fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fókus

Sér fólk og tóna í litum

Myndi aldrei þrífast í hefðbundinni 9–17 vinnu -Sér fólk og tóna í litum -Ætlar að skemmta Íslendingum í að minnsta kosti 40 ár til viðbótar

Kristín Clausen
Föstudaginn 12. maí 2017 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jóhannes Kristjánsson, betur þekktur sem Jóhannes eftirherma, tók á móti blaðamanni DV, Kristínu Clausen, á heimili sínu í Vesturbænum í vikunni. Jóhannes, sem er einn ástsælasti skemmtikraftur íslensku þjóðarinnar, ræddi bransann og lífið eftir hjartaskiptin sem hann undirgekkst árið 2009. Jóhannes kveðst vera svo heilsuhraustur eftir hjartaskiptin að hann hafi ekki einu sinni fengið kvef frá árinu 2009.

Jóhannes, sem er fæddur árið 1955, er uppalinn á Ingjaldssandi í Önundarfirði. Þegar hann var sex ára lenti hann á sjúkrahúsi, á Þingeyri, eftir að hafa skorist illa á stóru glerbroti á gamlársdag 1961. Sjúkrahúsvistin og endurhæfingin eftir slysið, tóku sinn tíma en vegna snjóa og ófærðar fór Jóhannes ekki aftur heim á Ingjaldssand fyrr en um páska. Í millitíðinni brallaði hann þó heilmikið á Þingeyri, sem í minningunni er eins og stórborg á borð við London og París.
„Þegar ég var orðinn rólfær fór ég niður í beitningaskúra, sagði körlunum sögur og hermdi eftir fólkinu þarna í kring. Þeir voru mjög hrifnir og borguðu mér peninga fyrir. Þegar ég fór niður á bryggju kepptust þeir um að fá mig um borð. Mennirnir létu mig segja sögur og hlógu eins og vitleysingar að mér. Mér fannst koli gríðarlega góður. Þegar það spurðist út vildu þeir ólmir bjóða mér í mat fyrir sögur. Ég var meira en sáttur við það.“

Næmur á fólk

Jóhannes átti það líka til að leika eftir hljóðum í hinum ýmsu tækjum og skepnum í sveitinni. Þá var hann snemma farinn að taka eftir alls konar sérkennum fólks sem enginn annar hugsaði út í. „Tónlist sé ég til dæmis í lit inni í höfðinu á mér. Litirnir eru alltaf á hreyfingu. Svoleiðis hefur það alltaf verið. Til dæmis þegar ég hlusta á lög með Bítlunum þá sé ég rauðfjólubláa og bláa liti. Þetta er skemmtilegt en ég áttaði mig ekki á því strax að fólk upplifði þetta ekki með sama hætti og ég. Það er samt fullt af fólki þarna úti sem flokkar tóna eftir litum, en ábyggilega töluvert færri sjá fólk í lit.“

Þá segir Jóhannes að hann hafi alltaf átt auðvelt með að skynja líðan fólks. „Ég er mjög næmur á fólk. Á tímabili fannst mér það óþægilegt. Ég sá hvernig fólk var þenkjandi. Þegar það var ekki nógu vel þenkjandi þá leið mér hálf illa. Sem betur fer hef ég náð meiri stjórn á því í dag.“

Þegar Jóhannes hermir eftir fólki finnur hann persónu viðkomandi koma yfir sig. „Ég æfi mig ekki upphátt heldur sé einstaklinginn fyrir mér í litum. Þegar ég er farinn að sjá manneskjuna í lit þá veit ég að ég get farið að herma eftir henni. Stundum tekur það stuttan tíma og stundum töluvert lengri. Allt upp í 20 ár. Ég þarf að sjá viðkomandi tala, skoða hvernig hann hreyfir sig, ná fasi og orðfæri. Það er það mikilvægasta svo allt sé klárt.“

Þrátt fyrir að hafa verið, meira og minna, viðloðinn skemmtanabransann allt sitt líf segir Jóhannes að það að vera fyndinn komi alls ekki eftir pöntun. Stundum þegar Jóhannes er að vinna prógramm á hann í mestu erfiðleikum með að semja nýtt eftir það. „Þegar mér finnst ég alveg tómur fer ég út að ganga eða jafnvel í sturtu. Það er svo róandi að hugsa í sturtu. Svo koma hugmyndirnar á öllum tímum sólarhringsins. Ég hef oft vaknað um miðja nótt eða eldsnemma um morgun og rokið beint í pennann þar sem ég hef fengið hugmynd á milli svefns og vöku.

