Leikarinn Mark Lester hefur í nokkurn tíma haldið því fram að hann sé líffræðilegur faðir Paris Jackson, dóttur Michaels Jackson. Lester endurtók þessa fullyrðingu sína í viðtali við Daily Mail. Hann segir að Jackson hafi á sínum tíma beðið hann að vera sæðisgjafa sinn og það hafi komið sér á óvart að söngvarinn vildi verða faðir. Lester segir að Jackson hafi beðið fleiri karlkyns vini sína um sama greiða, þar á meðal Macaulay Culkin og Jack Nicholson. Lester segist hafa gert Jackson þennan vinargreiða. Málið komst fyrst í hámæli eftir dauða Jackson árið 2009 en þá birtu fjölmiðlar fréttir um að Lester væri mögulega faðir Paris.
Lester varð frægur átta ára gamall fyrir hlutverk Olivers Twist í Óskarverðlauna-söngvamyndinni Oliver. Þeir Jackson kynntust um 1980 þegar söngvarinn var á tónleikaferðalagi í London og bað umboðsmann sinn að hafa samband við Lester en Jackson var mikill aðdáandi myndarinnar og hafði margoft horft á hana. Þeir hittust og eyddu saman sex klukkustundum. „Við vorum á sama aldri og áttum margt sameiginlegt vegna þess að báðir höfðum við verið barnastjörnur,“ segir Lester. Í hvert sinn sem Jackson var í London hittust þeir. Jackson hafði einnig oft samband símleiðis en hringdi oft um miðjar nætur þar sem hann hafði engan skilning á tímamismun milli Bretlands og Bandaríkjanna. Með þeim tókst mikil vinátta og Jackson varð guðfaðir barna Lesters og Lester guðfaðir barna Jackson.
Lester segir að Jackson hafi verið smeykur við konur og nefnir í því sambandi atvik þegar Madonna reyndi að fleka poppgoðið. Hún bauð Jackson upp á hótelherbergi sitt og þegar hann gekk inn lá hún í rúminu, svipti af sér sænginni og var allsnakin. Jackson rak upp skelfingaróp og lagði á flótta. „Það hefði ég ekki gert í hans sporum,“ segir Lester.
Lester segir að Jackson hafi þjáðst af skelfilegu svefnleysi. Hann segir að söngvarinn hafi oft verið einkennilegur síðustu árin og kennir lyfjanotkun um. Hann nefnir sem dæmi að Jackson hafi sagt að táningsdóttir Lesters líktist Díönu prinsessu og að hann vildi giftast henni. Hann hafnar því alfarið að Jackson hafi áreitt börn kynferðislega. Hann hafi verið barnavinur hinn mesti og aldrei getað gert barni mein. Hann segir að Jackson hafi verið frábær faðir og mjög strangur þegar kom að svefntíma og heimalærdómi barna sinna.
Lester, sem á fjögur börn, segist ekki hafa neinn áhuga á að fara í DNA-próf til að sanna að hann sé líffræðilegur faðir Paris. Paris mun heldur engan áhuga hafa á því. Hún tók lát föður síns afar nærri sér og hefur minningu hans í heiðri. Í nýlegum viðtölum hefur hún sagt að hún finni að hann sé hjá sér. Paris hefur oftar en einu sinni reynt að svipta sig lífi. Lester segist hafa reynt að hafa samband við hana eftir eina slíka tilraun, en móðir hennar Debbie Rowe, harðneitaði og sagði honum að láta dóttur sína í friði.