Fyrsta viðtal Brad Pitt eftir skilnað hans og Angelinu Jolie er við GQ Style tímaritið. Þar segir Pitt að hjónaband hans og Angelinu Jolie hafi beðið skipbrot vegna drykkju hans. Hann segist hafa verið atvinnumaður í drykkju og getað drukkið hvern sem er undir borðið. Hann segist sömuleiðis ekki hafa sinnt börnum þeirra sex jafn vel og hann hefði átt að gera. „Börn eru viðkvæm. Þau soga allt í sig. Það þarf að halda í hönd þeirra og útskýra hlutina fyrir þeim. Það þarf að hlusta á þau. Þegar ég er í vinnuham þá heyri ég ekki. Þarna vil ég taka mig á því ég vil vera til staðar fyrir þau,“ segir hann.
Í viðtalinu kemur fram að eftir skilnaðinn hafi Pitt gengið reglulega til sálfræðings og að honum finnist það gera sér gott. Hann segist nú gera sér grein fyrir því að hann sé tilfinningalega vanþroska.
Pitt segist hafa hætt að drekka eftir að þau Jolie slitu samvistum. Að sögn er Pitt umhugað um að samband þeirra Jolie verði á vinsamlegum nótum, ekki síst barna þeirra vegna.