Alltaf gaman í vinnunni

Prógrammið sem hann notar hverju sinni vinnur hann mestmegnis upp úr því sem er að gerast í þjóðfélaginu hverju sinni. „Ég styðst mikið við söguna og hvað er í umræðunni. Auðvitað er alltaf eitthvað gamalt sem slæðist með. Það fer líka mikið eftir því hvernig hópurinn sem ég er að skemmta er samsettur.“

Í vetur hefur Jóhannes skemmt ásamt Guðna Ágústssyni, fyrrverandi þingmanni og ráðherra. Þeir slógu saman í dúett og fara með sýninguna „Eftirherman og orginalinn láta gamminn geisa“. Þegar hafa verið sýningar víða um land og í haust halda þeir áfram með sýninguna þar sem hún hefur verið mjög vinsæl. „Þetta eru tveggja klukkustunda sýningar og það hefur gengið svo vel að það er engin ástæða til að hætta strax,“ segir Jóhannes, sem bíður spenntur eftir að stíga aftur á svið með Guðna.

Í 41 ár hefur Jóhannes nánast alfarið lifað á því að skemmta Íslendingum. Verkefnin, sem hlaupa nú á þúsundum, eru aldrei eins. „Ég hef fengið leiða á þessu í eina viku. Það var að hausti til. Síðan þá hefur mér alltaf þótt gaman að mæta í vinnuna. Þetta hefur gengið vel. Hef lítið þurft að auglýsa mig og markaðssetja. Samt er alltaf nóg að gera. Enda vanda ég mig og gef allt í þetta.“

Þessi misserin er Jóhannes mest bókaður á árshátíðir og aðra lokaða viðburði á vegum fyrirtækja. Þá er hann oft fenginn í brúðkaup. Einu sinni hefur hann verið beðinn um að skemmta í skilnaði. „Hann hefur þó dregist og er enn ekki genginn í gegn. Mér skilst að þau ætli að klára að ala börnin upp saman. Þau heyra svo bara í mér þegar að því kemur. Þá verður skilnaðarpartí. Ég get líka sagt þér að öll hjónaböndin sem ég hef skemmt í endast. Engin hjón sem ég hef skemmt í brúðkaupi hjá eru skilin.“

Yngra fólk með aldursfordóma

En hver er helsti munurinn á Jóhannesi og skemmtikröftum af þúsaldarkynslóðinni? „Mér finnst talsmátinn stundum leiðinlegur. Allt þetta „fokk“. Þá skiptir það miklu máli í dag að vera „þekkt andlit“. Mér finnst við eiga fullt af upprennandi og fyndnum skemmtikröftum. Þó svo að ég fylgist kannski ekkert allt of mikið með þá fer ég af og til á uppistand og skemmti mér vel.“

Jóhannes hefur einnig tekið eftir því að yngra fólk sé stundum með svolitla aldursfordóma í sinn garð. „Þau halda að ég sé ekki fyrir sig en svo þegar þau hafa heyrt það sem ég hef upp á að bjóða þá snýst þeim nú yfirleitt hugur,“ segir Jóhannes og skellihlær.

Þrátt fyrir að vera þaulvanur því að standa fyrir framan hóp fólks þá finnur Jóhannes oft fyrir fiðringi áður en hann stígur á svið. „Það má alveg kalla þetta frammistöðukvíða. Ég er líka þannig að ef ein setning er ekki nógu góð hjá mér þá situr hún í mér alla vikuna. Ég er samt ekkert með fullkomnunaráráttu. Maður vill bara alltaf gera betur og það er hollt.“

Aðspurður hvort hann sé ekki stundum búinn á því andlega eftir að hafa skemmt hundruðum, jafnvel þúsundum, sömu helgi svarar Jóhannes: „Það fer gríðarlega mikil orka í að standa uppi á sviði. Ég reyni að skammta orkuna í hverja skemmtun. Áður fyrr var svo mikið að gera hjá mér að ég kannski skreið heim eftir síðustu skemmtun helgarinnar og var fram á miðvikudag að jafna mig. Svo tók önnur löng helgartörn við. Svona gekk þetta í 20 ár. Ég keyrði mig alveg út. En sem betur fer er þetta ekki alveg svona í dag. Ég passa mig að bóka ekki of mörg verkefni sama daginn.“

Slakar á í náttúrunni

Jóhannes á jörð fyrir vestan og þangað fer hann mikið á sumrin en daglega mætir hann í ræktina þar sem hann hleður batteríin fyrir daginn. Þegar Jóhannes er í vinnutörn fer hann einnig oft út fyrir borgarmörkin til að slaka á. „Það þarf ekki alltaf að vera langt. Heldur bara að komast á stað þar sem maður finnur fyrir náttúrunni. Sjá snjóinn í grasinu. Hest á beit. Þegar ég kemst út í náttúruna þá klippi ég á allt.“

