Spænski leikarinn Javier Bardem hreppti Óskarsverðlaun fyrir túlkun sína á hinum hrollvekjandi og morðóða Anton Chigurh í mynd Coen-bræðra, No Country for Old Men. Leikarinn segist ekki þola ofbeldi og ekki geta horft á það í kvikmyndum. Ástæðan er sú að á sínum yngri árum lenti hann í hörkuslagsmálum á bar og nefbrotnaði. „Upp frá því hef ég ekki þolað ofbeldi. Ég get ekki einu sinni horft á það. Ég þoli það ekki,“ sagði leikarinn nýlega og bætti við: „En ef ég hef svo mikla andstyggð á ofbeldi af hverju lék ég þá í No Country for Old Men? Ég veit, ég veit.“ Hann segir að hlutverkið hafi reynt mikið á hann og að Coen-bræður hefðu haft gaman af því að sjá hversu erfitt honum fannst að leika ofbeldisatriðin. „Ég elska Coen-bræður, þeir eru snillingar, en þetta var erfitt,“ segir Bardem.
Leikarinn hefur verið kvæntur Penelope Cruz í sjö ár og þau eiga saman tvö börn. Þau urðu ástfangin við tökur á mynd Woody Allen, Vicky Cristina Barcelona. Bardem segir að hann hafi í upphafi ekki verið viss um að Cruz væri rétta konan fyrir hann þar sem hún væri svo áköf og ástríðufull. Hann hefði þó að lokum kolfallið fyrir þessum eiginleikum.