Hefurðu einhvern tímann velt fyrir þér hvað það er sem skiptir þig mestu máli í lífinu? Jú, öll vitum við að það þarf að uppfylla grunnþarfirnar, borða, sofa og hitt þið vitið. Svo þarf maður að eiga peninga til að eiga í sig og á, koma frá þessum eilífa gluggapósti sem aldrei virðist týnast, allavega ekki í mínu póstnúmeri og allt hitt sem maður þarfnast, vantar og langar í. En þetta eru eingöngu veraldlegu hlutirnir sem stundum mætti vera mun minna framboð af, allavega fyrir konur sem hrifnar eru af fallegu dóti og með eilífan valkvíða varðandi það sem þær langar í.
En þegar upp er staðið þá eru það frekar „hlutirnir“ sem kosta ekkert sem skipta mestu máli, litlu hlutirnir sem sumum okkar finnst svo sjálfsagðir að við sjáum þá ekki, litlu hlutirnir sem sumir eiga svo auðvelt með að gera og gefa og aðrir ekki.
Hlutir eins og að líta alltaf á björtu hliðarnar, sama hversu dökkt er yfir, hlutir eins og hrós, hvatning, bros og faðmlag, hlutir sem kosta okkur ekkert, en gefa þeim sem þiggur svo heilmikið og okkur þá oftast til baka. Slíkir hlutir eru alltaf punkturinn yfir i-ið, eins og rjómi eða ís með súkkulaðikökunni, eitthvað sem gefur góðum degi eitthvað extra, þannig að maður leggur höfuðið á koddann á kvöldin, með sátt í hjarta og huga, og vaknar svo sáttur til að takast á við nýjan dag og síðan koll af kolli.
Fyrir mig eru slíkir hlutir til dæmis góð heilsa að öllu leyti fyrir mig og einkasoninn, hversu miklar perlur ég á sem vini og góða fólkið sem ég þekki og vill þekkja mig, veraldlegar eigur eru bara plús og skipta engu í sögulok, við munum öll hvíla á sama stað. Það eru litlu hlutirnir sem lifa, ekki þeir veraldlegu.
Setjum smá Birtu í hversdaginn, setjum smá birtu í líf okkar allra.
Bestu kveðjur, Ragna
ragna@dv.is