Ólíkt þeim sem dreymir um að geta verið í fríi frá vinnu á kvöldin og um helgar þá finnst Jóhannesi hálf ógnvekjandi að hugsa til þess að fólk sé fast í vinnu frá klukkan 9 á morgnana til klukkan 17, alla virka daga. „Þar sem ég vinn svona óhefðbundinn vinnudag finnst mér ég oft sitja á stól og horfa á þjóðfélagið utan frá. Það er skemmtilegt og maður fær sjálfsagt aðra sýn á tilveruna.“

Þær persónur sem Jóhannes er hvað þekktastur fyrir að herma eftir eru menn á borð við Ólaf Ragnar Grímsson og Guðna Ágústsson. Nýjasta eftirherma Jóhannesar er Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra. „Ég er farinn að ná honum þokkalega. Þetta er skemmtilegur karakter.“ Enn hefur Jóhannes ekki náð tökum á að herma eftir forseta lýðveldisins, Guðna Th. Jóhannessyni. „Ég er enn að bíða eftir því að Guðni festi sig í sessi. Að hann geri eitthvað af sér. Hann er með svo stabílan karakter og það er mismunandi hvað ég þarf að bíða lengi eftir fólki. En hann síast inn að lokum, hjá þjóðinni og mér.“

Fúla fólkið á þinginu

Jóhannes, sem er stjórnmálafræðingur að mennt, kveðst sakna þess úr íslenskum stjórnmálum að fólk komi sínum málum á framfæri með húmor og gleði. „Það er bara stutt síðan að fólk notaði húmor til að koma sínum málstað að. Það þekkist ekki lengur, því miður. Ef einhver reynir það þá er hann/hún bara fótum troðin/n strax.“

Af hverju heldur þú að það sé? „Ég veit það ekki. Kannski af því að gáfurnar eru að bera þetta fólk ofurliði. Það kom upp eitthvað sterkt afl með fúlu fólki. Það komst upp og því er hampað mikið í fjölmiðlum. Þetta fólk skýtur í kaf ef einhver segir eitthvað fyndið og jákvætt. Þú kemur miklu meira að með gleði heldur en skipunum og leiðindum. Það er bara staðreynd.“

Á þeim áratugum sem liðnir eru frá því að Jóhannes byrjaði að skemmta hefur einn maður gert athugasemd við eftirhermu hans. „Annars hefur enginn orðið sár út í mig eða reiður.“ Ástæðuna segir Jóhannes þá að hann taki ekki fólk í gegn með niðrandi hætti. „Það skilar engu. Sumir halda að ef þeir skíta einhvern út þá virki það vel. Það skilar engu. Ég var bara krakki þegar ég lærði það að ef þú ætlar að gera grín að manneskju þá er æskilegt að upphefja hana fyrst.“

Jóhannesi þykir mun skemmtilegra að tala við fólk á jákvæðan og hlægilegan hátt. „Það er algjör óþarfi að koma öllu þessu klámi að. Fólk hlær af því að það losar um spennu. Ekki af því að það er fyndið. Þetta er eins og þegar fólk klappaði fyrir Hitler. Það langaði ekkert að klappa en þorði ekki öðru svo það yrði ekki drepið.“

Ekki pólitískur á sviði

Aðspurður hvort hann sé pólitískur svarar Jóhannes að hann sé ekki með flokkspólitíska stefnu í sínu prógrammi. „Að vera með eigin pólitík á sviði eða í sjónvarpinu er að mínu mati alveg galið. Þá tel ég að listamenn hafi ekki eins mikil áhrif á þjóðfélagið og búið er að berja inn í hausinn á okkur. Ég trúi því alls ekki.“

Stundum er sagt að gamanleikarar séu alvörugefið fólk, jafnvel þunglynt. Á það við um þig?„Ég er alvörugefinn en ekki þunglyndur. Það er alvara í lífinu, ég gleymi henni ekki. Ég reyni hins vegar að komast gegnum lífið á léttan máta. Þá reyni ég frekar að vera glaður en hress. Það er samt þannig með þetta starf að þú gefur rosalega mikið af þér. Þá er auðvelt að verða tómur. Einhvers staðar þarf maður að fá nýja orku. Að mínu mati er eina töfralausnin sú að ganga á fjöll eða fara í langa göngutúra. Þá framleiðir líkaminn svo mikið endorfín að hann læknar sig. Það er alveg dýrlegt að reyna á sig.“

Það að vera þekktur á Íslandi fer ekki mikið fyrir brjóstið á Jóhannesi. Það eina sem fer í taugarnar á honum, í þessu samhengi, er drukkið fólk. „Ég reyni að taka jákvæðnina á þetta. En drukkið fólk þarf að segja mér svo margt. Þess vegna læt ég fáa ná í mig áður en ég byrja að skemmta. En ég hef alltaf mikinn áhuga á að tala við fólk. Síst þó þegar það er drukkið. Vín og annað dóp firrar okkur heilu viti.“

