Allt stefnir í að stórtap verði á mynd Guy Ritchie, King Arthur: Legend of the Sword. Myndin kostaði 175 milljónir dollara í framleiðslu, en virðist einungis ætla að skila broti af þeirri upphæð. Aðsókn á frumsýningarhelgi olli miklum vonbrigðum. Talsmaður Warner Brothers sem framleiðir myndina segir að efni hennar höfði ekki til breiðs hóps og það valdi óneitanlega vonbrigðum. Gagnrýnendur hafa flestir gefið henni fremur slaka dóma en áhorfendur, sem eru að meirihluta karlmenn, eru sáttari. Það voru framleiðendum sérstök vonbrigði að myndin Snatched, sem kostaði 42 milljónir í framleiðslu, er með meiri aðsókn í Bandaríkjunum en Arthúr konungur. Amy Schumer og Goldie Hawn leika mæðgur í Snatched en sú mynd þykir heldur ekki nema í meðallagi.
Það er Charlie Hunnam sem fer með hlutverk Arthúrs konungs í samnefndri mynd og meðal annarra leikara eru Jude Law, Djimon Hounsou og Eric Bana. Myndin hefur síðan fengið mikla auglýsingu vegna Davids Beckham sem fer þar með lítið hlutverk, en afar skiptar skoðanir eru um frammistöðu hans.