Ég elska þig London, hef alltaf gert og mun alltaf gera.“

Samkennd og gleði ríkjandi

Þrátt fyrir allan fjöldann sem mættur var fór allt friðsamlega fram, enda Bretar yfirhöfuð einstaklega kurteisir og raðvænir og erlendir gestir eru fljótir að tileinka sér það. Enginn asi var á fólki þegar leikvangurinn var yfirgefinn, en starfsmenn hans og öryggisverðir sáu um að mannfjöldinn kæmist skipulega burt. Á leiðinni í neðanjarðarlestina var mannfjöldinn stöðvaður tvisvar og var boðið upp á skemmtun meðan beðið var. Einn öryggisvarðanna var með gjallarhorn og spilaði lag Adele meðan beðið var, allir viðstaddir, þar á meðal öryggisverðirnir sungu síðan og klöppuðu með.

Það var fólk svo langt sem augað eygði, í báðar áttir.
Gestir yfirgefa Wembley Það var fólk svo langt sem augað eygði, í báðar áttir.
Röðin náði frá rúllustigunum á leikvanginum yfir á lestarstöðina.
Alls staðar er fólk Röðin náði frá rúllustigunum á leikvanginum yfir á lestarstöðina.

Það var gleði, söngur og samkennd sem ríkti meðal mannfjöldans á Wembley í gær, sem er svo sannarlega gleðiefni í ljósi þeirra hörmunga sem riðið hafa yfir London undanfarnar vikur. Vonandi mun svo verða áfram þrátt fyrir að tónlistar Adele verði ekki notið á tónleikum framar. En miðað við hvað hún á auðvelt með að koma fram, þrátt fyrir að halda stöðugt því andstæða fram, þá tel ég góðar líkur á að við munum heyra meira frá Adele í framtíðinni. Við þurfum bara að bíða róleg í nokkur ár því eins og Adele sagði sjálf í gær: „Það eina sem ég er góð í er að syngja og semja lög og ég er svo þakklát ykkur öllum.“ Og því ætti einhver að vilja hætta því sem viðkomandi er góður í?
En þangað til næst, takk fyrir allt Adele.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Skipulögð brotastarfsemi mikið áhyggjuefni

Skipulögð brotastarfsemi mikið áhyggjuefni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dularfull eftirlýsing lögreglunnar á Norðurlandi vestra vekur athygli – „Ætlið þið að vera með skemmtiatriði hjá þeim sem svara?“

Dularfull eftirlýsing lögreglunnar á Norðurlandi vestra vekur athygli – „Ætlið þið að vera með skemmtiatriði hjá þeim sem svara?“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Gleymið Bjarna og kökuskreytingunum – nú er það Bjarnapitsa – „Sjáið drenginn, hann á ekkert að vera að vinna á þingi“

Gleymið Bjarna og kökuskreytingunum – nú er það Bjarnapitsa – „Sjáið drenginn, hann á ekkert að vera að vinna á þingi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna