Fyrirtæki sérhæfir sig í því að segja upp elskendum – Auðveld og ópersónuleg leið til að enda ástarsamband
Það er aldrei auðvelt að enda samband með einhverjum. Flestir, sem tekið hafa ákvörðun um slíkt, kvíða því að taka af skarið og tilkynna elskanda sínum að ævintýrið sé úti.
Sumir bregða á það ráð að hverfa sporlaust úr lífi hins aðilans. Öðrum fellst hugur og bíða lon á don með að horfast í augu við elskanda sinn og færa honum fregnirnar.
En til hvers að horfast í augu við þann sem þú ætlar að sparka út, hvers vegna ekki bara að borga öðrum fyrir að vinna verkið fyrir þig? Það gerir sambandsslitin eins ópersónuleg og „auðveld“ og völ er á.
Það er einmitt það sem hinn 28 ára Trevor Meyers gerði. Trevor sem býr í Kanada nýtti sér þjónustu sérstaks fyrirtækis til að forðast vandræðalegt samtal við þáverandi unnustu sína.
Fyrirtækið The Breakup Shop hefur verið starfrækt í Kanada síðan árið 2015. Trevor hefur nýtt sér þjónustu þess oftar en einu sinni.
„Mér fannst bara auðveldara fá einhvern annan til að eiga við eins óþægilega stöðu og sambandsslit eru,“ segir hann í samtali við BBC.
Hann bætir því við að hann hafi nokkrum sinnum nýtt sér þjónustuna til að binda enda á skammtímasambönd sem honum þótti ekki lofa góðu.
The Breakup Shop var komið á fót af kanadísku bræðrunum Evan og Machenzie Keast.
Hugmyndin kom upp eftir að Mackenzie fannst hann illa leikinn af fyrrum kærustu sinni. Þau höfðu verið í hefðbundinni sambúð og allt í einu hvarf hún. Hætti að ansa öllum símtölum og skilaboðum frá honum. Lét sig einfaldlega hverfa úr lífi hans fyrir fullt og allt.
„Hún hafði ekki kjarkinn til að slíta sambandinu við hann sjálf,“ segir Evan. Þeim bræðrum sárnaði mjög þetta atvik og álitu skynsamlegra að endalok ástarsambands væru tilkynnt með einhverju móti, í stað þess að sambandið endaði allt í einu.
Áður en vikan leið voru bræðurnir búnir að stofna sambandsslitaþjónustuna. Frá því í nóvember 2015 hafa þeir sagt upp hundruðum karla og kvenna fyrir hönd viðskiptavina sinna.
Fyrirtækið býður upp á fjölbreyttar uppsagnarleiðir í mismunandi verðflokkum. Hægt er að láta senda fyrir sig hnitmiðaðan tölvupóst eða textaskilaboð fyrir tæplega 800 íslenskar krónur en þeir sem vilja sýna fyrrum elskanda sínum aðeins meiri umhyggju geta keypt lúxuspakkann á um 6000 krónur.
Það er lítil gjafaaskja sem kemur sömu skilaboðum á framfæri – í ögn fallegri búningi. Móttakandi fær meðal annars ilmandi smákökur og vínflösku með uppsagnarbréfinu.
Síðastliðna 18 mánuði, frá stofnun fyrirtækisins, hafa þeir bræður sagt upp hundruðum einstaklinga. Þeir taka það skilmerkilega fram að öll skilaboð séu lesin vel yfir.
Ef einhverjum viðskiptavini er heitt í hamsi og vill óska sínum fyrrverandi alls ills, er skeytið ekki sent. „Við gætum þess vel að koma aldrei meiðandi skilaboðum áleiðis,“ segir Evan í samtali við BBC.