Enginn púls í þrjár vikur

Árið 1999 fékk Jóhannes kransæðastíflu en þá skemmdist hluti af hjartanu. Á sjómannadaginn árið 2009 gafst hjartað endanlega upp en þá fékk Jóhannes tvö hjartastopp sama dag. Hjarta hans var svo skaddað á eftir að hann þurfti að fá nýtt hjarta grætt í sig. Hjartaskiptaaðgerðin varð gerð á Sahlgrenska-sjúkrahúsinu í Gautaborg í lok ágúst 2009. Í viðtali við DV árið 2009 kveðst Jóhannes lítið muna frá því að hann hné niður og þar til hann vaknaði í Gautaborg þremur vikum síðar þar sem setja átti upp dælu.

„Mér var sagt að hjartað hefði ekki átt nema um tvo klukkutíma eftir og það er fjögurra tíma flug út. Það var því ekki nema upp á von og óvon. En ég dugði alla leið inn á sjúkrahús og þar var sett inn í magann á mér þessi dæla sem tengd er við hjartað. Dælan sá um að næra líkama Jóhannesar með blóði næstu tvo mánuðina á meðan hann beið eftir nýju hjarta. Hann segir það hafa verið svolítið skrítið að vera með dæluna því hún sprauti blóðinu stöðugt sem þýðir að hann var ekki með neinn púls þær vikur sem gamla hjartað var á „stand by“ inni í honum og dælan í maganum sá um vinnuna.

Eftir að dælan var farin að gera sitt gagn var Jóhannes sendur aftur til Íslands. Á meðan Jóhannes beið eftir hjartanu dvaldi hann á Landspítalanum við Hringbraut. „Það kom aldrei til greina að ég myndi deyja. Enginn talaði þannig og ég trúði því ekki í sekúndu að þetta væri búið. Kannski gerði ég mér ekki fyllilega grein fyrir því hversu veikur ég var. Þessir læknar sem sáu um mig voru svo miklir snillingar að þeir náðu að halda mér alveg rólegum.“

Óttaðist aldrei um líf sitt

Nokkrum mánuðum síðar kom kallið. Búið var að finna hjarta fyrir Jóhannes. Tæpri klukkustund eftir að hann var búinn að fá að vita að búið væri að finna nýtt hjarta voru Jóhannes og eiginkona hans komin í rúmlega 25 þúsund feta hæð á leið til Svíþjóðar. „Margt fór um huga Jóhannesar í þessari flugferð. „Ég man að ég horfði upp í loftið á þessari litlu Cessna-vél og hugsaði: „Hvað er að gerast? Er ég eða eru allir aðrir geggjaðir? Ég er nýbúinn að vera lítill drengur á Ingjaldssandi og svo er ég allt í einu að fara út í heim í svona lítilli vél til að skipta um hjarta í mér. Það er ekkert vit í þessu.“ En svo hlakkaði ég alltaf meira og meira til að fara í aðgerðina, bara eins og barn um jólin, af því að ég var svo algerlega öruggur um að læknunum myndi takast þetta. Ég var búinn að heyra að þessir menn sem eru þarna séu þeir bestu í heiminum í svona aðgerðum og því var enginn efi hjá mér.“

Aðgerðin og allt bataferlið gekk vonum framar. Jóhannes fékk hjarta úr tvítugum einstaklingi og hefur varla kennt sér meins síðan. „Ég breyttist í jafn kraftmikinn mann og þegar ég var um tvítugt. Þess vegna ætla ég að skemmta í 40 ár til viðbótar, hið minnsta, til að byrja með.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Birti mynd af nánast nöktum líkama eiginkonunnar – Netverjar í áfalli og segja ekki öruggt að skoða hana í vinnunni

Birti mynd af nánast nöktum líkama eiginkonunnar – Netverjar í áfalli og segja ekki öruggt að skoða hana í vinnunni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Grátt, svart og hvítt áberandi í endurnýjaðri eign í Reykjavík

Grátt, svart og hvítt áberandi í endurnýjaðri eign í Reykjavík
Fókus
Fyrir 3 dögum

Aron var handtekinn af fjórum lögreglumönnum, sprautaður niður og fluttur á Landspítalann – Greindur með sjaldgæfan sjúkdóm í kjölfarið

Aron var handtekinn af fjórum lögreglumönnum, sprautaður niður og fluttur á Landspítalann – Greindur með sjaldgæfan sjúkdóm í kjölfarið
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að ótrúlegir hlutir hafi gerst þegar hún hætti að borða ávexti, grænmeti og kolvetni

Segir að ótrúlegir hlutir hafi gerst þegar hún hætti að borða ávexti, grænmeti og kolvetni